Hryllingsmyndin Annabelle: Creation var aðsóknarmesta kvikmyndin í kvikmyndahúsum Bandaríkjanna um helgina, en myndin þénaði alls 35 milljónir dala um frumsýningarhelgina.
Myndin tengist Conjuring-myndunum sterkum böndum og hefur hún fengið ágætis dóma frá gagnrýnendum. Myndinni er leikstýrt af David F. Sandberg sem leikstýrði einnig hryllingsmyndinni Lights Out sem kom út á síðasta ári. Annabelle: Creation er framhald myndarinnar Annabelle sem kom út árið 2014 en sú halaði inn 37,1 milljón Bandaríkjadala fyrstu frumsýningarhelgina.
Næstvinsælasta myndin í bandarískum kvikmyndahúsum var myndin Dunkirk í leikstjórn Christopher Nolan, en hún þénaði 11,4 milljónir dala um helgina. Það er dágott miðað við að myndin hefur nú verið í sýningu yfir fjórar helgar. Í þriðja sæti var svo myndin The Dark Tower, sem byggð er á bókum Stephen King, en myndin þénaði 7,9 milljónir dala um helgina.