fbpx
Mánudagur 30.desember 2024
Fókus

Óskar Þór Axelsson leikstýrir draugatryllinum Ég man þig

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 25. maí 2017 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég vil að sem flestir sjái myndirnar sem ég geri. Auðvitað vil ég gera góðar myndir, en í þessu felst mitt „kick“,“ segir Óskar Þór Axelsson kvikmyndagerðarmaður sem nýlega frumsýndi draugatryllinn Ég man þig sem er byggður á bók Yrsu Sigurðardóttur.

Íslenskir bíógestir hafa tekið Óskar á orðinu og er myndin vorsmellurinn í kvikmyndahúsum landsins, en hún var mest sótta myndin í síðustu viku og um 20 þúsund manns hafa séð myndina nú þegar.

Það er erfitt að ná í Óskar enda vinnur hann nú myrkranna á milli við tökur á nýrri sex þátta spennuþáttaröð byggðri á bókunum eftir hulduhöfundinn Stellu Blómkvist.

En síðla kvölds, strax í kjölfar tólf tíma tökudags mælum við okkur mót á kaffihúsi og ræðum saman um kvikmyndagerð, hryllingsmyndir og hulduhöfunda.

Star Wars og leigðar kamerur

Óskar Þór Axelsson, sem er fæddur árið 1973, segist eiga margar sterkar minningar af kvikmyndum frá því þegar hann var lítill. „Ég á til dæmis svakalega sterkar minningar af því að hafa farið með eldri systkinum mínum í bíó. Það er kannski svolítið mikil klisja en ein fyrsta myndin sem ég man eftir að hafa alveg fallið fyrir var Star Wars, bróðir minn sem er átta árum eldri en ég, tók mig með sér í Nýja Bíó. Það var mjög eftirminnilegt,“ segir Óskar Þór.

„Þegar ég var svona 11 ára fengum við vinirnir að gera stuttmynd á tökuvél sem pabbi eins okkar var með í láni úr vinnunni sinni – og það æxlaðist einhvern veginn þannig að ég fór að stýra henni. Ég man að mér fannst þetta alveg geðveikt. Ég elskaði að horfa á þessa mynd og lifði á þessu í langan tíma.“

Hann segir þá félagana hafa nýtt sumrin á unglingsárunum í að gera stuttmyndir: „Pabbi minn dó á þessum tíma og ég sökkti mér dálítið mikið í einhverjar svona pælingar. Við félagarnir tókum upp á því að leigja vélar nokkrum sinnum yfir sumarið. Söfnuðum í púkk og leigðum kameru dýrum dómi yfir eina helgi – við þurftum reyndar að fá bróður minn til að leigja hana fyrir okkur því við vorum of ungir. Þessar örfáu helgar voru svo það sem maður lifði fyrir allt sumarið,“ segir Óskar.

Tókstu svo einhvern tímann meðvitaða ákvörðun um að reyna að leggja þetta fyrir þig?

„Já, þegar ég kláraði Versló var spurningin hvort ég ætti að skrá mig í lögfræði eins og pabbi og systkini mín – mér fannst það alveg mjög spennandi – eða hvort ég ætti að fara út í kvikmyndagerð. Ég settist niður og hugsaði mikið um þetta og tók þessa ákvörðun að lokum.“

Fékk inni í draumaskólanum

Þar sem ekki var hægt að læra kvikmyndagerð á Íslandi ákvað Óskar að skrá sig í almenna bókmenntafræði og sækja svo um í mastersnám erlendis. Eftir nokkur ár í stuttmyndum og auglýsingagerð komst hann svo loks inn í draumaskólann, kvikmyndadeild New York-háskóla.

„Ég var búinn að vera að framleiða, en vissi að mig langaði ekki til þess til frambúðar. Mig langaði að læra meira um tæknihliðina, en fyrst og fremst vildi ég fá tíma til að prófa mig áfram, finna mína eigin rödd. Skólinn hafnaði mér fyrst og það var mjög svekkjandi. Ég var þá búinn að ákveða að taka boði um skólavist annars staðar en fékk svo símtal frá NYU þar sem mér var boðið pláss á öðru ári. Ástæðan var að annar nemandi hafði fallið frá, og þeim fannst ég hafa gert nógu mikið til að fara beint á annað ár. Mig langaði hins vegar að taka ýmislegt sem var í boði á fyrsta árinu, læra að vinna með leikurum og annað slíkt. Þetta útskýrði ég í löngum tölvupósti, og eftir það var mér boðið pláss á fyrsta ári,“ segir Óskar Þór.

