Fyrir fólk í kringum fertugt og eldra var viðureignin milli skautadrottninganna Nancy Kerrigan og Tonyu Harding í Lillehammer árið 1994 ógleymanleg eftir að Kerrigan var slegin í hné með kylfu. Fyrir marga var þetta fyrsta raunverulega fjölmiðlafárið en hið næsta tók við nokkrum mánuðum síðar þegar OJ Simpson var eltur af lögreglu í bifreið sinni. Sagan af Kerrigan og Harding var sápuópera og í raun skrítið að mynd eins og I, Tonya hafi ekki verið gerð fyrr.
I, Tonya er, eins og titillinn gefur til kynna, ævisaga Tonyu Harding og Nancy Kerrigan birtist í raun ekki á skjánum nema í mýflugumynd. Ekki er það skrítið í ljósi þess að Harding er margfalt áhugaverðari persóna og með mikla harmsögu að baki. Líkt og Harding ólst Kerrigan upp við þröngan kost en lék hlutverk ísprinsessunnar vel og einbeitti sér að fallegum línum. Harding var hins vegar óhefluð rokkstjarna sem féll aldrei í kramið hjá skautasamfélaginu eða dómurum. Hæfileikar hennar eru hins vegar óumdeildir og ef ekki hefði verið fyrir ytri aðstæður hefði hún sennilega farið í sögubækurnar sem ein allra besta skautakona heims.
Myndin fjallar um alvarlega atburði, heimilisofbeldi og glæpi, en hún er borin fram sem léttmeti. Handritið er að miklu leyti byggt á alvöru viðtölum við fjölskyldu Harding og aðila máls og myndin er því að hluta til sett upp eins og grín-heimildarmynd (mockumentary). Við fylgjum Harding frá því hún stígur fyrst á svellið fjögurra ára gömul og fylgjum henni í gegnum uppvaxtarárin. Stærstur hluti myndarinnar fjallar vitaskuld um árásina á Kerrigan í Detroit fyrir Ólympíuleikana og í lokin sjáum við hvað varð um Harding eftir hana.
Harding var manneskja sem átti aldrei séns. Hún ólst upp hjá ofbeldisfullri og niðurrífandi móður sem hafði þó mikinn metnað fyrir Harding sem íþróttamanni. Ung lenti Harding í öðru ofbeldissambandi með eiginmanni sínum, Jeff Gillooly, sem hrinti af stað atburðarásinni þekktu ásamt félaga sínum, Shawn Eckardt, og tveimur samstarfsmönnum hans. Umhverfið mótaði Harding og þess vegna varð hún jafn groddaleg og óhefluð og raun bar vitni.
Sagan hefur dæmt Tonyu Harding hart og sumir halda að hún hafi persónulega veist að Nancy Kerrigan. Þessi kvikmynd er hins vegar nokkuð raunsönn lýsing á atburðunum og samúðin er öll hennar megin. Allt frá blautu barnsbeini var Harding lamin, niðurlægð, sögð heimsk og einskis nýt. Hvítt rusl sem ætti ekki heima á svellinu og því fékk hún ekki þær einkunnir sem hún átti skilið. Engu að síður var hún staðföst og afrekaði miklu á stuttum ferli. Ástralska leikkonan Margot Robbie leikur hana meistaralega, bæði sem ungling og sem fimmtuga konu. Þrátt fyrir þessa frammistöðu nær Allison Janney (þekktust úr þáttunum The West Wing) að stela senunni sem móðir hennar LaVona. Álit áhorfandans á þeirri persónu hringsnýst alla myndina.
Karlmennirnir í myndinni eru hver öðrum misheppnaðri. Það er fyrst og fremst heimska, samskiptaörðugleikar, hégómi og stórmennskubrjálæði sem verður þeim að falli. Eftir á að hyggja skilur maður varla hvernig slíkir aular náðu að búa til stærsta hneyksli íþróttasögunnar.
Fyrir utan sterkt handrit og frammistöðu leikara þá verða kvikmyndatökumennirnir að fá sérstakt hrós. Skautaatriðin sjálf eru ákaflega glæsileg og árásin sjálf er mynduð í einni töku.
Þeir sem hafa kynnt sér sögu Tonyu Harding vita að sagan hefur dæmt hana allt of hart. I, Tonya er því bæði réttlát og upplýsandi. Hinn kæruleysislegi og léttlyndi stíll hentar myndinni ágætlega en þó hefur maður á tilfinningunni að sumar persónurnar séu hálfgerð karíkatúr af sjálfum sér. Helsti styrkleiki myndarinnar er samband mæðgnanna og frammistaða Robbie og Janney í þeim hlutverkum. Þær hljóta báðar að koma sterklega til greina þegar óskarsakademían velur bestu leikkonurnar á nýju ári.
4,5 stjörnur