„Það er náttúrlega áhugavert í sjálfu sér að skáldsaga sem skrifuð var til að mæta fordómum og brenglaðri sýn, meðal annars, skuli síðan verða uppspretta fordóma, en þannig er nú stundum gangurinn í viðtöku skáldverka.“
Þetta segir Kristján B. Jónasson rithöfundur, bókmenntafræðingur og bókaútgefandi til margra ára vegna fréttar um Klepp í Fréttablaðinu í dag. Kristján tjáir sig á Facebook. Í Fréttablaðinu er rætt við Möndu Jónsdóttur deildarstjóra á sérhæfðri endurhæfingargeðdeild. Segir hún að hugrenningatengsl almennings við Klepp séu of neikvæð og mikilvægt að skipta um nafn þar sem sjúklingar upplifi Klepp sem endastöð. Hin neikvæðu hugrenningatengsl eru að mati Möndu mikið til Englum alheimsins að kenna, frægri bók eftir Einar Má Guðmundsson. Bókin sem er skáldsaga segir frá Páli sem þjáist af geðklofa og gerist sagan á árunum 1950 til 1980. Byggði Einar skáldsöguna nokkuð á bróður sínum sem glímdi við geðklofa. Bókin naut mikilla vinsælda og fékk frábæra dóma. Hún var ekki tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna en varð hlutskörpust þegar Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs var úthlutað árið 1995. Í umsögn dómnefndar sagði:
„Heiminum og siðmenningunni er lýst af ljóðrænni geggjun í gegnum huga hins geðsjúka. Kímnin magnar alvöruna. Kaldhæðnin klæðst búningi einfeldninnar. Skáldsagan veitir innsýn í þann raunveruleika sem við erum vön að kalla eðlilegan.“
Friðrik Þór Friðriksson leikstýrði kvikmynd byggðri á bókinni og hlaut Ingvar Sigurðsson Evrópsku kvikmyndaverðlaunin fyrir besta leik í aðalhlutverki. Í kjölfarið skapaðist nokkur umræða um geðsjúkdóma. Hefur bókin einnig verið á lista í nánast öllum skólum yfir valbækur fyrir nemendur á framhaldsskólastigi en hana hefur einnig verið að finna í grunnskólum. Manda hrósar bókinni í samtali við Fréttablaðið en segir að hún geri starf hennar erfiðara og ekki hægt að skilja það öðruvísi en svo að bókin ali á fordómum í garð Klepps og vistmanna þar og vill að nafninu verði breytt.
„Bókin er kennd öllum grunnskólabörnum og býr til neikvæð hugrenningatengsl þar sem allir fremja sjálfsmorð. Ég er mjög hrifin af bókinni en hún er dragbítur á mitt starf […] Við myndum aldrei kenna skáldsögu um eldgamlar sykursýkislækningar þar sem allir missa útlimi vitandi að fjölmargir nemendur myndu fá sykursýki seinna á ævinni.“
Jón Yngvi Jóhannsson bókmenntafræðingur tekur þátt í umræðunum á Facebook-vegg Kristjáns og telur einkennilegt að kenna skólakerfinu um.
„Í fyrsta lagi lesa ekki öll börn Engla alheimsins, ekkert bókmenntaverk er skyldulesning í öllum skólum landsins. Í öðru lagi má benda á að þótt sagan sé lesin víða í skólum þá hafa tugþúsundir lesið bókina á eigin spýtur, séð kvikmyndina og leikgerðina.“
Kristján B. Jónasson segir um málflutning Möndu, að gefa í skyn að upphaf vandans, skáldsagan Englar alheimsins í þessu tilfelli sem sé ekki fræðirit sé hreinlega kjánalegt og sýni vanskilning á eðli lista.
„Viðtal Fréttablaðsins í dag við Möndu Jónsdóttur um hættuna sem börnum stafar af lestri Engla alheimsins vekur æði margar spurningar. Hvað með Pilt og stúlku? Halda börnin ekki að enn séu ær hafðar á kvíum og koma út í lífið full af ranghugmyndum? Hvað með Grettis sögu? Halda börnin ekki að sakamenn séu réttdræpir þar sem til þeirra næst? Má yfirleitt lesa bókmenntir í skólum?“