fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Mótsögnin er kjarni mannlegrar tilveru

Halldór Armand veltir fyrir sér trú og gildisleysi samtímans í þriðju bók sinni Aftur og aftur – Reynir að skilja hvata hryðjuverkamanna

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 15. október 2017 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Þegar ég byrjaði að skrifa þessa bók vissi ég lítið annað en að ég vildi segja sögu sem myndi hefast 11. september 2001. Að mörgu leyti finnst mér eins og heimurinn hafi byrjað þá og allt sem hafi gerst síðan hafi verið eins og gárur þess dags,“ segir rithöfundurinn Halldór Armand blaðamanni á fjölmennu kaffihúsi í miðborg Brussel – borginni sem hefur nánast orðið alræmd fyrir að ala upp stóran hluta þeirra ungu manna sem hafa framkvæmt mannskæð hryðjuverk í Evrópu á undanförnum árum. Hann er nýkominn úr pílagrímsferð í innflytjendahverfið Molenbeek þar sem hann leitaði uppi húsið þar sem Salah Abdeslam, einn skipuleggjenda hryðjuverkaárásanna í París, var handtekinn í fyrra. „Mig langaði auðvitað að taka mynd en maður kunni ekki við að vera að taka upp símann þarna.“

Hinn illskiljanlegi hvati hryðjuverkamannanna og sítengdur snjallheimur samtímans fléttast saman og eru tveir af megindrifkröftum þriðju og nýjust skáldsögu Halldórs, Aftur og aftur, sem kemur út hjá Forlaginu í næstu viku. Í huga aðalpersónunnar, ungs Reykvíkings af aldamótakynslóðinni, breytist ekki aðeins hnattpólitísk ásýnd heimsins með hryðjuverkaárásunum í New York þann 11. september 2001 heldur er það ekki síður fyrsti farsíminn sem breytir tilverunni – þar var að alast upp fyrsta kynslóðin sem þekkti ekki annað en að vera sítengd í gegnum sinn eigin farsíma. Fjórtán ára horfir hann agndofa á síendurtekna beina útsendingu frá hryðjuverkaárásinni og heldur um glænýja Nokia 3210 GSM-símann sinn, tvö fyrirbæri sem eiga eftir að móta vitund hans og veruhátt næstu áratugina.

Mótsagnir mannverunnar

Halldór Armand vakti fyrst athygli árið 2013, þá nýútskrifaður úr lögfræðinámi, þegar tvær ferskar smásögur hans voru gefnar út saman í bókinni Vince Vaughn í skýjunum. Ári síðar kom svo fyrsta skáldsagan í fullri lengd, Drón. Í bókunum hefur hann tekist á við samfélag samtímans, sagt sögur sem hverfast um sérnútímaleg fyrirbæri á borð internetfrægð, snjallforrit, vald algríma og drónaárásir. Í kjölfarið hefur Halldór getið sér orð sem einn frjóasti samfélagsrýnir sinnar kynslóðar og meðal annars flutt vikulega pistla í menningarþættinum Lestin á Rás 1 – þar sem hann hefur oftar en ekki reynt að setja fingur á og greina hin ýmsu einkenni nútímans. Við byrjum á því að ræða hvort hin reglulegu pistlaskrif, sem hann vinnur meðfram störfum á auglýsingastofu, hafi áhrif á það hvernig hann nálgast eða skrifi skáldskap.

„Nei, ekki beint. Ég myndi frekar segja að skáldskapurinn móti það hvernig ég nálgast pistlaskrifin. Aðferðafræðin sem ég nota í pistlunum er fyrst og fremst spuni, ég ákveð ekki fyrirfram um hvað pistlarnir eiga að vera eða hver niðurstaðan verður. Reynslan hefur sýnt mér að það komi miklu áhugaverðari hlutir upp úr mér ef ég er ekki búinn að hugsa þá í þaula. Þá koma frekar fram óvæntar niðurstöður og jafnvel viðhorf sem eru ekki endilega alveg mín. Þetta er mjög svipað því sem maður gerir í skáldskap. Í pistlinum enda ég því oft á því að segja hluti sem ég er ekkert viss um að ég sé sammála þótt mér finnist þeir áhugaverðir.“

Það er reyndar eitt af því sem mér finnst einkenna aðalpersónurnar í bókinni, þær eru ekki alltaf sammála sjálfum sér, þær eru ekki bara með einn einfaldan drifkraft og hugsanir þeirra eru ekki einstefna, skoðanir þeirra eru jafnvel mótsagnakenndar og þær eru með andstæðar hugmyndir á sama tíma. Er það með vilja gert að hafa þær svolítið týndar og flæktar?

