Dómur um tölvuleikinn Call of Duty: WWII
Call of Duty. Allt frá því að fyrsti leikurinn leit dagsins ljós árið 2003 hefur Call of Duty verið ókrýndur konungur fyrstu persónu skotleikjanna. Það hefur gengið á ýmsu í útgáfu þessara mögnuðu leikja; stundum hafa framleiðendur hitt beint í mark, í orðsins fyllstu merkingu, en stundum ekki, eins og kannski eðlilegt er.
Á dögunum kom fjórtándi Call of Duty-leikurinn út og að þessu sinni er sjónum beint að síðari heimsstyrjöldinni: Call of Duty: WWII. Undirritaður hefur varið miklum tíma í spilun þessara leikja á undanförnum árum, allt frá því að Modern Warfare 2 kom út árið 2009. Síðan fylgdu leikir eins og Black Ops, Modern Warfare 3, Black Ops II, Ghosts, Advanced Warfare, Black Ops 3 og svo Infinite Warfare.
Flestir þessara leikja voru frábærir og þá einkum netspilunin sem allt snýst um í raun og veru. Framleiðendur Call of Duty-leikjanna (Treyarch, Infinity Ward og nú síðast Sledgehammer Games) hafa verið að prófa sig áfram í hinu og þessu á undanförnum árum. Leikurinn í fyrra, Infinite Warfare, gerðist til að mynda úti í geimnum við mismikla hrifningu spilara. Advanced Warfare, sem kom út árið 2014, gerðist einnig í framtíðinni. Eldheitir aðdáendur leikjanna voru ekki sérstaklega hrifnir enda fannst mörgum vörumerkið Call of Duty missa eitt af sínu helstu einkennum; einfaldleikann og skemmtanagildið í spiluninni.
Um þetta eru skiptar skoðanir og eru ýmsir á því að leikirnir hafi einmitt þurft á þessu að halda, ferskum blæ og einhverju nýju.
Hvað sem þessum vangaveltum líður er Call of Duty: WWII nokkurn veginn kominn aftur heim, ef svo má segja. Þar sem leikurinn gerist í síðari heimsstyrjöldinni muntu ekki finna menn hoppandi og skoppandi um borðin líkt og í Infinite Warfare eða framandi og flókin vopn. Hér er á ferðinni hernaður eins og hann var á þessum gríðarlegu umbrotatímum í mannkynssögunni um miðbik 20. aldarinnar.
„Eins og að framan greinir hefur áherslan á þennan hluta leikjanna farið minnkandi og má í raun segja að hún sé til málamynda, fallegar umbúðir utan um pakkann.“
Það sem hefur gert Call of Duty-leikina jafn vinsæla og raun ber vitni er hraðinn, einfaldleikinn og skemmtanagildið í spiluninni. Það geta allir spilað Call of Duty, svo lengi sem þeir hafa aldur til, og gleymt sér í leiknum og skiptir þá engu hvort þeim finnst gaman að hlaupa um borðin með haglabyssu eða vélbyssu eða dvelja í laumi með langdrægan riffil.
Einspilunin (e. campaign) er svo eitthvað sem fylgir öllum Call of Duty-leikjum þó áherslan á þennan hluta leiksins hafi farið dvínandi með auknu aðgengi fólks að góðri nettengingu. Að þessu sinni gerist einspilunin í mörgum af frægustu orrustum síðari heimsstyrjaldarinnar; Normandý, Hürtgen og Bulge svo dæmi séu tekin.
Í einspiluninni er komin sú nýjung að þegar þú ert á vígvellinum dugar ekki að hlaupa í skjól í nokkrar sekúndur til að öðlast heilsu, hafir þú á annað borð særst. Nú þarftu að finna einskonar sjúkrakassa til að öðlast heilsu á ný. Þetta gerir það að verkum að maður spilar leikinn varlegar en ella og hleypur ekki í gegnum bardagana eins og maður kannski gerði áður fyrr. Þetta gefur þessu öllu raunverulegri blæ og er kærkomin breyting. Eins og að framan greinir hefur áherslan á þennan hluta leikjanna farið minnkandi og má í raun segja að hún sé til málamynda, fallegar umbúðir utan um pakkann. Einspilunin er tiltölulega stutt þó hún sé virkilega skemmtileg.
Eins og komið var inn á hér að framan snýst allt um netspilunina, að minnsta kosti hjá þeim allra hörðustu. Það er skemmst frá því að segja að netspilunin tikkar í öll boxin hvað varðar skemmtanagildi, fjölbreytni og hraða þó hér séu engin kraftstökk eða veggjahlaup. Stundum tekur það tíma að venjast borðunum og hraðanum en að þessu sinni tók það varla nema eina kvöldstund að kynnast þeim og læra inn á þau.
„Hér erum við komin aftur á vígvöllinn í engu nema herklæðum og stígvélum, beint í vöggu Call of Duty-leikjanna.“
Viðmótið er gott þó stundum hafi borið á laggi í netspiluninni. Þetta var þó misjafnt eftir leikjum; stundum gekk allt smurt en stundum ekki. Þó að nokkrar nýjungar séu í leiknum frá fyrri leikjum ætti ekkert að koma þeim sem þekkja Call of Duty-formúluna á óvart. Þú þarft áfram að vinna þér inn stig til að fá aðgang að fleiri byssum o.s.frv og ert verðlaunaður ef þú nærð ákveðið mörgum stigum án þess að deyja. Borðin eru fjölbreytt og hæfilega stór og líka vel hönnuð. Það er ljóst að hér hefur ekki verið kastað til höndinni að gera borðin aðgengileg fyrir alla, hvort heldur þá sem kjósa að hlaupa um borðin eða dvelja í laumi.
Það verður ekki komist hjá því að minnast á Headquarters sem er nýjung í netspiluninni. Þessi möguleiki gefur spilurum tækifæri til að fylgjast betur með þróun sinni í leiknum og til að kynnast öðrum spilurum betur. Þetta svipar til The Tower í leiknum Destiny en þarna geturðu til dæmis valið þér samninga og fengið verðlaun fyrir að klára hin ýmsu verkefni, prófað skotvopn og æft þig í hinu og þessu. Þetta er skemmtileg nýjung sem kannski þyrfti að fínpússa aðeins betur. Hægt er að fara í Headquarters milli leikja en það gefst þó sjaldnast tími til að gera eitthvað af viti nema fara út úr lobbýinu.
Fjölmargir aðdáendur Zombies munu eflaust fagna þeim hluta leiksins sem er hrikalega skemmtilegur og gefur leiknum aukna vídd. Það skal þó viðurkennast að netspilunin hefur átt hug undirritaðs undanfarna daga en Zombies er þó eitthvað sem er klárlega þess virði að gefa meiri gaum.
Þegar allt kemur til alls er Call of Duty: WWII frábær tölvuleikur og engu líkara en kóngurinn hafi náð vopnum sínum eftir mögur ár að undanförnu. Netspilunin er líklega ein sú besta í áraraðir og stenst alveg samanburð við bestu leiki seríunnar. Þetta er eigulegur gripur og kærkominn fyrir þá sem voru orðnir afhuga Call of Duty eftir framtíðarbrölt undanfarinna ára. Hér erum við komin aftur á vígvöllinn í engu nema herklæðum og stígvélum, beint í vöggu Call of Duty-leikjanna.