Áslaug Agnarsdóttir er þýðandi smásagna eftir þekktustu höfunda Rússa á 19. öld
Bókin Sögur frá Rússlandi hefur að geyma smásögur eftir nokkra af þekktustu rithöfundum Rússa á 19. öld. Þetta eru rithöfundarnir Alexander Púshkín, Nikolaj Gogol, Fjodor Dostojevskí, Ívan Túrgenev, Lev Tolstoj, Anton Tsjekhov, Ívan Búnín og Teffí.
Áslaug Agnarsdóttir þýddi sögurnar. Þegar hún er spurð hvernig hún hafi valið þær segir hún: „Ég miðaði við að sögurnar hefðu verið skrifaðar fyrir byltinguna 1917. Ég byrjaði á að velja þá frægu sögu, Spaðadrottninguna eftir Púshkín. Hún hefur reyndar verið þýdd áður fyrir margt löngu en ekki úr frummálinu. Mig hafði lengi langað til að þýða hana. Svo fór ég að leita að fleiri sögum til að bæta við. Ég átti drög að þýðingu á frægri sögu eftir Búnín sem ég lauk við og svo valdi ég sögur eftir Tsjekhov og Tolstoj. Þrjár sögur í þessari bók, m.a. sögurnar eftir Gogol og Túrgenev, hafa áður komið út í smásagnasöfnum sem nú eru ófáanleg. Ég leitaði að sögum eftir konur frá þessum tíma og fann hina skemmtilegu Teffí og tvær sögur eftir hana rötuðu í bókina.“
Aðspurð segir Áslaug að Spaðadrottning Púshkíns sé eftirlætissaga sín í bókinni. „Púshkín var fyrst og fremst ljóðskáld. En þessi spennandi saga er eitt af bestu prósaverkum hans. Rússar líta á hann sem sitt helsta þjóðskáld og brautryðjanda í rússneskum nútímabókmenntum.“
Sögur frá Rússlandi kemur út innbundin í fallegri útgáfu, en ekki í kilju eins og svo algengt er orðið. „Mér þótti mjög vænt um það þegar Jakob F. Ásgeirsson hjá Uglu sem gefur bókina út sagðist vilja gefa hana út innbundna. Ég er honum mjög þakklát fyrir að hafa viljað gefa hana út á þennan hátt,“ segir Áslaug.
Spurð hver sé eftirlætis rússneski höfundur hennar segir Áslaug: „Ef ég ætti að nefna einhvern einn þá er það Tsjekhov. Hann hefur sterka mannlega taug og hefur greinilega samúð með lítilmagnanum.“ Hún vitnar í rússneska höfundinn Sergej Dovlatov sem sagði: „Það má vegsama andagift Tolstojs, hafa ánægju af orðfimi Púshkíns, kunna að meta sálarangist Dostojevskís og kímnigáfu Gogols, en sá eini sem ég myndi vilja líkast er Tsjekhov.“
Fyrr á þessu ári kom einmitt út skáldsaga eftir Dovlatov í þýðingu Áslaugar, Kona frá öðru landi. „Dovlatov fæddist 1941 og lést 1990 svo hann náði ekki háum aldri. Hann flutti frá Sovétríkjunum til New York og bjó þar síðustu tólf ár ævi sinnar. Hann er vel þekktur vestanhafs og mikils metinn enda var gata í Queens-hverfinu í New York nefnd eftir honum. Kona frá öðru landi fjallar einmitt um Rússa í Queens. Dovlatov er sjálfur sögupersóna í þessari sögu og kemur fram undir nafni og gerir það einnig í fleiri sögum sem hann hefur skrifað. Þessi bók þykir mjög aðgengileg, létt og meinfyndin. Ég held mikið upp á 19. öldina í rússneskum bókmenntum og hef kannski mest gaman af að þýða verk eftir höfunda þess tíma en ég hef einnig haft mikla ánægju af að þýða nútíma höfunda sem höfða til mín.“
Áslaug lagði stund á rússnesku í Óslóarháskóla og tók þar cand.mag-próf. Hún fékk síðan styrk til dvalar í Rússlandi og var þar veturinn 1975–76. Hún hefur þýtt þó nokkuð, einkum úr rússnesku, og fleiri þýðingarverkefni eru á döfinni. Hún og eiginmaður hennar, Óskar Árni Óskarsson skáld, eru um þessar mundir að þýða örsögur eftir absúrdhöfundinn Danííl Kharms (1905-42). „Kharms skrifaði stuttar sögur fyrir börn og fullorðna. Hann var þekktur sem barnabókahöfundur meðan hann lifði og sögur hans fyrir fullorðna voru ekki gefnar út í heimalandinu fyrr en á áttunda áratugi síðustu aldar. Nú er hann þekktur um heim allan. Hann dó hungurdauða í umsátrinu um Leníngrad.“
Þegar talið berst að bókmenntum og þýðingum úr rússnesku er ekki annað hægt en að minnast á Stríð og frið eftir Tolstoj en það mikla verk hefur ekki komið út óstytt á íslensku. „Ég hefði mjög gaman af því að þýða Stríð og frið en það er svo mikil bók að ég veit ekki hvort mér myndi endast ævin til þess,“ segir Áslaug. „Ég er samt alltaf með það bak við eyrað að byrja á þeirri stóru sögu og sjá svo til hvernig það mundi ganga. Hún þyrfti að vera til í íslenskri útgáfu óstytt og ég held að ég hefði mjög gaman af að fást við að þýða hana.“
Hún segist einnig hafa mikinn áhuga að koma saman í eina bók rússneskum smásögum sem skrifaðar voru eftir byltinguna. „Í þeirri bók kæmu konur sterkar inn því þar er af nógu að taka,“ segir Áslaug.