fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Varnarrit hundadagakonungs

Handrit með frásögnum Jörundar hundadagakonungs úr íslensku byltingunni gefin út í fyrsta skipti

Kristján Guðjónsson
Miðvikudaginn 5. apríl 2017 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Mikið hefur verið sagt um allt þetta mál en þar sem mörgum skýrslum og pappírum hefur verið haldið leyndum, og margir dálksentimetrar skrifaðir í mismunandi dagblöð sem hafa gefið ranga mynd af því sem hefur átt sér stað á Íslandi að undanförnu, mun ég nú gefa sögulega rétta lýsingu á öllu þessu og þeim hvötum sem leiddu til þess að hluteigandi aðhöfðust á þann hátt sem þeir gerðu,“ skrifar Jörgen Jörgensen, betur þekktur sem Jörundur hundadagakonungur, í upphafi frásagnar sinnar af „íslensku byltingunni“ og þeim átta vikum sem hann stjórnaði landinu sumarið 1809.

Tvö handrit á ensku með ítarlegri frásögn Jörundar af stjórnartíð hans á Íslandi hafa verið varðveitt í The British Library í London í um tvö hundruð ár en hafa nú verið gefin út í fyrsta skipti í ritstjórn Önnu Agnarsdóttur og Óðins Melsted sem einnig rita inngang og skýringar.

Jörundur var enginn kjáni

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og Óðinn Melsted doktorsnemi ritstýrðu nýútkominni bók með frásögnum Jörgens Jörgenssonar af „íslensku byltingunni“ árið 1809.
Frásagnir Jörundar koma út í fyrsta skipti Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og Óðinn Melsted doktorsnemi ritstýrðu nýútkominni bók með frásögnum Jörgens Jörgenssonar af „íslensku byltingunni“ árið 1809.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Flestir Íslendingar ættu að þekkja söguna af Jörundi. Hann var danskur ævintýramaður sem hafði frumkvæði að verslunarleiðangri enskra skipa til Íslands í upphafi nítjándu aldar. Þegar æðsti ráðamaður landsins, stiftamtmaðurinn Frederik Trampen, neitaði að leyfa Bretunum að stunda viðskipti á Íslandi vegna verslunarbanns var hann handtekinn og landið þar með stjórnlaust. Jörundur, sem hafði komið með sem túlkur, var þá fenginn til að taka við stjórn landsins. Völdunum hélt hann í átta vikur, yfir hundadaga, og lagðist í róttækar breytingar á íslenskum lögum og stjórnskipulagi. Það var svo skipstjóri bresks herskips sem kom til landsins síðar um sumarið sem batt enda á stjórnartíð hundadagakonungsins og var hann fangelsaður í kjölfarið.

„Veturinn 1809 til 1810 dvaldist Jörundur á fangaskipinu Bahama og byrjaði þá að skrifa þetta varnarrit, þar sem hann ver gjörðir sínar á Íslandi. Það höfðu reyndar aðrir skrifað varnarrit en hann var alveg miður sín hvernig fjallað hafði verið um málið og fannst ósanngjarnt að honum hafi verið varpað í fangelsi – það sést í textanum að hann var reiður. Í handritinu fer hann yfir alla atburðarásina á Íslandi og réttlætir það sem hann gerði. Þarna sést að hann var enginn kjáni og þetta sýnir í raun hvað hann hafði mikla innsýn í og yfirsýn yfir það sem hann gerði. Hann var með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað hann vildi gera hérna,“ segir Óðinn Melsted.

Jörundur hafði framsæknar hugmyndir um hvernig ísland skyldi byggt upp, hann vildi koma á þingi í anda hins forna Alþingis og skyldu íbúar landsins útnefna þingmenn, hann vildi að einungis innlendir embættismenn mættu þjóna landinu. Hann tók öll embætti og eignir af Dönum, lét afskrifa skuldir Íslendinga við dönsku kaupmennina og konung, lækkaði skatta og kornverð. Hann lofaði enn fremur að bæta heilbrigðis- og menntamál, ætlaði að koma á kviðdómi til að bæta réttarfar í landinu og gaf Íslendingum leyfi til að ferðast frjálsir um landið, en til þess hafði þurft sérstakt leyfisbréf.

