Það er vel við hæfi að Sjónvarp Símans skuli sýna matreiðsluþætti nú fyrir jólin. Ilmurinn úr eldhúsinu heita þeir og í fyrsta þætti sýndi Hrefna Sætran okkur hvernig á að matreiða reyktan lax í tartalettum og svo gerði hún kalkúnasamlokur. Reyktur lax í alls konar útgáfum er mikil dásemd og ég get ímyndað mér hvernig hann er á bragðið þegar hann er kominn í tartalettu með viðeigandi sósu og kartöflum. Ég sat með blað og blýant og skrifaði uppskriftina samviskusamlega niður. Hið sama á við um kalkúnasamloku með fyllingu sem virtist vera afar gómsæt. Öllu flóknari uppskrift en að reykta laxinum, en samt þannig að manni leið eins og hún væri ómissandi um jól.
Ég er sannfærð um að allt sem Hrefna Sætran eldar sé gott. Það er hægt að kaupa sósurnar hennar í Hagkaupum og þær eru unaðslegar, en kalkúnasamlokurnar þarf maður víst að gera í eldhúsinu heima hjá sér. Það verður barningur. Maður er ekki alveg týpan sem er fædd til að una sér í eldhúsi, þar þarf maður sannarlega að hafa fyrir hlutunum. En kalkúnasamloka skal það vera, þótt það kosti blóð, svita og tár. Á sjónvarpsskjánum var þessi samloka einfaldlega nokkuð sem maður vill ekki missa af.