fbpx
Sunnudagur 27.apríl 2025

Stefnulaust líf

Bókardómur

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 12. nóvember 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ungt fólk að feta sig inn í fullorðinsárin, ungmenni sem ná ekki takti í þjóðfélaginu sem hin eldri hafa byggt upp og draga í efa venjur og hefðir, eru kunnuglegt efni í skáldsögum allt frá því Bjargvætturinn í grasinu, eftir J.D. Salinger, kom út árið 1951. Samt er orðið nokkuð langt síðan ég las slíka skáldsögu. Við lestur skáldsögunnar Millilending eftir Jónas Reyni Gunnarsson er gamall kunnugleiki þessarar lestrarreynslu uppfærður inn í nútímasamfélag og skyndilega er lesandinn ekki ungur sjálfur heldur gamall fauskur sem hneykslast jafnvel á persónum bókarinnar. Það er nefnilega þannig að ef lesa á ádeilu út úr sögunni þá er hún ekkert síður á unga fólkið sem fótar sig ekki í samfélaginu en hina eldri sem hafa byggt það upp.

Aðalpersónan er María, 22 ára gömul stúlka, sem hefur flosnað upp úr sambúð með Ragnari í Brighton á Englandi, er að flytja til föður síns sem er listamaður í Danmörku, en kemur heim til Íslands í einn sólarhring, þeirra erinda að sækja fyrir föður sinn litatúpur sem voru í eigu Karls Kvaran listamanns. Þessi sólarhringur í lífi Maríu einkennist af áfengisneyslu og dópfikti, yfirborðslegum samskiptum við vini og kunningja og upprifjun á ástarsamböndum hennar, misheppnaðri sambúð með Ragnari í Brighton og sambandi þar áður við starfsmann á kaffihúsi í miðbænum.

Líf Maríu er stefnulaust og í þessari stuttu heimsókn til Íslands missir hún alveg fótanna þar sem hún ráfar frá einu öldurhúsi til annars og á innantóm samskipti við vini og fólk sem verður á vegi hennar á djamminu. Á meðan er faðir hennar sífellt að reyna að ná sambandi við hana símleiðis til að geta lagt henni lífsreglurnar og amma hennar reynir með kröftugum hætti að opna augu Maríu og tengja hana við raunveruleikann.

Sýn Maríu á tilveruna er kaldhæðnisleg og afhjúpar yfirborðsmennsku, sjálfhverfu og skort á einlægni í samskiptum fólks. Sagan lýsir sambandsleysi og átakanlegum skorti á samkennd meðal fólks. María sjálf er hins vegar engu betri en fólkið sem verður á vegi hennar og er hvorki einlæg né heiðarleg við nokkurn mann. Líf hennar er ótrúlega tilgangslaust, hún virðist ekki hafa snefil af metnaði, ástríðu eða hreinlega áhuga á nokkru öðru en að dópa, drekka og drepa tímann við innantóma iðju. Skarpskyggni hennar við að koma auga á innihaldsleysið og yfirborðsmennskuna allt í kringum hana er því fremur marklaus.

Persónusköpun Maríu er öðrum þræði vel heppnuð en veldur á hinn bóginn því að skáldsagan verður ekki sérlega áleitin. Vel má vera að sumir lesendur kenni í brjósti um Maríu en mig grunar að fleiri langi til að hrista hana duglega til. Ýmsum verður alveg sama um hana.

Millilending er afbragðsvel stíluð, næmni höfundar fyrir smáatriðum er unaðsleg og vandræðalegar uppákomur í sögunni fá lesendur til að hlæja upphátt mörgum sinnum. Auk þess má velta fyrir sér margræðum merkingum – hvað táknar til dæmis titill sögunar sem fjallar um konu í upphafi fullorðinsáranna? Og hvaða merkingu hafa örlög litanna úr fórum Karls Kvaran sem fá afar myndræna meðferð í lok sögunnar? Lýsing á hálfkláruðu málverki seint í sögunni er líka áhrifamikil og virðist eiga sér samsvörun í Maríu sjálfri.

Jónas Reynir Gunnarsson er sléttþrítugur höfundur sem ryðst núna fram á ritvöllinn með þrjár bækur í einu. Ljóðabók hans, Stór olíuskip, fékk fyrir skömmu Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar, en auk hennar og þessarar bókar var hann að senda frá sér ljóðabókina Leiðarvísir um þorp.

Það er fengur að Jónasi Reyni í hóp íslenskra rithöfunda, ekki síst fyrir stílgáfu hans.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 14 klukkutímum

Hvað hugsar hundurinn þinn þegar þú ferð að heiman?

Hvað hugsar hundurinn þinn þegar þú ferð að heiman?
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Dolly Parton birti mynd af sér án hárkollu – „Hefur þú einhvern tímann séð hana án hárkollu?“

Dolly Parton birti mynd af sér án hárkollu – „Hefur þú einhvern tímann séð hana án hárkollu?“
Pressan
Fyrir 16 klukkutímum

Þess vegna á tannburstinn að fara í uppþvottavélina

Þess vegna á tannburstinn að fara í uppþvottavélina
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Daniel náði ótrúlegum árangri og umbreytti lífi sínu – „Ég sé tvo menn. Og mig langar að kveðja annan þeirra. Fyrir fullt og allt“ – Myndir

Daniel náði ótrúlegum árangri og umbreytti lífi sínu – „Ég sé tvo menn. Og mig langar að kveðja annan þeirra. Fyrir fullt og allt“ – Myndir
Fókus
Fyrir 19 klukkutímum

Bókaspjall: Svik og undirferli

Bókaspjall: Svik og undirferli
Eyjan
Fyrir 19 klukkutímum

Ásmundur sendir flokksfélögum sínum pillu – „Forystan hér í bæ kom mér út af listanum“

Ásmundur sendir flokksfélögum sínum pillu – „Forystan hér í bæ kom mér út af listanum“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Brynjar Karl er verulega fúll út í RÚV – „Er verið að refsa mér?“

Brynjar Karl er verulega fúll út í RÚV – „Er verið að refsa mér?“
433Sport
Fyrir 21 klukkutímum

Segir hann hafa valið rangt félag í Manchester – Líkir honum við Di Maria

Segir hann hafa valið rangt félag í Manchester – Líkir honum við Di Maria