„Já, ég hef mjög djúpstæða sannfæringu fyrir því að kjarninn í mannlegri tilveru sé að vera mótsögn, að trúa andstæðum hlutum á sama tíma. Ég hef stundum tekið dæmi um það hvernig fólk er stöðugt hvatt til að elta drauma sína – gera það sem það elskar og fylgja ástríðum sínum. En þetta er ekki svona einfalt. Við viljum ekki í raun það sem við viljum, eins og sýkóanalistarnir segja. Eins elskum við ekki í raun það sem við höldum að við elskum. Ástæðan er meðal annars sú að maður er ekki sama manneskjan dag frá degi. Ég þekki þetta vel, að vera með tiltekinn draum einn daginn en vera kominn með allt aðra hugmynd þann næsta. Við erum okkur sjálfum stærsta ráðgátan, gallagripir sem eru ósamkvæmir sjálfum sér. Mér finnst mikilvægt að við göngumst við þessu. Það er áskorun að skapa persónur sem eru sannfærandi að þessu leyti. En ef það er eitthvað sem ég vil forðast er það að skapa einhliða karaktera sem eru eins og þeir séu settir saman eftir leiðbeiningabæklingi.“

Þriðja bók Halldórs Armands kemur út hjá Forlaginu í næstu viku.
Aftur og aftur Þriðja bók Halldórs Armands kemur út hjá Forlaginu í næstu viku.

Að reyna að skilja hryðjuverkamenn

Aðalpersónan, Arnmundur, verður fyrir miklum áhrifum af hryðjuverkaárásunum 11. september og það kveikir svo áhuga á slíkum voðaverkum almennt – sem fanga samvitundina reglulega í síflæðandi upplýsingastreymi samtímans. Hann nálgast þetta hins vegar, eins og kannski svo margt annað í lífi sínu, á yfirborðinu – er að skrifa meistaraprófsritgerð um fagurfræði hryðjuverka. Undirliggjandi markmið bókarinnar virðist þó ekki vera að velta einungis fyrir sér fagurfræðinni, heldur þvert á móti hvað knýi þessa ungu menn til þess að fremja hryðjuverkin.

Hvað er það sem gerir þig svona áhugasaman um þetta?

„Þeir sem fremja þessi hryðjuverk eru oftast bara venjulegir evrópskir ungir menn á mínu reki – á margan hátt svipaðir sjálfum mér, þótt flestir komi auðvitað úr öðruvísi aðstæðum. Þetta eru menn sem klæddust sama AC Milan-fótboltabúningnum og ég í æsku, hafa séð sömu bíómyndirnar og horft á sama klámið. Einn daginn setjast þeir hins vegar upp í beinskiptan Renault Clio með vélbyssu, fremja fjöldamorð og sprengja sig svo í loft upp. Hvað veldur því að þeir gera þetta en ekki ég? Ég hafði áhuga á því að reyna – að því marki sem hugmyndaflug mitt leyfir – að setja mig í þessi spor og skrifa heiðarlega um þau,“ segir Halldór.

„Ein ástæðan fyrir því að mig langaði að gera þetta er að mér ofbýður satt best að segja oft umræðan um þessi mál á Íslandi. Við erum svo afskekkt og örugg og leyfum okkur oft að „besserwissera“ einhverja þvælu um líf og trú annars fólks í krafti þessarar fjarlægðar. Eftir árásirnar hérna í Brussel, í París og London fannst mér umræðan á Íslandi og víðar á Vesturlöndum mest byggjast á því að afgreiða þær sem svo að þarna hafi hið illa verið á ferðinni, að illa innrættir heimskingjar hafi látið telja sér trú um að fremja sjálfsmorðsárás í von um paradísardvöl að launum. Að vísu er það skemmtilega sannkristið viðhorf sem felur í sér að heimurinn sé í raun barátta góðs og ills. Mér finnst þetta hins vegar lýsa alveg hreint sláandi litlum mannskilningi, hvað þá vilja til þess að skilja aðstæður og hlutskipti framandi fólks. Kannski ýtti það mér ómeðvitað út í það að vilja skrifa um þetta á persónulegan hátt.“

