Hún var einstaklega falleg heimildamyndin frá BBC sem RÚV sýndi síðastliðið mánudagskvöld um ástir í dýraríkinu, Animals in Love. Hver sagan rak aðra í þessum merkilega þætti þar sem dagskrárgerðarkonan Liz Bonnin var á ferð og flugi um heiminn í leit að dýrum sem kunna að elska.
Við kynntumst alls konar dýrum sem elska og þjást. Þar á meðal var api sem hafði misst ástkæra konu sína og son og kvaldist af sorg og virtist um það bil að veslast upp. Saga hans var átakanleg en sem betur fer fann hann að lokum ástina á ný með apaynju. Þarna var líka sögð saga samkynhneigðra mörgæsa, Dottie og Zee, sem eru að því er best verður séð í fullkominni sambúð þar sem ríkir gagnkvæm virðing og vinátta.
Merkileg var síðan ástarsaga grágæsasteggsins Tarek sem varð fyrir því að maki hans, Judith, týndist í óveðri. Tarek var harmi sleginn en tók síðan saman við aðra grágæs. Ári síðar birtist Judith og Tarek var ekki í vafa hvað hann vildi gera og yfirgaf nýju grágæsina til að taka aftur saman við Judith. Parið hefur lifað í hamingjuríkri sambúð í nokkur ár og nú virðist sem ekkert muni aðskilja þau, nema dauðinn.
Einnig var sögð saga fílahjarðar þar sem dýr voru í losti eftir að veiðiþjófar höfðu drepið félaga þeirra. Þau vantreystu skiljanlega mönnum og litu á þá sem óvini sína en það breyttist eftir að þeir kynntust Lawrence Anthony, manni sem þau treystu og elskuðu. Sú saga er öll stórmerkileg, eins og rakið var í þáttunum. Þar var einnig sögð áhrifamikil vinkvennasaga kvenfílanna, Frankie og E.T.
Sannarlega þáttur sem var þess virði að á hann væri horft.