Á einni af fjölmörgum rásum Símans er ID Discovery (Investigation Discovery) þar sem fjallað er um hin ýmsu sakamál, sum áratuga gömul. Í þessum þáttum eru sviðsett atriði, misgóð reyndar, og rætt er við einstaklinga sem tengdust málunum á einhvern hátt, komu að rannsókn þeirra eða þekktu fórnarlömbin. Eitt kvöldið festist ég við þessa stöð og sá þátt um eiginkonu sem hvarf kvöld eitt sporlaust. Eiginmaðurinn þóttist harmi lostinn en í ljós kom að hann hafði átt ástkonu í nokkurn tíma. Börn hjónanna virtust gruna föður sinn um að hafa myrt móður þeirra en höfðu enga vissu fyrir því þar sem ekkert varð sannað í þeim efnum.
Í öðrum þætti var fjallað um morð á móður og fjórum börnum hennar og leiddar að því líkur að grunaðir morðingjar hefðu fengið að ganga lausir vegna þess að annar þeirra var í vinfengi við lögreglustjóra bæjarins. Það var margt einkennilegt í þessari sögu, þar á meðal það að nágrannadreng dreymdi draum þar sem hann sá morðið og morðingjana og gat lýst þeim og aðstæðum sem pössuðu nákvæmlega við þær raunverulegu.
Þessir þættir sýna okkur að illskan leynist víða. Fjölskyldufaðirinn getur haft ýmislegt að fela og jafnvel haft morð á samviskunni. Ókunnugir vingast við fólk sem þeir síðan drepa. Raunveruleikinn getur verið harður og grimmur og þar leynist illskan í mun meira mæli en við viljum trúa.