Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld, gerir upp menningarárið 2017
Í menningarannál ársins 2017 sem birtist í áramótablaði DV verður stiklað á stóru og rifjað upp það helsta sem átti sér stað í lista- og menningarheiminum á árinu sem er að líða. Leitað var til hóps álitsgjafa úr ýmsum kimum íslensks menningarlífs við gerð samantektarinnar. Daglega frá jólum og fram yfir þrettándann munu vangaveltur álitsgjafanna birtast í heild sinni á menningarsíðu DV.is. Þar líta þeir yfir árið, rifja upp það markverðasta og eftirminnilegasta í íslensku listalífi árið 2017 og greina stöðuna í menningunni í árslok.
Blaðamaður og skáld
Hvað var eftirminnilegasta listaverk eða menningarafurð ársins 2017?
Bestu listarverkin verða stundum stærri en listamaðurinn – og afhjúpa jafnvel eitthvað sem honum er sjálfum hulið. Besta dæmið um slíkt í ár er myndband Ragnars Kjartanssonar fyrir síðustu kosningar. Fyrst sjáum við ramma: „Skrímsladeildin kynnir:“ Svo sjáum við sögumanninn Ragnar hugleiða með sér: „Ímyndum okkur, að þrátt fyrir allt sem á undan hefur gengið, að þá sigri Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn kosningarnar.“
Ímyndunin reynist vera harður kampavínssósíalismi, þar sem Ragnar sjálfur stígur á stokk og flytur ræðu með myndi sóma hvaða verkalýðsleiðtoga sem er.
„Góðir gestir, mig langar til þess að skála fyrir verkalýðnum í landinu. Og svo langar mig til þess að skála fyrir því að það er búið að hækka lágmarkslaun og tryggja að allir hafi grunnframfærslu og gott betur. Lifi velferðin!“
En fólk hlær meira en það klappar, þetta er ekki verkalýðurinn heldur jakkafataklædd stjórnmálaelíta með kampavín við hönd, og ræðan er brandari stjórnmálaleiðtoga sem veit vel að verkalýðurinn er fólk sem hann sækir atkvæði til, en ekki fólk sem hann þjónar. Þessum orðum fylgja seint gjörðir – eða það fullyrðir altént Ragnar sjálfur í kjölfar samkvæmismyndskeiðsins, að þetta sé nú harla ólíklegt.
En fyrir kosningar virtist þetta leikrit, þar sem aðalleikararnir voru líklega flestir flokksmenn VG sem maður ímyndaði sér að væru komnir aftur í lopapeysuna um leið og tökum lyki. Þeir voru að leika í hryllingsmynd um leið og þeir voru að reyna að afstýra henni. En nú skyndilega hafa þeir vaxið inní hlutverkið, þeim leið skringilega vel í þessum jakkafötum – og við höfum heyrt ítrekað afbrigði þessarar ræðu frá fulltrúum nýrrar ríkisstjórnar – þar sem skrímsladeildin og fólkið sem gerði hryllingsmyndina um þá eru farin að vinna saman að næsta leikriti. Þannig renna saman mörk raunveruleika og listar, leikinna mynda og heimildamynda, á ísmeygilegan hátt sem fáa hefði grunað að væri mögulegt.
Hvað þótti þér markverðast í menningarlífinu á Íslandi á árinu?
Iðnaðarlist, þar sem mörk pólitíkur, viðskipta, auglýsinga og skáldskapar skarast, var áberandi á árinu, þar get ég nefnt bæði verk Ragnars Kjartanssonar sem ég nefni hér að ofan, sem og auglýsingaherferð Íslandsbanka í vor þar sem við upplifðum mögulega þéttasta og ástríðufyllsta faðmlagi markaðs og fjölmiðla sem hingað til hefur sést á Íslandi, þar sem mest lesna dagblað landsins var vafið inní þessa fölsku uppörvun bankans til þeirra sem skrimtu á húsnæðismarkaði: „Ekki gefast upp. Það er hægt. Ef þú hefur plan.“
Þetta var líka enn eitt árið sem menningarrýni átti undir högg að sækja – ekkert verra en mörg undanfarin ár kannski, en samt tímanna tákn þegar einn afdráttarlausasti gagnrýnandi landsins, Sindri Eldon, fann sig knúinn til að biðjast opinberlega afsökunar á eigin afdráttarleysi – og allir klöppuðu. Þangað er gagnrýnin á Íslandi komin – hún er í dauðateygjunum og það klappa allir þegar gagnrýnandi deyr.
