Enski rithöfundurinn Kazuo Ishiguro hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 2017
Breski rithöfundurinn, handrits- og textahöfundurinn Kazuo Ishiguro hlýtur Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2017. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi í Stokkhólmi á fimmtudag.
Kazuo Ishiguro hlýtur verðlaunin fyrir skáldsögur sínar sem með sínum „mikla tilfinningalega krafti hafa afhjúpað hyldýpið sem liggur handan villandi tilfinningu okkar fyrir tengslum við heiminn.“ Sara Danius, aðalritari sænsku akademíunnar, sagði að skrif Ishiguros fjölluðu oftar en ekki um minnið, tímann og sjálfsblekkingu og væru eins og blanda af skáldsögum Jane Austen, skrifum Franz Kafka með örlitlu bragði af Marcel Proust. Bækur Ishiguros hafa oft verið sagðar búa yfir kyrrð og fágun, og sjaldnast ljóst hvort um harmsögur eða grínleiki sé að ræða.
Ishiguro er fæddur í Nagasaki í Japan árið 1954 en fluttist til Surrey í Suður-Englandi með fjölskyldu sinni þegar hann var fimm ára gamall. Japanska var töluð á heimili hans í æsku en hann kom þó ekki til fæðingarlandsins aftur fyrr en tæplega þremur áratugum síðar, þá orðinn heimsþekktur rithöfundur. Þó að fyrstu tvær skáldsögurnar hans hafi fjallað um japanskar persónur segist hann ekki vera undir miklum áhrifum frá japönskum bókmenntum og líti fyrst og fremst á sig sem enskan höfund.
Í upphafi ferilsins ætlaði Ishiguro reyndar að verða tónlistarmaður og söngvaskáld, og leit þá meðal annars til Bobs Dylan – síðasta Nóbelsverðlaunahafa – fyrir innblástur. Eftir nám í heimspeki og skapandi skrifum sneri hann sér að skáldsögunni. Fyrsta bókin, A Pale View of the Hills, kom út árið 1982 og hlaut góðar viðtökur, en hann sló þó ekki endanlega í gegn fyrr en þriðja skáldsaga hans, Remains of the Day, eða Dreggjar dagsins, kom út árið 1989. Bókin sem er sögð frá sjónarhorni virðulegs yfirþjóns á ensku yfirstéttarheimili, hlaut bresku Booker-bókmenntaverðlaunin árið 1989 og var síðar kvikmynduð með Anthony Hopkins í hlutverki hins alvarlega og skyldurækna þjóns Stevens – sem þó er ekki jafn áreiðanlegur sögumaður og hann er í þjónustustarfinu.
Í nýjustu skáldsögum sínum hefur Ishiguro í auknum mæli skapað ímyndaða heima og farið í átt að vísindaskáldskap þótt hann segist almennt vera á móti slíkum skilgreiningum og flokkadráttum í skáldskap. Nýjasta skáldsaga Ishiguros nefnist The Buried Giant og kom út árið 2015.
Fimm bóka Ishiguros hafa komið út í íslenskri þýðingu, en það eru Veröld okkar vandalausra (When we were orphans), Óhuggandi (The unconsoled), Í heimi hvikuls ljóss (An artist of the floating world ), Slepptu mér aldrei (Never let me go) og Dreggjar dagsins.