Þeir sem fremja þessi hryðjuverk eru oftast bara venjulegir evrópskir ungir menn á mínu reki – á margan hátt svipaðir sjálfum mér

„Að mörgu leyti finnst mér eins og heimurinn hafi byrjað þá og allt sem hafi gerst síðan hafi verið eins og gárur þess dags.“
Upphaf heimsins „Að mörgu leyti finnst mér eins og heimurinn hafi byrjað þá og allt sem hafi gerst síðan hafi verið eins og gárur þess dags.“

Trúarbrögðin eru hreyfiafl

Eitt af viðfangsefnum bókarinnar er gildisleysi, einmanaleiki og yfirborðsmennska í hinum snjallvædda samtíma og svo þvert á móti sannfæring og innileiki trúarinnar. Önnur aðalpersóna bókarinnar, Stefán Falur, fjölfróður og sérstakur karakter – sveitaballapoppari, tukthúslimur, bankamaður og frumkvöðull – sem verður hálfgerður lífsleiðbeinandi Arnmundar sækir kraft sinn í kristna trú. Manni er boðið að skilja tilfinningar hans og trúarsannfæringu.

Af hverju langaði þig að fjalla um trúna á þennan hátt?

„Á Íslandi er nánast fullkomin efnisleg velmegun, þetta er eitt öruggasta ríki heims, ef ekki það öruggasta, og í augum útlendinga er Ísland paradís á jörð – fyrir utan veðrið. En þrátt fyrir þetta virðist ríkja djúpstæð óhamingja og heift meðal Íslendinga. Maður finnur að hér er ekki mikil samfélagshugsun og það virðist ekki vera neinn siðferðilegur grunnur sem við getum sameinast um. Kannski er það skuggahliðin á norrænni velferð. Við erum efnislega rík, en andlega fátæk. Ég held að þetta stafi ekki síst af því að við teljum að við séum búin að fatta á undan bróðurparti heimsbyggðarinnar að Guð sé ekki til – að fólk sem trúir sé bara brjálæðingar eða einfeldningar. Þetta er svo mikið dramb! Það erum við sem erum fíflin, ekki fólkið sem fer á hnén og biður æðri mátt um miskunn. Trúarbrögð eru hreyfiafl tilverunnar fyrir milljarða manna, það dýpsta í hverri menningu, og ef við skiljum þau ekki þá getum við ekki skilið neitt annað,“ segir Halldór.

„Ísland er gríðarlega trúlaust land. Ég þekki nánast engan sem er trúaður og maður tekur eftir því að fólk byrjar oft bara að ranghvolfa í sér augunum þegar það hefst einhver umræða um trúarbrögð. Það er eiginlega ekkert minna kúl á Íslandi í dag en að vera trúaður. Þegar Neymar eða Messi benda til himins eftir að hafa skorað segja margir Íslendingar: „Ég fæ bara grænar bólur!“ Ég hef verið að segja við ungu rapparana sem ég þekki að ef þeir vilji gera eitthvað sem sé raunverulega ögrandi þá ættu þeir bara að þykjast taka trú. Það er alveg áskorun að gera Ellingsen töff, en ef þeim tækist að gera þjóðkirkjuna töff þá virkilega tæki ég ofan hattinn fyrir þeim. Næsta skref væri svo Framsóknarflokkurinn. Hinn kúgaði á Íslandi í dag er þjóðkirkjumanneskja í Framsóknarflokknum.“

Helgisiðirnir sem inntak trúarinnar

Ég veit að þú hefur verið að prófa þig áfram með ýmsa ritúala trúarbragðanna, svo sem að stunda föstu. Hefur það gefið þér einhvern dýpri skilning á merkingu trúarbragðanna?

„Spurningin um trú og merkingu trúarbragða tengist spurningunni hvort Guð sé til ekki neitt. Það er grundvallaratriðið – ekki það að spurningin um tilvist Guðs sé ekki líka gífurlega djúp. En ég hef engan bakgrunn í trú og er ófermdur og á erfitt með að segja hvort skilningur minn hafi dýpkað mikið. Ég fékk í það minnsta mikinn áhuga á pælingum um að merking trúarbragða felist einna helst í ritúalnum, að merkingin sé í iðkuninni, því þannig komist fólk í snertingu við helga tímann.“

Þú meinar að með því að fylgja ákveðinni forskrift og fara í gegnum tilteknar ritúalískar hreyfingar geti maður komist í ástand sem er handan við hefðbundna skynjun og línulegan hversdagslegan tíma?

„Já! Þetta er því spurningin um hvað iðkunin gerir fyrir þig. Af hverju hefur fólk stundað þetta í þúsundir ára, jafnvel löngu fyrir Krist – af hverju stenst þetta svona tímans tönn? Og auðvitað reyndist það vera þannig að um leið og maður fer að stunda eitthvað eins og lönguföstu sjálfur, fer maður að skilja þetta á annan hátt. Trú er fyrst og fremst spurning um iðkun – en ekki einhverja heilaleikfimi um frumspeki. Þú sest ekki bara niður í stól heima hjá þér í Hlíðunum, nýbúinn að lesa bakþanka í Fréttablaðinu, og spyrð þig hvort Guð sé til, og ef svarið er nei þá getur þú bara sagt að margir milljarðar manna séu hálfvitar því þeir hafi ekki fattað þetta.“

Erum enn að gera upp hrunið

Eins og margar bækur sem gerast á Íslandi í upphafi 21. aldarinnar fer Aftur og aftur fram í skugga bankahrunsins og tekst á við atburði tengda því. Þar fléttast enn fremur saman stríðið gegn hryðjuverkum og íslenska útrásin þegar Gordon Brown, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, beitti hryðjuverkalögum gegn Landsbankanum þar í landi. Mentorinn í sögunni er einn af þeim ungu mönnum sem tóku virkan þátt í bankaútrásinni og starfar náið með Hreiðari Má, Sigurði Einarssyni og fleiri bankamönnum sem hafa síðan verið dæmdir fyrir fjármálagjörninga sína.

Nú eru komin tíu ár frá bankahruninu, heldur þú að við verðum brátt kominn á þann stað að það hætti að þurfa að vera baksaga allra skáldsagna og við getum farið að snúa okkur að einhverju öðru?

„Ég ætla að vona að það verði langt í það. Ég held að það sé ennþá allt of stutt frá hruni til að segja skilið við þetta – þótt okkur finnist það stundum rosalega langt. Hrunið er okkar Kennedy-morð, stóri atburðurinn sem litar allt samfélag okkar og býr til viðvarandi paranoju. Við þurfum að tala hundrað sinnum meira um þetta. Umræðan um Hrunið er ennþá of Spaugstofuleg. Við klöppum fyrir okkur sjálfum með því að hlæja að „vondu bankamönnunum“ eða afgreiðum þá á sama hátt og íslömsku hryðjuverkamennina, sem illa heimskingja.

Til að komast lengra þurfum við að horfast í augu við þetta á þeim forsendum sem þetta var reist og hvar við vorum sem samfélag. Þó að mínar persónulegu skoðanir séu eins og flestra, mjög dæmandi fannst mér mikilvægt að reyna að fjalla um þetta eins og ég ímynda mér að þetta hafi verið í augum ungs manns sem fylgdist með, trúði á þetta í einlægni og var að reyna að gera sitt besta. Persónan er þó á sama tíma í hringiðunni á mjög íslenskum forsendum, í gegnum rétt tengsl óháð verðleikum. Mig langaði að horfa á þetta heiðarlega með augum þessa manns, manns sem sér þetta bláeygur, lítur upp til þessara manna og vill vera eins og þeir,“ segir Halldór.

„Við eigum ennþá eftir að komast á þann stað að geta „feisað“ þetta dæmi sem þjóð, ekki bara sættast á „narratífið“ um að þarna hafi saklaus og hrein þjóð lent í höndunum á vondum mönnum. Við eigum mjög langt í land með að skilja sátt við þetta mál.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Skriniar fer til Mourinho

Skriniar fer til Mourinho
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker

Allt klappað og klárt fyrir skipti Walker
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum

Hinsegin fólk í Bandaríkjunum leitar til Íslands eftir að Trump tók við völdum