Breski sjónvarpsmaðurinn Louis Theroux frumsýnir á sunnudag nýja heimildarþáttaröð um skuggahliðar Bandaríkjanna. Louis hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir vandaðar og mjög svo athyglisverðar heimildarmyndir sem oftar en ekki fjalla um Bandaríkin á einn eða annan hátt.
Þættirnir, sem sýndir verða á BBC 2, bera yfirskriftina Dark States og í fyrsta þættinum mun hann kafa ofan í heróínvandann. Sífellt fleiri Bandaríkjamenn ánetjast heróíni og í fyrsta skipti í rúma tvo áratugi hafa lífslíkur Bandaríkjamanna minnkað. Er það einkum rakið til heróínvandans, en of stórir neysluskammtar draga fleiri til dauða á ári hverju en skotvopn og bílslys.
Í þættinum á sunnudag mun Theroux heimsækja Huntington í Vestur-Virginíu. Huntington er stundum kölluð höfuðborg heróínneyslu í Bandaríkjunum og eru dauðsföll af völdum of stórra neysluskammta þrettán sinnum fleiri þar en að meðaltali í Bandaríkjunum. Um tíu prósent barna sem fæðast þar eru háð heróíni. Í þættinum mun Theroux ræða meðal annars við fíkniefnaneytendur og bráðaliða sem hafa sjaldan haft meira að gera í vinnunni.
Í öðrum þættinum heimsækir Theroux Milwaukee sem er ein fátækasta borg Bandaríkjanna. Í þættinum, Murder in Milwaukee, ræðir hann meðal annars við lögreglu og íbúa í borginni um þá morðöldu sem gengið hefur yfir sum hverfi borgarinnar undanfarin misseri. Í District 5 er morðtíðni tólf sinnum hærri en að meðaltali í Bandaríkjunum.
Í þriðja og síðasta þættinum að þessu sinni, Sex Trafficking Houston, fjallar Theroux um stöðu mála í Houston en þar er mansal útbreitt vandamál. Þar stjórna valdamiklir hórmangarar vændiskonum í borginni og halda þeim í kynlífsánauð.