Einhverjir munu örugglega nefna #metoo bylgjuna, en mér sýnist hún vera rétt að byrja í íslensku listalífi – líklega er best að hinkra aðeins til að sjá hvaða áhrif hún hefur á endanum.
Hins vegar má spá strax fyrir um trend næsta árs – það verður ár kvenleikstjóranna, þar sem Ása Helga Hjörleifsdóttir, Ísold Uggadóttir og Kristín Jóhannesdóttir munu allar frumsýna myndir, fyrstu myndir Ásu og Ísoldar í fullri lengd og fyrstu mynd Kristínar í alltof langan tíma.
En árið sem leið verður þó alltaf fyrst og fremst árið sem ég stoppaði á bensínstöð einhvers staðar í Mývatnnssveit og komst að því að Sigurður Pálsson var látinn. Ég minnist ekki að hafa upplifað jafn sterk viðbrögð við dauða neins íslensks listamanns síðan Kiljan dó – sem var bæði til marks um magnaða orðkynngi hans og það hversu djúpstæð áhrif hann hafði á alla sem hann kynntist, jafnvel þegar kynnin voru lítil og takmörkuð. En nú var þessi rödd þögnuð, þetta kankvísa bros myndi aðeins lifa á myndum og bene bene aðeins heyrast í vanmáttugri endursögn.
En samt þagnar hún aldrei, sem betur fer – og hún talar alltaf til manns. Jafnvel á nánast yfirskilvitlegan hátt – þegar ég var hálfvilltur í skóginum sem afi minn og fleiri góðir menn gróðursettu – og með útvarpið í heyrunum heyri ég skyndilega Sigga lesa Óð um tré og skóga: „Tré sem vex er kennari, lífvera sem kennir okkur að sjá hlutina á bak við hlutina, fræið bak við tréð, áform sem vex eins og lífvera, fjölgar sér eins og lífvera, deyr eins og lífvera.“
Og skyndilega rataði ég aftur.
Hvað finnst þér hafa einkennt menningarlífið/ -umræðuna á Íslandi árið 2017?
Það hvernig umræðu um erfiða stöðu bókmennta var ítrekað ruglað saman við stöðu íslenskunnar. Þetta virðist nánast vera skylda, það er varla hægt að ræða skáldskap á opinberum vettvangi án þess að íslenskan beri á góma. En málið er að við erum þrátt fyrir allt afskekkt sjálfstæð eyþjóð, íslenskan hefur það fínt – við þurfum vissulega að vera dugleg að koma henni fyrir í talandi tækjum framtíðarinnar og við þurfum að gera þeim sem vilja læra hana það eins auðvelt og hægt er – en að öllu því sögðu, íslenskan hefur það fínt. Hins vegar er miklu frekar ástæða til þess að hafa áhyggjur af bókmenntum, listum og fjölmiðlum – af því listirnar snúast um svo miklu mikilvægari hluti en eitthvað tungumál. Ef þær hverfa eða eða sökkva undir yfirborðið þá munum við tala um margt á fínustu íslensku, en hugsa fátt gagnrýnið, af því við fáum ekki lengur þá þjálfun í krítískri hugsun sem við þurfum.
Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld
Brynja Pétursdóttir, danskennari
Gísli Hauksson, forstjóri GAMMA
Silja Aðalsteinsdóttir, bókmenntafræðingur og leikhúsgagnrýnandi
Jóhannes Gunnar Þorsteinsson, tölvuleikjasmiður og tónlistarmaður
Dýrfinna Benita (Countess Malaise), tónlistar- og myndlistarkona
Sjón, rithöfundur.
Fleiri ársuppgjör birtast á menningarsíðu dv.is á næstu dögum…