Átta manna her og virki

„Jörundur hugsaði textann til birtingar og sendi á kunningja sína og vini, meðal annars Sir Joseph Banks og William Hooker sem báðir höfðu verið viðriðnir Íslandsförina. Þeir réðu honum hins vegar frá að birta þetta. Þá lét hann textann liggja í þrjú ár og fór í önnur ævintýri, slapp úr fangelsi, barðist gegn Napóleon á Spáni, lenti aftur í fangelsi og kom aftur út. Sumarið 1813 dvaldi hann svo í Suffolk á Englandi og ákvað að gera aðra tilraun til að gefa handritið út. Þá endurskoðaði hann textann og breytti honum töluvert. Í þessu seinna handriti byrjar hann að segja sjálfur frá en ákveður síðan að láta heimildirnar frekar tala sínu máli. Hann vildi sanna að þetta hafi allt saman verið rétt hjá honum,“ segir Óðinn.

„Hann skrifar til dæmis upp auglýsingarnar sem hann setti upp á Íslandi og bréfin sem hann fékk frá íslenskum embættismönnum þar sem þeir gera grein fyrir því hvort þeir muni þjóna undir hans yfirstjórn – flestir embættismenn voru til í að vera áfram í sínu embætti undir hans stjórn, þeir voru ekki svo konungshollir. Allt þetta þýðir hann yfir á ensku. Hann bætir líka við öllum reikningum frá sumrinu 1809 en það hafði verið haldin nákvæm skrá yfir allar tekjur og útgjöld úr ríkiskassanum. Þarna er gerð mjög ítarlega grein fyrir því hvernig fjárreiðum byltingarstjórnarinnar var hagað. Það er mjög athyglisvert að sjá að þetta var alls ekkert stjórnleysi, það var gerð nákvæm nóta fyrir allt. Þarna sést að það sem hann fékk í tekjur voru eignir sem hann gerði upptækar hjá dönskum kaupmönnum og það sem fór úr ríkiskassanum voru fyrst og fremst laun og eftirlaun embættismanna. Svo borgaði hann líka fyrir föt, byssur og fleira fyrir herinn sinn, átta hermenn, og síðast en ekki síst fyrir virki sem hann réðst í að byggja. Þessir reikningar eru ómetanleg heimild sem hefur aldrei birst áður með skýringum.“

Jörundur lét gera nýjan fána fyrir hina sjálfstæðu íslensku þjóð og flaggaði í þær átta vikur sem hann var við völd í landinu árið 1809.
Þrír þorskar Jörundur lét gera nýjan fána fyrir hina sjálfstæðu íslensku þjóð og flaggaði í þær átta vikur sem hann var við völd í landinu árið 1809.

Nýstárlegar hugmyndir um gullöld Íslendinga

Það má segja að Jörundur hafi hálfpartinn lent í því að vera settur yfir Ísland, en engu að síður hafði hann mjög skýrar hugmyndir um hvernig íslensku samfélagi skyldi stjórnað, og furðulega framsæknar hugmyndir fyrir sinn tíma. Var hann mikill hugsjónamaður?

„Já, það kemur mjög skýrt fram í frásögn Jörundar að hann var barn upplýsingarinnar og hafði til dæmis mjög framsæknar hugmyndir um sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Þetta er raunar ein fyrsta heimildin þar sem hugmyndir um gullöld Íslendinga og mögulega endurreisn hennar koma fram, en Fjölnismenn og fleiri áttu eftir að tala um þetta nokkrum áratugum síðar. Jörundur lýsir því að gullöld Íslendinga hafi verið þegar þeir voru sjálfstæðir á miðöldum en svo hafi allt orðið verra þegar þeir voru settir undir vald erlendra konunga. Hann vildi því endurreisa Alþingi og láta einungis íslenska embættismenn stjórna landinu. Við vitum hins vegar ekki hvernig þetta hefði endað ef hann hefði ekki verið tekinn frá völdum. Það er náttúrlega óljóst hvað var mikið á bak við þessi fögru fyrirheit.“

Virðist hann hafa stefnt á að halda völdum til frambúðar?

