fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Að læra að lesa í umhverfið

Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur ræðir um tákn og fyrirboða

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 10. apríl 2017 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Græni kallinn gefur þér merki um að ganga yfir götuna en í þann mund sem þú heldur af stað hleypur svartur köttur framhjá þér, þú fyllist ónotatilfinningu en hugsar um krossinn sem hangir í gullfesti um hálsinn á þér undir Adidas-peysunni. Umferðarljósið er orðið rautt og gulur bíll með TAXI-merki flautar svo þú hleypur af stað.

Á hverju augnabliki þarf nútímamaðurinn að meðtaka, túlka og bregðast við ótal táknum og merkjum. Mörg þessara tákna í umhverfinu eru glæný, en önnur hafa fylgt manninum, þróast með honum í árþúsund og leikið stórt hlutverk í ýmiss konar hjátrú og þjóðsögum.

Símon Jón Jóhannsson, þjóðfræðingur og kennari við Flensborgarskóla, hefur sent frá sér uppflettiritið Fyrirboðar og tákn – auðnuspor og ólánsvegir í daglegu lífi en í bókinni er að finna skýringar á fjölmörgum táknum og fyrirboðum sem birtast okkur í daglegu lífi. Í bókinni sækir hann jafnt í innlenda sem erlenda þjóðtrú, dulspeki og táknfræði.

Að lesa í umhverfið

„Tákn eru merki sem standa fyrir einhverja stærri heild, hlutir sem eru látnir standa fyrir eitthvað annað en sig sjálfa. Við göngum alla daga á slíkum táknum, til dæmis eru bókstafir tákn, en einnig umferðarmerki, on-off takkar á rafmagnstækjum, fyrirtækjalógó og hitt og þetta. Venjulegur maður í vestrænu nútímasamfélagi stendur frammi fyrir meira en þrjú þúsund táknum á dag. Þú nærð aðeins að bregðast við örlitlum hluta þessara tákna, en flest eru bara fljótandi í kringum þig. Við lifum í ótrúlega miklum táknheimi,“ segir Símon Jón.

„Í þessari bók skoða ég ýmsar gerðir af táknum en legg sérstaka áherslu á þau sem tengjast þjóðtrú, gömul tákn sem hafa fylgt okkur öldum eða jafnvel árþúsundum saman. Þegar maður fer að rekja uppruna þessara tákna þá endar maður mjög oft hjá Forn-Grikkjum, Egyptum eða enn fyrr. Mörg þessara tákna virðast því hafa fylgt okkur alveg frá því að menningin varð til. Í bókinni skoða ég til dæmis mikið af dýrum og hvað þau hafa verið talin tákna, þarna eru líka talsvert mikið af útlitspælingum, enda getur háralitur og augnlitur sagt mikið um mann. En svo eru þarna margar aðrar gerðir af táknum, bara hitt og þetta.“

Trúin á fyrirboða lifir í nútímanum

Gulur

Gulur er táknlitur afbrýðisemi, hverfulleika og sviksemi. Liturinn getur einnig verið táknlitur sólarinnar og upprisunnar eins og sjá má um páskahátíðina.

Páskaunginn sem skríður úr egginu er yfirleitt gulur, tákn nýs lífs, vonar og gleði. Páskaliljur eru gular.

Á fyrri tíð voru víða máluð gul strik á dyrnar hjá þeim sem taldir voru svikarar og það var ekki tilviljun að Davíðsstjarnan sem nasistar létu gyðinga bera á stríðsárunum var höfð gul.

Stundum er sagt að kindur pissi sólskini þegar þær pissa gulu og boði þannig betra veður.

Í bókinni er einnig tekinn saman fjöldi fyrirboða en það er sérstök gerð tákna í umhverfinu sem fólk telur gefa vísbendingar um eitthvað sem það á í vændum.

„Fyrirboðar eru mikilvægur hluti af þessum hjátrúar- eða þjóðtrúarheimi. Þegar við tölum um fyrirboða eigum við við eitthvað sem ber fyrir í kringum okkur í hinu daglega lífi og við tökum mark á. Oft er þetta þá eitthvað sem er talið góðs eða ills viti. Það má nefna mjög algenga fyrirboða á borð við það ef svartur köttur hleypur fyrir þig, eða ef þú sérð hrafn fljúga með einhverjum ákveðnum hætti, þá er það talið boða illt. Fyrirboðar eru í raun ákveðin tegund af táknum sem fólk greinir í umhverfi sínu. Þarna á bak við liggur trú á að það séu einhvers konar andar á sveimi í kringum okkur eða öfl sem við sjáum ekki, en að við getum fengið einhverja hugmynd um hvað sé að gerast hjá þeim með því að lesa í táknin og fyrirboðana,“ segir Símon.

