Nú í vikunni kemur út ný barnabók í Noregi en bókin hefur vakið miklar deilur og það áður en hún kom út. Bókin heitir „Sesam sesam“ og er eftir Gro Dahle en dóttir hennar, Kaia Dahle Nyhus, myndskreytti. Bókin er um klám og er ætluð börnum og fullorðnum.
Í kjölfar umfjöllunar staðarblaðsins Øyene på Tjørne um bókina bárust Gro nokkrar hótanir. Hún var sökuð um „að búa til klám fyrir börn“ og að það væri fyrirlitlegt að búa til klám sem hvorki börn né fullorðnir hefðu beðið um.
Í samtali við Dagbladet sagði Gro að það væri ekki gott að fá svona hótanir, það væri slæmt fyrir samfélagið og hana að fólk hefði í hótunum. Hún sagðist ekki trúa því að upplýst fólk telji bókina vera klám en þess utan sé bara gott að bókin ögri fólki, skapi umræðu og veki fólk til umhugsunar.
Aðspurðar sögðu mæðgurnar að þeim fyndist þörf fyrir bók eins og þessa myndabók þeirra um klám.
„Norsk börn eru með farsíma og netaðgang frá unga aldri. Í skólanum fá þau tölvur. Maður er bara tveimur smellum frá klámi. Það er ekki hægt að stöðva klámflóðið. Þess vegna tel ég að það sé tímabært að ræða þetta meira.“
Sagði Gro.
Í bókinni er sögð saga af Al og eldri bróður hans, Kas. Þeir eru saman í herbergi. Þegar Kas er úti sest Al við tölvuna hans og lendir inni í heimi sem hann vissi ekki að væri til. Þá kemur móðir hans að honum. Hún útskýrir fyrir honum að klám „sé einhverskonar fantasía“.
Mæðgurnar segja að bókin sé fyrir börn allt frá leikskólaaldri og upp en henti líklegast best börnum á grunnskólaaldri.
Á einni myndinni í bókinni sést nakinn maður aftan við nakta konu sem er á fjórum fótum. Fullorðnir átta sig á hvað er í gangi hjá fólkinu en þegar mæðgurnar voru spurðar hvort það væri gott að sýna leikskólabörnum mynd sem þessa sögðust þær ekki telja að það væri skaðlegt.
„Ég held að vandinn við klám sé að maður verður óöruggur með sjálfa sig, það veldur skömm og maður verður ringlaður. Þessi bók tekst á við þessar tilfinningar.“
Sagði Kaia og bætti við að hún hafi lagt mikið á sig til að finna jafnvægi í myndunum svo þær gengu ekki of langt.
„Þetta er bók sem á að sýna hvernig klám er þegar börn sjá það í fyrsta sinn en hún á ekki að vera klám. Það er mikilvægt. Ég var ekki viss um hversu mikið ég ætti að sýna en ég vil að fólk þekki klámið af myndunum.“
Gro sagðist telja að það sé mikilvægt að útskýra hvað klám er fyrir börnum áður en þau rekast sjálf á það.
„Ég held að það sé ekki endilega hættulegt að sjá klám eða upplifa það en það getur ruglað í ríminu. Það getur verið gott að útskýra að klám sé einhverskonar leikrit fyrir fullorðna að það sé ekki hættulegt. Bókin getur verið vinur sem segir þér að þú sért ekki ein/n um að hafa horft á klám og að þú þurfir ekki að skammast þín eða finnast þú minna virði vegna þess“
Sagði Gro sem sagðist einnig vera mjög gagnrýnin á klámiðnaðinn. Hún hafi viljað láta mömmuna í bókina koma fram með það sjónarmið en það hafi ekki passað inn í bókina sem sé sögð út frá sjónarhóli barnsins.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gro sendir frá sér umdeilda bók. Í fyrra gaf hún út bók um sifjaspell og 2003 gaf hún út bók um heimilisofbeldi. Síðarnefnda bókin var mjög umdeild og sagði Gro að hún viti dæmi þess að bókaverðir hafi sett bókina í efstu hillur á bókasöfnum svo börn gætu ekki fundið hana.