Tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands kynntar
Tilkynnt hefur verið um forval dómnefndar á fimm tilnefningum til Hönnunarverðlauna Íslands árið 2017. Þetta er í fjórða skipti sem verðlaunin eru veitt, en þau hlýtur hönnuður, arkitekt, hönnunarteymi eða -stofa fyrir framúrskarandi nýtt verk; einstakan hlut, verkefni eða safn verka. Sigurvegarinn verður tilkynntur 9. nóvember næstkomandi.
Listamiðstöðin Marshall-húsið var opnuð í sumar í gamalli síldarbræðslu við Reykajvíkurhöfn, en það voru arkitektarnir Steinþór Kári Kárason og Ásmundur Hrafn Sturluson sem leiddu verkefnið í samstarfi við ASK Arkitekta. Dómnefndin segir verkið „kristalla velheppnaða breytingu eldra iðnaðarhúsnæðis fyrir nýtt hlutverk í samtímanum.“
Döðlur hönnuðu merki og heildarásýnd listahátíðarinnar Cycle sem er ætlað að skapa samtal milli tilraunakenndrar samtímatónlistar og myndlistar. Dómnefndin segir hönnunina „endurspegla áherslur hátíðarinnar á einfaldan en tilraunakenndan hátt.“
Reitir er alþjóðlegt samstarfsverkefni Ara Marteinssonar hönnuðar og Arnars Ómarssonar myndlistarmanns, og undir því nafni stóðu þeir fyrir þverfaglegum vinnusmiðjum í Alþýðuhúsinu Siglufirði frá 2012 til 2016. Í ár gáfu þeir svo út leiðarvísinn, Tools for Collaboration, en það var Sophie Haack sem hannaði og ritstýrði.
Tvö orlofshús Bandalags háskólamanna í Bláskógabyggð voru byggð eftir hönnun PKDM árið 2015. Þau eru sögð einkennast af ríkri efniskennd með umlykjandi landslagsmótun, hlöðnum veggjum, kolaðri timburklæðningu og grasi grónu þaki.
Landslag hannaði varanlegan stíg sem á að takmarka umgang ferðamanna við ákveðið svæði við gíginn Saxhól í þjóðgarði Snæfellsjökuls. Dómnefnd segir að stígurinn sé „gott dæmi um hvernig hlúa má á faglegan og fagurfræðilegan hátt að vinsælum ferðamannastöðum.“