„Eftir svona sex vikur leit eiginlega út fyrir að byltingarstjórn Jörundar væri komin til að vera. Hann var búinn að byggja sér upp ákveðið stjórnkerfi en samkvæmt auglýsingum sem hann birti vildi hann þó færa völdin til Íslendinga. Á meðan það væri að gerast var hann hins vegar með alræðisvöld. Þetta breyttist svo á örfáum dögum þegar enskt herskip kom og skipstjórinn ákvað að taka völdin af honum. Það er alltaf erfitt að segja hvað hefði getað gerst, en það er ljóst að þetta hefði aldrei getað haldist lengi – einhvern tímann hefðu dönsk og ensk stjórnvöld frétt af ástandinu og brugðist við. En það hefði verið mjög athyglisvert ef engin skip hefðu komið fyrr en næsta vor. Það er nefnilega mjög ólíklegt að Íslendingar hefðu gert einhverja uppreisn, þeir voru skíthræddir og þorðu ekki að gera neitt.“

Skömmuðust sín fyrir Jörund

Heldur þú að þessar framsæknu hugmyndir sem Jörundur kynnti, um frelsi og lýðræði, hafi haft einhver áhrif inn í íslenskan hugmyndaheim?

„Nei, menn tóku þetta ekkert sérstaklega alvarlega. Íslendingar voru eiginlega miður sín og skömmuðust sín hálfpartinn fyrir þetta atvik. Það er furðulegt hvað þessi bylting árið 1809 skipti litlu máli í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þetta er frekar skrýtið því Ísland var jú sjálfstætt ríki í tvo mánuði en þetta virðist ekki hafa skipt neinu máli. Það var ekki mikið talað um Jörund í nokkra áratugi eftir þetta, það er ekki fyrr en seinna, undir lok 19. aldarinnar, sem menn fara að skrifa um hann leikrit og bækur.“

Undanfarið hefur verið mikill áhugi á Jörundi. Það hafa komið út vinsælar bækur um hann, til dæmis ævisaga eftir Söruh Blakewell og auðvitað skáldsagan Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2015 En hvernig er að heyra söguna frá Jörundi sjálfum, hvernig penni er hundadagakonungurinn?

„Mjög skemmtilegur! Hann er kannski ekki besti rithöfundurinn ef við hugsum að frásögnin eigi að hafa skýran rauðan þráð, hann tekur nokkra útúrdúra. Hann skrifar hins vegar lýtalausa ensku og er með alveg ótrúlegan orðaforða. Þetta sýnir bara hvað hann var í raun greindur, vel að sér í sögu og gat vel rökstutt það sem hann hafði gert. Þarna eru líka margar skemmtilegar klausur, til dæmis þegar hann kvartar yfir því hversu ömurlega er komið fram við hann. Textinn er mjög læsilegur og auðvelt að skilja hann. Handritið sjálft er líka mjög fallegt,“ segir Óðinn og bendir á að Jörundur hafi haldið áfram að skrifa um hin miklu ævintýr sín víða um heim en þær bækur hafi fæstar verið gefnar út.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann

United sagt hafa snarlækkað verðmiðann
Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM

Veðbankar hliðhollir Íslendingum fyrir kvöldið – Þetta segja þeir nú um sigurlíkur Strákanna okkar á HM
Eyjan
Fyrir 3 klukkutímum

Wolt í samstarf við Domino´s

Wolt í samstarf við Domino´s
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra

Fast skotið á Eyjólf ráðherra: Þetta sagði hann 9. október – Síðan varð hann ráðherra
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“

De Bruyne tjáir sig – „Skrifa ekki undir tíu ára samning“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram

Búseti kærir borgina: Bygg­ing­ar­leyfi gefið út löngu áður en sérupp­drætt­ir voru lagðir fram
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu
Pressan
Fyrir 7 klukkutímum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum