Leikkonan Mary Tyler Moore er látin, áttræð að aldri. Síðustu árin hafði hún glímt við heilsuleysi og var orðin nær blind. Í tvo áratugi var hún ein vinsælasta sjónvarpsleikkona Bandaríkjanna. Hún hlaut átta Emmy-verðlaun á ferlinum, fékk Tony-verðlaun fyrir leik sinn í leikritinu Whose Life is it Anyway? og var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir hlutverk sitt í mynd Roberts Redford, Ordinary People.
Hún varð fræg fyrir þættina The Dyck Van Dyke Show þar sem hún lék eiginkonu leikarans. Hún fékk síðan sinn eigin þátt, The Mary Tyler Moore Show, sem naut gríðarlegra vinsælda. Hún stofnaði framleiðslufyrirtæki ásamt eiginmanni númer tvö.
Moore þjáðist af sykursýki frá þrjátíu og þriggja ára aldri og kom margsinnis fram opinberlega til að tala um sjúkdóminn og vekja athygli á honum. Hún var grænmetisæta og annálaður dýravinur og lét sig velferð þeirra miklu varða.
Hún þótti einkar glaðlynd og jákvæð manneskja en líf hennar var þó ekki alltaf dans á rósum. Um tíma glímdi hún við áfengissýki en tókst að sigrast á henni. Árið 1978 lést systir hennar, sem var tuttugu og eins árs, af völdum of stórs lyfjaskammts. Einkasonur hennar lést árið 1980, tuttugu og fjögurra ára. Hann var að hreinsa byssu þegar skot hljóp úr henni og banaði honum. Við rannsókn kom í ljós að framleiðslugalli var í byssunni. Bróðir hennar lést fjörutíu og sjö ára úr krabbameini. Hann hafði verið sárþjáður og hún reyndi að aðstoða hann við að fremja sjálfsmorð með því að mata hann á ís sem mulin lyf voru í. Tilraunin mistókst en hann dó þremur mánuðum síðar.
Mary Tyler Moore var þrígift. Síðasta eiginmanni sínum, lækni, giftist hún árið 1983. Það hjónaband var einkar hamingjuríkt og eiginmaðurinn var hjá henni þegar hún dó.