fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025

Nánast glæpsamlegt að reyna ekki að lifa til fulls

Saga Ástu er nýjasta skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar – Höfundurinn segir lestur á skáldskap geta víkkað hugsun okkar

Kolbrún Bergþórsdóttir
Laugardaginn 4. nóvember 2017 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Saga Ástu er ný skáldsaga Jóns Kalmans Stefánssonar. Þetta er fjölskyldusaga sem spannar þónokkurn tíma. Í henni má finna stef sem lesendur kannast við úr fyrri bókum höfundar, hugleiðingar um lífið, tímann, dauðann og ástina.

Af hverju er þér tíminn svo hugleikinn og það hvernig við nýtum hann?

„Um daginn keypti ég bók um stjörnufræði, Reality is not what it seems – sú staðhæfing kemur skáldum varla á óvart … nema, einn af köflunum þar fjallar um tímann, og ber heitið: Tíminn er ekki til. Sé það rétt er ég að skrifa um það sem er ekki til.

En stundum líður manni eins og tíminn sé sendisveinn dauðans. Enda eru það gömul og óbifanleg sannindi að hver sekúnda færir okkur nær dauðanum. Og við getum lítið gert við því. En frá því ég man eftir mér hefur mér fundist að okkur beri skylda til að nýta þann tíma sem við höfum. Ég hef ekki enn séð sönnun fyrir því að við fáum annað tækifæri, auk þess skiptir það ekki máli því ef það er annað tækifæri þá vitum við ekki hvernig það verður. Við erum stödd hér og nú, og það er dapurlegt, nánast glæpsamlegt, að reyna ekki að lifa til fulls. Samkvæmt Guðdómlegum gleðileik Dantes frá 13. öld, þá er þeim sem aldrei þora að lifa, taka aldrei áhættu en bara líða áfram, bæði hafnað af himnaríki og helvíti og hljóta því hin verstu örlög.“

Tilfinning fyrir rétta tóninum

Jón Kalman var fimm ára gamall þegar móðir hans lést 29 ára gömul úr krabbameini. Hann er spurður hvort sá missir hafi ekki átt mikinn þátt í að móta hann og hugmyndir hans.

„Öll erfið og afgerandi reynsla hefur mikil áhrif. Ég væri sjálfsagt ekki sá sem ég er ef móðir mín hefði ekki dáið. Það hefur alltaf búið í mér að mér finnst ég hafa verið beittur órétti, og heimurinn allur, með því að taka þá konu svo snemma burt. Ég hef í og með alltaf verið að reyna að leiðrétta þann órétt.“

Ástin er þér hugleikin og þú ert alls óhræddur við að sýna viðkvæmni í verkum þínum. Óttastu aldrei að verða væminn?

„Það er alveg sama hvað ég skrifa, hvort sem það er viðkvæmni, erótík, ást, grimmd eða ádeila, þá snýst það allt um fínstillingu. Maður verður að hafa tilfinningu fyrir rétta tóninum. Ef maður nær ekki að fínstilla misheppnast hlutir. Það er átakanlega erfitt að lesa erótík sem á ekki heima í bók. Sama á við um viðkvæmni, það er ófyrirgefanlegt ef hún verður að væmni.

Stundum er ég spurður af hverju ég sé alltaf að takast á við þessar stóru spurningar: Lífið, dauðann og allan þann pakka. Ég man að ég varð afar undrandi þegar ég var fyrst spurður út í það. Ég hafði einfaldlega aldrei velt því fyrir mér. Fannst það bara svo sjálfsagt. Og finnst það enn. Kannski sé ég ekki heiminn eins og maður á að sjá hann. Ástin og dauðinn, jú, það er eitthvað sem breytir öllu, en um leið órjúfanlegur hluti tilverunnar. Alls staðar í kringum okkur og því í sjálfu sér hversdagslegt. Fyrir mér er jafn sjálfsagt að skrifa um ástina, dauðann og að lýsa því hvernig kaffi kólnar.“

Fóstra Ástu, aðalpersónu bókarinnar, er afar minnisstæð og fulltrúi góðvildar og heiðarleika. Er einhver fyrirmynd að henni?

„Móðursystir mín var alin upp af eldri konu sem tók hana að sér. Þegar hún talaði um hana skynjaði maður góðsemdina sem finnst í lífinu og manneskjum. Þegar maður kynnist eða hnýtur um þannig góðsemd þá verður bókstaflega auðveldara að trúa á mannkynið. Þrátt fyrir allt. En slíkar manneskjur eru oft nánast ósýnilegar í samfélaginu vegna þess að þær berast ekki á. Hógværar manneskjur. En góðsemd þeirra og gæska er samt svo mikil að hún getur sveigt lögmál tímans. Ætli ég hafi ekki viljað lýsa þannig manneskju.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hagsmunirnir uppnefna hugsjónirnar

Þú vísar mikið í skáldskap í bókinni og segir að bókabúðirnar hér á landi séu orðnar eins og lundabúðir.

„Íslenskt þjóðfélag er sumpart barbarískt. Og ber þess svo oft átakanlega skýr merki að vera fyrrverandi nýlenda. Ég held að við höfum einfaldlega aldrei áttað okkur almennilega á því hvernig samfélag við viljum hafa. Við stungum Dani í bakið meðan þeir voru undir hæl nasista, stofnuðum lýðveldi og héldum partí meðan heimurinn brann. Það er ekki fallega farið af stað. Og síðan þá hefur samfélagið meira eða minna verið knúið áfram af hagsmunum. Stundum græðgi. Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa lengst af stjórnað landinu, þeir hafa mótað samfélag okkar, og saga þeirra beggja virðist því miður fyrst og síðast drifin áfram af hagsmunum og hagsmunapoti. Það hefur alltaf vantað hugsjónir í íslenskt samfélag. Hagsmunirnir uppnefna hugsjónirnar sem ábyrgðarlaust tilfinningahjal, og keyra þær síðan niður.

En já, barbarisminn sést líka í því hvernig við seljum bækur. Við segjumst vera bókaþjóð og erum það sumpart. Við eigum engar glæstar byggingar eins og aðrar þjóðir. En Íslendingasögurnar eru okkar dómkirkjur. Bókmenntirnar.
Og bókamarkaðurinn hér er að mörgu leyti dásamlegur. Næstum kraftaverk. Lygilega öflugur miðað við smæð og talsvert af góðum bókum sem kemur út. Við virðumst hins vegar á stundum hafa takmarkaðan skilning á menningunni sem getur fylgt bókum. Bækur eru félagsskapur og þeir sem hafa áhuga á bókum vilja tala um þær við annað fólk. Bókabúðir í Frakklandi eru til dæmis allt í senn, félagsmiðstöðvar, vettvangur fyrir umræður, staður til að finna ró. En við kjósum að setja bækurnar inn í Bónus og Krónuna og seljum þær þar með mjólkinni. Síðan breytum við bókabúðum í lundabúðir. Í bókabúðum Reykjavíkur þarf maður iðulega að fara í gegnum túristaglingur til að komast að bókunum. Það er ekkert að því að selja lunda, tröll og álfa, en það er óþarfi fyrir okkur að liggja svo flöt fyrir túristum að við setjum bækurnar í bakherbergið.“

Á einum stað í bókinni spyrð þú hvort skáldskapurinn eigi að fá okkur til að lifa betur. Þú trúir því að hann eigi að gera það?

„Kannski er ég bara svona vonlaus eða áttavilltur en ég hef alltaf trúað því. Stundum er vissulega erfitt að trúa því, stundum mjög erfitt. En ef við hættum að trúa því þá sigrar fáfræðin, grimmdin og fordómarnir. Skáldskapurinn er í eðli sínu andóf gegn öllu slíku. Lestur á skáldskap getur víkkað hugsun okkar. Og ef hugsunin víkkar þá öðlast einstaklingurinn fjölbreyttari sýn. Fær víðara sjónarhorn á heiminn. Það er einmitt það sem við þurfum svo átakanlega núna þegar við sjáum að vofur popúlisma og fasisma fara um heiminn, og skjóta upp kollinum hér á Íslandi.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Lánaður til nýliðanna

Lánaður til nýliðanna
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör