fbpx
Fimmtudagur 15.ágúst 2024

Hversu mörgum fiskum er hægt að gera að án þess að missa vitið?

Bókardómur um ljóðabókina Hreistur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Mánudaginn 13. nóvember 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljóðin í Hreistri er í grunninn eins konar óður til verbúðarlífsins og karlmennskunnar í sinni ýktustu mynd, til fegurðarinnar sem í henni býr sem og ljótleikans sem af henni getur stafað. Þetta umfjöllunarefni þekkja lesendur flestir vel í gegnum allt höfundarverk Bubba Morthens á tónlistarsviðinu. Í Hreistri koma fram ýmsir karakterar, þ.á.m. heljarmenni með litla sál, rindlar með hjarta úr gulli og stórkarlar sem hrifsa það sem þeim finnst þeir eiga rétt á. Þannig kallast ljóðin á við rómantíska ægifegurð landslags Íslands; hættur hafsins og landsins verða eins konar samnefnari við karlmennskuna og allt sem henni fylgir. Þá verður karlmennskan að nokkurs konar náttúruafli í ljóðunum.

Fagrar sírenur og heljarmenni

Karlpersónur eru margvíslegar og fjölbreyttar en þær kvenpersónur sem birtast eru því miður fátt annað en einsleitar, fagrar og góðar sírenur sem lokka til sín hættuleg karlmennin. Þessi einsleitni kvenpersóna endurspeglar kannski að einhverju leyti viðhorfið gagnvart konunum í plássunum á þessum tíma. Og á sama hátt má segja að bókin sverji sig í ætt við klassískar þjóðsögur og ævintýri.

Geggjaðir fiskar

Ljóðmælandinn í Hreistri er ungur karlmaður sem tekur breytingum eftir því sem á líður bókina. Þroskinn er frá grænjaxli yfir í heljarmenni, en frásögnin verður á sama tíma sífellt táknrænni, ævintýralegri og geðveikislegri. Bubbi spyr meira að segja á einum stað: „hversu mörgum fiskum er hægt að gera að án þess að missa vitið“. Eftir því sem á líður verður maðurinn líkari fiski og fer meira að segja að vaxa á hann hreistur. Hreistrið verður að tákni fyrir karlmennskuna, eins konar gró eða mygla sem skemmir út frá sér, bæði á yfirborðinu og innra með huga mannsins. Öll tenging við raunveruleikann visnar og slitnar.

Orðræða um verbúðarlíf

Stundum þegar talað er um verbúðarlíf verður vandaverk að greina á milli þess þegar verið er að gagnrýna erfiðar (óviðunandi) vinnuaðstæður og þegar menn upphefja þá sem leggja þessa vinnu á sig ár eftir ár. Þannig er þetta að einhverju leyti í Hreistri, þ.e. lesandinn fær bæði megnt ógeð á þessum heimi á sama tíma og hann fyllist aðdáun á þessu fólki sem vinnur langa vinnudaga og enn lengri vinnutarnir fjarri fjölskyldunni. Það er þessi tvíhugsun sem gegnumsýrir allt okkar þjóðfélag. Hinn duglegi vinnandi maður er tilbeðinn á sama tíma og honum er vorkennt fyrir að hafa ekki tíma fyrir persónuleg sambönd. Að sumu leyti má líkja þessari orðræðu við bandaríska umfjöllun um hermenn, sem framan af hefur einkennst af einhvers konar glýju í augum fólks gagnvart hugrekki og dirfsku hermanna. Í dag hafa þó umfjöllunarefni á borð við áfallastreituröskun (e. Post Traumatic Stress Disorder) verið æ sýnilegri hvað varðar hermenn sem koma heim eftir stríð. Ljóðmælandinn í Hreistri minnir ósjaldan á hermann á vígvelli, þar sem það eina sem hann getur gert í sínum aðstæðum er að taka einn dag í einu. Það sem tekur við eftir verbúðarlífið þekkjum við flest sem höfum fylgst með ferli höfundar; neysla, myrkur og doði.

Að lokum má nefna að kápan og öll hönnun bókarinnar er afar skemmtilega unnin þar sem hreisturflögur koma margar saman og minna á öldur hafsins. Fjöldi alda á blaðsíðum bókarinnar samsvarar númerum kaflanna sem aftur samsvara fjölda daga á sjó, þ.e. 69. Hreistur er áhugaverð fyrir hvern þann sem hefur áhuga á að skyggnast inn í framandi heim sjómannsins, ýktra vinnuaðstæðna og erfiðrar tarnavinnu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 klukkutímum

Skítamórall sendir frá sér nýja útgáfu af Farin

Skítamórall sendir frá sér nýja útgáfu af Farin
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Eiginkona nýjustu stjörnu United ratar á forsíður blaðanna – 23 ára og hefur vakið athygli síðustu ár

Eiginkona nýjustu stjörnu United ratar á forsíður blaðanna – 23 ára og hefur vakið athygli síðustu ár
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Úrslitaleikur bikarsins fer fram um helgina – Stórliðin tvö mætast

Úrslitaleikur bikarsins fer fram um helgina – Stórliðin tvö mætast
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Dagur fær tæpar 10 milljónir í uppsafnaðar orlofsgreiðslur – „Óeðlilegt,“ segir oddviti minnihlutans

Dagur fær tæpar 10 milljónir í uppsafnaðar orlofsgreiðslur – „Óeðlilegt,“ segir oddviti minnihlutans
Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Coca-Cola með nýtt og ótrúlegt bragð – Oreo-Cola

Coca-Cola með nýtt og ótrúlegt bragð – Oreo-Cola
EyjanFastir pennar
Fyrir 9 klukkutímum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?