„Trúin á fyrirboða lifir í raun ótrúlega góðu lífi enn í dag. Það má til dæmis nefna að fjöldi fólks spáir mikið í drauma og álítur þá fyrirboða fyrir það sem muni gerast. Þá eru stéttir á borð við sjómenn, leikara og íþróttamenn sem virðast eiga allt sitt undir einhverjum forlögum og spá því mikið í þetta. Í sumum tilfellum byggja fyrirboðarnir þó á þekkingu sem þessar stéttir hafa öðlast í gegnum tíðina – sjómenn vita að þegar veðrið er með ákveðnum hætti þá fer maður ekki á ákveðin mið eða þegar sjólag er með ákveðnum hætti er gott að fiska á ákveðnum miðum. Í dag treystir fólk þó miklu meira á hin ýmsu tæki í þessum tilgangi.“

Finnur táknin á botni kaffibollans

Lóa

Á Íslandi er lóan vorboði og tákn þess að sumarið sé í nánd og það hefur löngum þótt ólansmerki að drepa lóur.

— Öllum stórhríðum er lokið þegar lóan er komin.

— Þegar lóan syngur „dýrðin, dýrðin“ fyrst á vorin veit það á gott en tísti hún fyrst „óhú, óhú“ má búast við vondu veðri.

— Setjist lóur í stórum hópum á tún á haustin er það fyrirboði um rigningu og hret.

— Safnist lóur saman í fjöru boða þær votviðri en leiti þær til fjalla verður kalt.

— Það er von á rigningu setjist lóur í hópum í slægju en séu þær í móum eða aurum er von á þurrki.

— Á Bretlandseyjum er sagt að hafi menn ekki peninga í vasanum þegar þeir heyra fyrst í lóunni á vorin verði þeir blankir það sem eftir er ársins.

— Ef lóan í Noregi syngur „plít, plít“ boðar hún milt og gott veður en tísti hún „utíuh, utíuh“ er von á rigningu eða snjókomu.

Símon segir að hugmyndin um fyrirboða tengist óhjákvæmilega ákveðinni forlagatrú þar sem framtíðin er í raun ákveðin fyrirfram. Slík trú virðist lifa góðu lífi í nútímanum þrátt fyrir að vera í nokkurri andstæðu við það sem mætti kalla hið opinbera viðhorf, að framtíðin sé frjáls og óráðin.

„Þetta snýst um að höpp eða óhöpp séu eiginlega liggjandi í loftinu í kringum mann, eitthvað sem eigi fyrir manni að liggja. Oft er hins vegar hægt að bregðast einhvern veginn við forboðunum. Þegar svartur köttur hleypur fyrir framan mann, þá getur maður brugðist við með því að krossa fingur, fara með bæn, hrækja á eftir kettinum eða eitthvað slíkt. Þetta er það sem í þjóðfræðinni er kallað víxlun – það ber eitthvað fyrir, þú bregst við því á ákveðinn hátt og breytir atburðarásinni. Það má segja að þú beitir ákveðnum galdri til að blíðka þessi öfl í kringum þig eða hafa einhver áhrif á þau.“

Í bókinni tekur Símon enn fremur fyrir nútímalega hjátrú eða flökkusögur, til dæmis að þeir sem horfi í gegnum glerið á örbylgjuofni verði blindir, enda segir hann þetta byggja á sama hugsunarhættinum og gamla þjóðtrúin.

Eitt annað dæmi um lestur á táknum og fyrirboðum sem er hluti af íslenskri þjóðmenningu er lestur í bolla, en Símon kann einmitt handtökin á þeim vettvangi.

„Ég myndi nú ekki kalla mig mikinn bollaspámann, en ég átti ömmu sem kenndi mér að spá í bolla. Hún kenndi mér hvernig á að bera sig að og hvaða táknum á að leita eftir. Ég var svo snemma áhugasamur um svona hluti að ég gleypti þetta í mig. Ég get því alveg horft í bolla, farið eftir leiðbeiningum ömmu og rýnt í það sem ég sé. Bollinn á að snúa ákveðinn hátt og maður les í ákveðinn hring, eftir því sem maður les lengra, því lengra horfir maður inn í framtíðina. Þarna eru svo tiltekin tákn sem maður leitar eftir og merkja ákveðna hluti, hringur í botni bollans táknar trúlofun eða giftingu, fósturlaga blettur merkir að barn sé á leiðinni. Þarna eru því sömu hlutir í gangi, tákn og fyrirboðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 3 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum