Amazon hefur tryggt sér útgáfuréttinn að sjónvarpsþáttum sem verða byggðir á Lord of the Rings-þríleiknum. Talið er að samningurinn sé metinn á 250 milljónir Bandaríkjadala, 26 milljarða króna tæplega.
Þættirnir eru sagðir munu gerast fyrir atburðina í Lord of the Rings-bókunum en verða samt sem áður trúir sagnaheimi Tolkiens. Að sögn breska blaðsins Mirror er í samningnum einnig kveðið á um möguleikann á að gera svokallaða aukaafurð (e. spin-off).
Þetta eru sérstaklega góð tíðindi fyrir aðdáendur epískra fantasíuþátta enda munu hinir geysivinsælu þættir Game of Thrones hætta eftir sýningu áttundu seríunnar á næsta ári.
Amazon mun framleiða nýju þættina í samstarfi við Harper Collins-bókaútgáfuna og New Line Cinema-kvikmyndafyrirtækið.
Gera má ráð fyrir að þáttanna verði beðið með talsverði eftirvæntingu sé litið til velgengni Lord of the Rings-myndanna í leikstjórn Peters Jackson á fyrri hluta 21. aldarinnar. Talið er að þær hafi þénað tvo milljarða Bandaríkjadala auk þess að sópa að sér 17 Óskarsverðlaunum í það heila.