Hann tekur fram að stemningin í borginni hafi verið óvenjuleg þegar hann hóf námið enda kom hann til New York aðeins örfáum vikum fyrir hryðjuverkaárásirnar á tvíburaturnana í september 2001, en eftir nokkurra daga lokun hélt námið áfram og gekk sinn vanagang. Lokaverkefnið var vísindaskáldsagan Misty Mountain sem Óskar segir að hafi verið sérstaklega metnaðarfull, tekin upp á 35 millimetra filmu á Langanesi og fjallaði um tímaflakk og var uppfull af heimspekilegum pælingum.

Jóhannes Haukur Jóhannesson í hlutverki sínu í Svartur á leik.
Ógnvænlegur Jóhannes Haukur Jóhannesson í hlutverki sínu í Svartur á leik.

Góð viðbrögð úr undirheimunum

Á meðan hann starfaði sem tökumaður í Bandaríkjunum fór hann að velta fyrir sér næsta verkefni og þá fékk hann senda bókina Svartur á leik eftir Stefán Mána, harðsoðna glæpasögu úr hinum vaxandi íslensku undirheimum.

„Ég var ótrúlega hrifinn og vissi strax að þetta væri myndin sem ég vildi gera – það kom ekki neitt annað til greina. Hún minnti mig á allar mínar uppáhaldsmyndir, sú týpa af myndum sem ég fílaði hvað best, mynd sem maður hafði ekki séð áður á Íslandi. Hún gerist líka á árunum 1999 og 2000 sem er einmitt tímabilið áður en ég flyt út til Bandaríkjanna og þekki svo vel. Ég er á svipuðum aldri og aðalpersónurnar og þó að ég þekkti ekki undirheimana beint þá þekkti ég allt umhverfið og þetta talaði til mín. Þetta verður fyrsta myndin!“ segir Óskar.

„Stefán Máni hafði verið fenginn til að skrifa handrit en satt best að segja fannst mér það alls ekki nógu gott. Hann hafði eiginlega gert aðra sögu upp úr bókinni,“ segir Óskar og í kjölfarið skrifaði hann sjálfur nýtt handrit en með samþykki og yfirlestri Stefáns Mána. Frá og með 2006 vann hann í handritinu en efnahagshrunið setti stórt strik í reikninginn og ekki tókst að frumsýna myndina fyrr en árið 2012. En hún sló í gegn í íslenskum kvikmyndahúsum.

„Hún gekk alveg vonum framar. Hún fékk töluvert fleiri áhorfendur en við bjuggumst við – tæplega 63 þúsund manns sáu hana hérna heima. Hún seldist líka mjög víða, gekk vel á festivölum og opnaði fyrir mig dyr í Bandaríkjunum. Þetta er rosalega mikilvægt fyrir mig. Þegar maður gerir sína fyrstu mynd þá er enginn að bíða eftir mynd frá þér. Þú þarft að leggja svo mikið á þig, gefa svo mikið af vinnu til að komast á staðinn. Ef hún floppar er hún allt í senn fjárhagslegt áfall, egóáfall og „reality-check“: er ég á réttri hillu? Það að hún hafi gengið svona vel breytti öllu. Fólk var byrjað að spyrja hvað ég myndi gera næst og mér var boðið að taka þátt í Ófærð og svo framvegis.“

Þú segir að viðtökurnar hafi almennt verið betri en þú þorðir að vona – en heyrðir þú eitthvað hvernig menn í undirheimunum tóku í þetta, þar sem persónurnar eru oftar en ekki byggðar á raunverulegum glæpamönnum?

„Persónurnar eru oft byggðar á nokkrum raunverulegum aðilum, ein persóna byggir þá kannski á þremur eða fjórum. En já, ég heyrði rosa gott „feedback“ úr undirheimunum, úr ýmsum áttum. Ég fékk viðbrögð frá mönnum sem voru alveg hæstánægðir með þetta.“

Ófært í Hollywood

Eftir Svartur á leik ákvað hann að láta langþráðan draum rætast og flytjast í eitt ár með fjölskyldunni til Los Angeles, kynnast bransanum og kynna sig sjálfan. Þrátt fyrir að hafa skrifað undir nokkra samninga um leikstjórn mynda hefur ekkert verkefnið orðið að veruleika enn sem komið er – enda segir Óskar myndirnar þurfa að komast í gegnum mikið nálarauga til að verða að veruleika.

