fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025

Vilborg: „Miðla reynslu minni af eigin sorg“

Blóðug jörð er lokabókin í þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um landnámskonuna Auði djúpúðgu.

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 24. október 2017 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Blóðug jörð er lokabókin í þríleik Vilborgar Davíðsdóttur um landnámskonuna Auði djúpúðgu. Fyrri bækurnar eru Auður og Vígroði en samtals eru þessar þrjár bækur um 840 síður. Sú fyrsta kom út árið 2009 en Vilborg segist hafa fengið hugmyndina löngu fyrr.

„Reyndar er langt síðan ég hreifst af Auði Ketilsdóttur,“ segir Vilborg. „Þegar ég var hálfþrítug ákvað ég að skrifa sögu sem gerðist á landnámsöldinni því sá tími fannst mér heillandi þótt ég vissi mest lítið um hann. Þá tók ég upp Íslendingasögu, Laxdælu, og hún byrjar á magnaðri sögu af þessari konu: sagnaritarinn fullyrðir að enginn þekki dæmi um að einn kvenmaður hafi komist úr þvílíkum ófriði og með jafnmiklu fé og föruneyti og Auður djúpúðga þegar hún fór frá Katanesi. Hann – eða hún – bætir svo við: ,,Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.“ Auður lét smíða skip með leynd og lagði af stað í mikla hættuför, orðin ekkja, og var að bjarga börnum í skjól á miklum ófriðartímum.

Það er svo margt í þessari sögu sem kallast á við samtímann. Við þurfum ekki annað en að kveikja á sjónvarpinu til að sjá myndir af fólki á flótta yfir hafið í opnum bátum sem halda varla vatni, í leit að stað þar sem það getur fundið skjól og alið upp börn sín í öryggi.“

Reyndirðu þannig meðvitað að tengja sögu Auðar við samtímann?

„Nei, þetta er bara nokkuð sem ég hef áttað mig á. Ég sé þessi merkilegu líkindi æ skýrar. Eitthvað mikið hlýtur að hafa gengið á til þess að fólk yfirgæfi heimahagana og legði í að fara yfir opið úthaf á þessum tíma, án nokkurra siglingatækja og löngu fyrir tíma landakorta. Það var stórhættulegt. Það gerir þetta enginn nema hann sé örvæntingarfullur og eygi engin önnur úrræði. Þegar rýnt er í texta Landnámu sér maður að þetta var yfirleitt ungt fólk. Það kom til Íslands og festir þar ráð sitt og eignast börn. Það er mjög eðlilegt að þetta hafi verið ungt fólk því það þarf að vera ungur og vitlaus til að vera svona fífldjarfur.“

Þroski Auðar

Vilborg hefur unnið mikla heimildavinnu við skrif bókanna um Auði. ,,Hugmyndirnar kvikna oft af heimildavinnunni. Þær koma þegar ég er að lesa um eitthvað sem tengist víkingaöldinni og eins þegar ég ferðast á þessar slóðir. Ég sé kannski á Bretlandseyjum norræn örnefni eða, eins og í Orkneyjum, eldfornan bautasteinahring þar sem hægt væri að láta fara fram brúðkaup. Ég teikna upp hlutina eins og mér finnst líklegast að þeir hafi verið og sé ekkert vitað þá skálda ég í eyðurnar. Ég læt söguna alltaf ráða, framvindan og persónusköpunin er alltaf mikilvægari en sagnfræðin. Lesandinn þarf ekki að þekkja fræðin en mér finnst samt að ég þurfi þess. Það eykur trúverðugleikann. Afraksturinn af miklum lestri er oft ekki mikill í orðum talið, til dæmis hef ég lesið feiknin öll um skipasmíði og seglagerð á víkingaöld en það sem birtist lesanda er aðeins fáeinar setningar.

Auður djúpúðga var ekkja og Vilborg missti mann sinn Björgvin Ingimarsson úr heilakrabbameini árið 2013 og skrifaði um þá reynslu í bókinni Ástin, drekinn og dauðinn. Hún er spurð hvort sorgin sem hún upplifði vegna láts eiginmanns síns hafi ratað í nýju bókina. „Já, vissulega,“ segir hún. „Ég skynjaði mjög sterkt að ég er mun betur til þess fallin nú að skilja ekkjuna Auði en áður en Björgvin dó. Í þessari bók er ég að miðla reynslu minni af eigin sorg og ekki síður því að hjálpa börnum og unglingum að takast á við foreldramissi. Ég get séð, og lesendur eflaust líka, að Auður þroskast í gegnum bækurnar. Hún er ung stúlka í þeirri fyrstu, um þrítugt í annarri og komin nokkuð yfir fertugt í þessari bók. Öll þau áföll sem hún verður fyrir, að missa bæði mann og einkason og yfirgefa heimahagana, dýpka og þroska hana sem persónu.“

