It frá árinu 1986 er ein af þekktustu skáldsögum Stephens King og samnefnd sjónvarpsmynd í tveimur hlutum frá árinu 1990 er orðin sígildur költari. Sú mynd skemmdi æsku margra sem laumuðust til að sjá hana of ungir og átti sinn þátt í því að svo margir óttast trúða. Hin nýja It hefur verið lengi í bígerð og aðdáendur hafa beðið spenntir eftir að sjá söguna loksins sýnda á hvíta tjaldinu. Líkt og aðrar endurgerðir þekktra hryllingsmynda verður hún þó ávallt borin saman við forvera sinn.
Líkt og í sjónvarpsmyndinni er It í tveimur hlutum. Fyrri hlutinn gerist árið 1989 í bænum Derry í Maine-fylki en seinni hlutinn mun koma út árið 2019 og gerast í nútímanum. Aðalsöguhetjurnar eru hópur 13 ára krakka sem kalla sig Aulaklúbbinn vegna þess að þau eru útundan í skólanum og sífellt á flótta undan strákagengi sem leggur alla minnimáttar í einelti.
Sagan hefst með hvarfi Georgie, litla bróður leiðtoga klúbbsins, sem verður óþekktri óværu að bráð. Óværan tekur fleiri börn úr bænum og tekur að birtast meðlimum Aulaklúbbsins sem dansandi trúðurinn Pennywise. Seinna kemur í ljós að Pennywise hefur fylgt bænum frá stofnun hans um miðja 18. öld og dúkkar upp á 27 ára fresti til að gera einhvern óskunda. Þess á milli liggur hann í dvala og bæjarbúar gleyma hörmungunum.
Krakkarnir í Aulaklúbbnum ákveða að takast á við Pennywise og minnir sagan því um margt á kvikmyndirnar The Goonies, Stand by Me og Super 8 og þættina Stranger Things. Allir krakkarnir hafa sína forsögu og sinn djöful að draga nema þá hinn meinhæðni Richie, leikinn af Finn Wolfhard sem fer með aðalhlutverkið í Stranger Things.
Hin nýja It gengur fyrst og fremst út á það að bregða áhorfendum og sýna þeim grafískar og truflandi myndir. Hér er algjör vöntun á hinum undirliggjandi óhugnaði sem einkenndi sjónvarpsmyndina. Atriðin eru svo tíð og svo fyrirsjáanleg að þegar líða tekur á fer manni hreinlega að leiðast. Hafa ber einnig í huga að myndin er um 45 mínútum lengri en fyrri hluti sjónvarpsmyndarinnar.
Galdurinn við sjónvarpsmyndina var að miklu leyti Pennywise sjálfur, leikinn meistaralega af Tim Curry. Nú er trúðurinn leikinn af Bill Skarsgård (sonur Stellan), sem stendur sig ágætlega en hefur ekki þá vigt sem Curry hafði og virðist of ungur fyrir hlutverkið. Ofan á þetta er hlutverk hans að miklu leyti eyðilagt með ofnotkun tæknibrellna. Aðrir leikarar hafa fengið mikið lof gagnrýnenda en það verður að segjast að persónurnar eru ýktar og ótrúverðugar, sérstaklega þær eldri.
Myndin hefur einnig fengið lof fyrir að vera nokkuð trú skáldsögu Stephens King en það er hins vegar ekki alltaf ávísun á góða kvikmynd. Ber þar helst að nefna sjónvarpsmyndina The Shining frá árinu 1997 sem fylgdi skáldsögu King vel en var hreint út sagt afleit. Kvikmynd Stanleys Kubrick frá 1980 sveigði vel frá textanum en var hins vegar meistaraverk.
Endurgerðir af þekktum hryllingsmyndum hafa verið í tísku undanfarin ár. A Nightmare on Elm Street, Friday the 13th, Halloween, Carrie og The Hills Have Eyes eru dæmi um endurgerðir sem skiluðu sínu í kassann en þjónuðu engum listrænum tilgangi. Því miður bætist It í hóp þessara mynda.
Jákvæði hlutinn við þetta er að endurgerðirnar vekja mögulega áhuga hjá einhverjum af yngri kynslóðinni á að kynna sér forverana, frá þeim tíma þegar hryllingsmyndagerð var frumlegt og áhugavert listform.