Heima fékk hann hins vegar tækifæri til að taka þátt í stærsta sjónvarpsverkefni sem framleitt hafði verið á Íslandi. Hann segir það vissulega hafa verið stærra verkefni og fagmannlegra en hann hafði áður kynnst en segir það þó vera hluta af þróun sem hafi átt sér stað í íslenskri kvikmyndagerð á undanförnum árum.

„Ég er búinn að starfa í kvikmyndagerð meira og minna frá árinu 1997. Á þessum tíma hefur svo rosalega mikið breyst. Það er ekki bara auðveldara að fjármagna verkefni heldur er öll fagmennskan hjá teymunum búin að taka stakkaskiptum sem og öll umgjörðin. Bara munurinn frá því að ég var að gera Svartur á leik og til dagsins í dag er svakalegur,“ segir Óskar.

„Maður fann líka svo sterkt fyrir því að allt í umgjörðinni í kringum Ófærð miðaðist að því að leikstjórinn gæti algjörlega einbeitt sér að því sem hann á að gera, sem er að skipuleggja senurnar og ná því besta út úr leikurunum. Í öllum stuttmyndunum og jafnvel Svartur á leik þurfti maður að gera mun fleiri hluti og allt var miklu þyngra.

Mér fannst líka mjög gaman að vinna með öðrum leikstjórum. Í raun og veru er þetta nefnilega frekar einmanalegt starf. Þú þarft að taka allar ákvarðanirnar einn og þarft svo að standa og falla með þeim. Ef það er eitthvað vesen þá berð þú ábyrgð á því. Mér fannst frábært og afslappaðra að fara inn í teymi þar sem maður deildi ábyrgðinni – þó að Baltasar hafi auðvitað verið aðalleikstjórinn.“

Þrjú ungmenni lenda í hrakningum þegar þau ætla að gera upp gamalt hús í eyðiþorpinu Hesteyri í Jökulfjörðum.
Myrkur og ógn Þrjú ungmenni lenda í hrakningum þegar þau ætla að gera upp gamalt hús í eyðiþorpinu Hesteyri í Jökulfjörðum.

Óvenjuleg hrollvekja

Ég man þig er fyrsta skáldsaga Yrsu Sigurðardóttur sem er færð á hvíta tjaldið en í bókinni sem kom upphaflega út árið 2010 er tvinnað saman tveimur sögum. Önnur sagan segir frá lækni á Ísafirði sem dregst inn í rannsókn á sjálfsmorði eldri konu en það virðist á einhvern dularfullan hátt tengjast hvarfi sonar hans fyrir nokkrum árum. Hin sagan segir frá ungu fólki sem fer að gera upp hús á Hesteyri um miðjan vetur en fer fljótt að gruna að það séu eitt ein í eyðiþorpinu.

„Ég las bókina mjög hratt þegar ég fékk hana senda og varð mjög spenntur en ég var samt ekki eins sannfærður og með Svartur á leik, því þótt ég hafi gaman af hryllingsmyndum eru það ekki uppáhaldsmyndirnar mínar. Það sem mér fannst hins vegar svo áhugavert var að bókin var algjörlega tvískipt, tvær sögur með tvö ólík form. Þetta er eitthvað sem hentar kvikmyndaforminu almennt frekar illa en mér fannst svo mikil áskorun fólgin í því að láta þetta ganga upp. Sagan heillaði mig auðvitað líka og svo fannst mér spennandi að þetta yrði fyrsta myndin byggð á bók eftir Yrsu – það gæti líka hjálpað til við fjármögnunina,“ segir Óskar.

„Þegar ég var í Hollywood var oft verið að bjóða mér hryllingsmyndir en handritin fannst mér bara yfirleitt svo léleg, klisjukennd og óspennandi – maður vill ekki festast í að gera svoleiðis myndir svo ég hafði varann á. En þessi mynd fannst mér svo óvenjuleg. Önnur sagan er krimmi en hin er „horror“ og svo er heilmikið drama þarna. Það er þessi blanda sem er svo heillandi. En svo er þetta líka draugasaga sem við höfum mikla hefð fyrir á Íslandi, svo mér fannst það spennandi. Það er bara svo mikið mál að gera svona mynd að maður verður að vera með hjartað í því.“

Listin að hræða áhorfendur

Það hlýtur að vera mikil kúnst að skapa ótta í bíógestum sem er nauðsynlegur í svona tryllum, hvernig fannst þér það ganga?