Kraftur fylgir nafninu

Vilborg er spurð hvort hún verði vör við mikinn áhuga Íslendinga á Auði. Hún segir svo vera. „Auður er þjóðþekkt og það sama á við um fólkið í kringum hana eins og Ingólf Arnarson, Hjörleif Hróðmarsson, bróður hennar Helga bjólan, systurina Þórunni hyrnu og máginn Helga magra. Íslendingar umgangast þessar persónur eins og fólkið í næsta húsi og finna ekki tiltakanlega til þess hvað það er langt síðan þetta fólk gekk hér á land.

Ég hef stundum verið að tala um þennan tíma og þessar bækur erlendis, dvaldi til dæmis á Írlandi í nokkrar vikur fyrir fáum árum og hélt þá fyrirlestur á bókasöfnum um tengsl Íslands og Írlands. Þar kannaðist fólk við Brjánsbardaga á Írlandi sem sagt er frá í Njálu en það kom því mjög á óvart að við skulum tala um þetta fólk eins og við þekkjum það.“
Vilborg nefnir vinsældir Auðar-nafnsins. „Ég hef ekki tölu á þeim fjölda kvenna sem segja mér að þær hafi verið skírðar í höfuðið á Auði djúpúðgu. Það er gríðarlegur kraftur sem fylgir þessu nafni.“

Söguloftið og fyrsti bókartitillinn

Um síðustu helgi steig Vilborg á svið á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi og flutti þessa miklu sögu af Auði fyrir áheyrendur á tæplega tveggja tíma sýningu fyrir fullu húsi bæði á laugardag og sunnudag, undir yfirskriftinni „Auður djúpúðga – sagan öll“. „Þetta var gríðarlega skemmtilegt,“ segir hún um þessa frumraun sína af munnlegri sagnalist. „Viðtökurnar voru frábærar og mér þótti svo vænt um að frétta af því að í hléinu hefði hrifinn áheyrandi sagt: „Svona hafa Íslendingasögurnar lifað.“ Uppselt er einnig á þriðju sýninguna í kvöld, föstudag, en fjórar sýningar enn eru fyrirhugaðar til viðbótar á Söguloftinu, fram í miðjan nóvember.

Og það er í nógu að snúast hjá Vilborgu þessu til viðbótar. Nú á laugardag, 21. október, verður haldið Ritþing í Gerðubergi þar sem fjallað verður um höfundarverk hennar. Umsjón hefur Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur og spyrlar eru þau Sverrir Jakobsson og Silja Aðalsteinsdóttir. Þar mun verða rætt um sannsöguna Ástin, drekinn og dauðinn, Auðarbækurnar þrjár og sömuleiðis aðrar skáldsögur Vilborgar en þær eiga það sammerkt að gerast á fornum tímum. Við Urðarbrunn og Nornadómur, einu nafni Korkusaga, gerast um aldamótin 900, og Eldfórnin, Galdur og Hrafninn á 14. og 15. öld. Ragnheiður Gröndal flytur keltnesk og íslensk þjóðlög fyrir gesti og auk þess sálm sem Vilborg samdi í sumar.

„Ég fékk sjálf að velja yfirskriftina á þessu ritþingi og loksins fékk ég að koma að fyrsta bókartitlinum mínum, vinnuheiti Korkusögu sem var Undir aski Yggdrasils,“ segir Vilborg og hlær. „Þegar ég kom með handritið til Máls og menningar var þessi flotti titill, beint úr Eddukvæðunum, snarlega felldur. Þau sögðu við mig: „Elskan mín, hver heldurðu að geti sagt þetta, Undir aski Yggdrasils? Það kemur hnútur á tunguna á þeim sem það reynir!“

Ég er sannfærð um að askur Yggdrasils, heimstréð sem er lýst í Eddukvæðum, er Vetrarbrautin. Farðu út í myrkrið og horfðu upp í Vetrarbrautina og þá sérðu trjákrónuna teygja sig yfir allan himininn, goðsagnaverurnar og ræturnar þrjár sem eru undir aski Yggdrasils: Hel býr undir einni, annarri hrímþursar, þeirri þriðju mennskir menn.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Lánaður til nýliðanna

Lánaður til nýliðanna
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör