Nigella Lawson er uppáhaldssjónvarpskonan mín. Hún er svo falleg, brosmild og hlýleg að maður fyllist alltaf gleði og bjartsýni við að sjá hana á skjánum. Hún ber það sannarlega ekki með sér að hafa misst móður, systur og eiginmann, öll úr krabbameini, og hafa gengið í gegnum erfiðan skilnað í hjónabandi númer tvö. Nigella stendur sig þrátt fyrir kynni sín af sorginni og vælir ekki. Hún brosir til manns þar sem hún stendur í eldhúsinu og fullvissar mann um að allt verði í allra besta lagi meðan maður hafi vit á að elda og borða góðan mat. Nigella er eins og Mary Poppins, fullkomin á allan hátt.
Það var gleðilegt að sjá þessa sjónvarpsvinkonu í nýjum matreiðsluþætti sem RÚV sýnir á þriðjudagskvöldum, Einfalt með Nigellu (Simply Nigella). Nigella var í essinu sínu í þessum fyrsta þætti sem var eins og ástarjátning til hinna ýmsu matartegunda. Aldrei hefur maður litið á kótelettu eða þorsk sem sérstakan félaga sinn í lífinu en Nigella talaði einmitt í þá átt. Hún dáðist að holdmiklum lárperum og maður fékk allt í einu nýja sýn á þann ávöxt. Nigella dáðist einnig að bústnum rækjum og um leið gerði maður sér grein fyrir því að maður hefur ekki nægilega auðugt ímyndunarafl. Í huga manns eru rækjur bara rækjur, hvenær hefur maður raunverulega dáðst að þeim? Aldrei!
„Lífið er til þess að fagna því,“ sagði Nigella í þessum fyrsta þætti. Nokkuð sem við mættum öll hafa í huga.