„Fólk er náttúrulega ólíkt, sumir verða auðveldlega hræddir og aðrir alls ekki. Þannig að það er mjög snúið að gera þetta vel. Í grínatriði er nokkuð augljóst að sjá hvort hlutir séu fyndnir, í kraftmikilli ofbeldissenu er augljóst hvort áhættuatriðið hafi tekist vel eða ekki, en það sem maður heldur að sé góður hryllingur getur auðveldlega orðið hallærislegt. Auðvitað verður maður sjálfur ekki hræddur á settinu en maður verður að treysta því að atriðið sé gott ef maður fær örlitla tilfinningu fyrir því að það sé „creepy“ þegar maður er að skjóta það, ef hárin rísa örlítið. Yfirleitt reyndi ég svo að eiga nokkra ólíka möguleika varðandi hvert atriði, til dæmis hversu mikið sést í Bernódus þegar hann birtist í læknum, hvert hann horfir og svo framvegis. Það gefur manni fleiri möguleika í klippiherberginu. En þess vegna var svo frábært að sjá fullan sal af fólki horfa á myndina – að sjá fólk grípa í höndina á næstu manneskju í spennandi atriði.“

Það hlýtur svo að hafa verið ákveðið umhugsunaratriði hvort það ætti að sýna ógnvaldinn eins og þið gerið undir lok myndarinnar. Það er auðvitað smekksatriði hvort það sé gott en ég held að það geri að verkum að fólk fari léttara út – hryllingurinn er ekki lengur ósýnilegur heldur þekkt stærð og þar með auðveldara að takast á við hann.

„Já, ég held að mjög harðir horror-aðdáendur séu ekki sáttir við þetta. En endirinn styður við dramað í sögunni. En þótt það sé lokun þá er þetta líka skuggalegur endir að vissu leyti. En ég er ánægður að heyra að þér finnist þetta svolítið „happy-ending“.“

Já, ég get ímyndað mér að þetta geri myndina fýsilegri fyrir almenna bíógesti sem ekki eru mikið fyrir hrylling.
„Já, þessi mynd er gerð fyrir almenning. Ég vissi það alveg frá upphafi og ýmsar ákvarðanir í ferlinu voru teknar með það í huga. Ég vil að hún höfði til ungs fólks en líka til ömmu þeirra og afa. Ég vil að þetta geti virkað sem inngangur fyrir fólk inn í þessa tegund bíómynda og mér heyrist það raunar vera að gerast – hópar af saumaklúbbum eru að mæta saman á myndina en líka unga fólkið.“

Í tölvupóstsamskiptum við hulduhöfund

Nýjasta verkefni Óskars er leikstjórn sex þátta raðar um lögfræðinginn Stellu Blómkvist með Heiðu Rún Sigurðardóttur í titilhlutverkinu. Þættirnir sem koma allir í einu inn á Sjónvarp Símans í nóvember eru byggðir á vinsælum – en ekki jafn virtum – glæpasögum hulduhöfundarins Stellu Blómkvist. Bókmenntafræðingurinn Óskar Þór er sem sagt enn einu sinni að laga íslenska spennusögu að kvikmyndaforminu.

„Ég hef alltaf pælt mjög mikið í aðlögunum og eiginlega sérhæft mig í því, bæði í náminu og eftir það. Ég skrifaði meira segja BA-ritgerðina um aðlögun leikrita að bíómyndum. Margar af uppáhaldsmyndum mínum er aðlaganir. Mér finnst líka glóra í þessu því stóri stopparinn í kvikmyndagerð er alltaf fjármagnið, og það getur verið auðveldara við að eiga þegar þú ert með bók sem fólk kannast kannski við. En svo ertu líka með þennan brunn til að sækja í aftur og aftur, ef þú sem leikstjóri eða handritshöfundur ert fastur ferð þú aftur í upphaflega verkið og sækir þar eitthvað nýtt.“

En hvað með Stellu Blómkvist, hefur þú verið í einhverju sambandi við þennan hulduhöfund persónulega – og veistu hver er á bak við nafnið?

„Ég tók þá ákvörðun strax að ég vildi ekki vita hver hún væri. En ég hef fengið tölvupóst frá viðkomandi. Hún las yfir handritið og kom með smá hugmyndir, það var mjög gaman,“ segir Óskar og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 dögum

Áramótaspá Ellýjar Ármanns – Spáir fyrir Valkyrjustjórninni: „Það er eins og einhver málaflokkur hjá þeim fái ekki nóg“

Áramótaspá Ellýjar Ármanns – Spáir fyrir Valkyrjustjórninni: „Það er eins og einhver málaflokkur hjá þeim fái ekki nóg“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna

Nóttin sem aldrei gleymist – Hinn óvænti jólafriður í miðju blóðblaðs og hryllings skotgrafanna