Framboðslög eru sjaldnast góð hugmynd. Útkoman verður yfirleitt kjánaleg, sérstaklega þegar hlustandinn áttar sig ekki á því hvort um grín eða alvöru sé að ræða. Í nokkur skipti hafa íslenskir stjórnmálamenn eða stuðningsmenn þeirra reynt að hampa sínu framboði með tónlist. Þetta er útkoman.
Framsóknarsamba er sennilega eitt þekktasta framboðslag Íslands. Það var samið og flutt af Ísólfi Gylfa Pálmasyni þingmanni fyrir alþingiskosningarnar 1999. Framsóknarflokkurinn missti tæplega 5% fylgi og þrjá þingmenn í kosningunum.
Óður til Framsóknar er lag sem teflt var fram fyrir alþingiskosningarnar 2009. Lagið, flutt af Björnsdætrum, er ábreiða af Beyoncé laginu Halo. Framsóknarflokkurinn bætti við sig rúmum 3% og tveimur þingmönnum í kosningunum.
Ungliðarnir Ugla Egilsdóttir og Saga Garðarsdóttir sömu lag með löngum titli fyrir alþingiskosningarnar 2009, Óður til íslenskra kvenna sem leiða framboðslista í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður hjá Vinstrihreyfingunni Grænu Framboði. Þær fluttu lagið sem dúettinn SUS. Vinstri grænir bættu við sig rúmum 7% og fimm þingmönnum í kosningunum.
Lítið hefur farið fyrir framboðslögum Sjálfstæðisflokksins í landsmálunum. En á sveitarstjórnarstiginu láta þeir gamminn geysa.
Halldór Halldórsson og félagar hans á Ísafirði fluttu þetta ónefnda lag fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 2006. Sjálfstæðismenn bættu við sig 8% í kosningunum en bæjarfulltrúatala þeirra hélst óbreytt.
Vestmannaeyingar voru meira móðins árið 2014. Þeir gáfu út teknó-lagið Snjallertu. Sjálfstæðismenn bættu við sig tæpum 18% og einum bæjarfulltrúa í kosningunum.
Besti Flokkurinn með Jóni Gnarr og úrvali íslenskra listamanna á sennilega best heppnaða framboðslag Íslandssögunnar, Við erum best. Lagið, upprunalega Simply the Best með Tinu Turner, kom út fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2010 og hefur fengið meira en 100.000 áhorfanir á Youtube. Flokkurinn kom nýr inn og hlaut tæp 35% og sex fulltrúa kjörna.
Fjórum árum síðan reyndu frambjóðendur Bjartrar Framtíðar að leika sama leik með ábreiðu af Starship laginu We Built This City. Ef gert er ráð fyrir að Björt Framtíð sé arftaki Besta flokksins, missti framboðið rúm 19% og fjóra fulltrúa í kosningunum.
Flokkur Fólksins og Inga Sæland eru tilbúin með framboðslag sem þau nota grimmt fyrir alþingiskosningarnar nú í október. Lagið heitir Einn fyrir alla og Inga syngur það sjálf. Þetta country-skotna lag er betur heppnað en mörg önnur. Flokkur Fólksins hlaut um 3,5% í alþingiskosningunum árið 2016 og hefur verið að mælast með rúmlega 10% fylgi í könnunum undanfarið.
Framboðslög fyrir forsetakosningar eru mjög óalgeng. Eftirminnilegasta lagið er Sameinumst í flutningi Garðhljómsveitarinnar til stuðnings Þóru Arnórsdóttur fyrir forsetakosningarnar árið 2012. Þóra hlaut rúm 33% atkvæða í kosningunum og náði ekki kjöri.
Alræmdast af öllum framboðslögum hlýtur að vera T-Listalagið. Kristján Pálsson, fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins flutti lagið fyrir sérframboð sitt til alþingiskosninganna árið 2003. Lagið er ábreiða af Stuðmannalaginu Taktu til við að tvista.T-Listi fékk 3,5% fylgi í kosningunum sem dugði ekki fyrir þingmanni.