Mikið var unaðslegt að koma sér vel fyrir í sófanum og horfa á beina útsendingu RÚV frá óperutónleikum í Hörpu. Efnisskráin var hreint yndi en hún samanstóð af óperutónlist sem þjóðin hafði valið sem sitt uppáhald í kosningu á ruv.is. Æstir óperuunnendur geta vissulega deilt um niðurstöðuna, en það gerir maður bara í hljóði. Öll verkin sem flutt voru áttu skilið að vera á efnisskránni.
Klassísk tónlist á vel heima í sjónvarpi. Sumir vilja ekkert endilega vera innan um aðra á tónleikum, finnst miklu notalegra að vera heima og hlusta og njóta. Sjónvarpsáhorfendur fengu líka aukaupplýsingar á milli atriða, því rætt var við söngvara og aðstandendur tónleikanna og birt myndskeið af heimsfrægum söngvurum að syngja stórkostlegar aríur. Hjartað tekur alltaf kipp þegar heyrist í Pavarotti, eins og gerðist þarna. Hann var engum líkur.
Söngvararnir á sviðinu stóðu sig gríðarlega vel enda var þeim ákaft fagnað. Þar á meðal var Kristinn Sigmundsson sá mikli listamaður. Alltaf gleður hann mann með söng sínum og sjarma.
Í Hörpu var greinilega mikil gleði í loftinu sem smitaðist til manns inn í stofu. Kynnar kvöldsins voru Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir, sem stóðu sig með mikilli prýði, voru afslöppuð og skemmtileg. Þessi útsending var rós í hnappagatið fyrir RÚV og alla þá sem að henni stóðu.