Þátttaka í The Voice getur breytt lífi keppenda
Í Sjónvarpi Símans er The Voice (ameríska útgáfan) í fullum gangi og fullkomnar helgarnar. Þjálfarar eru nú með fullskipað lið áhugaverðra söngvara sem margir hverjir eygja möguleika á nýju og betra lífi. Þarna eru söngvarar sem hafa áhugaverða sögu að segja. Þar á meðal er hin unga Enid sem vegna húðsjúkdóms varð snemma fyrir aðkasti og missti allt sjálfstraust. Hún hefur góða rödd og ákvað að láta reyna á hæfileika sína í The Voice og vakti athygli þjálfara. Einn þjálfaranna, Alicia Keys, sagði við Enid að kominn væri tími til að senda fingurinn þeim sem hefðu sagt henni að hún væri ekki frábær. Slík orð frá heimsfrægri söngkonu eru sannarlega gott veganesti fyrir unga konu sem þjáðst hefur af vanmáttarkennd en býr þó yfir ótvíræðum hæfileikum.
Átján ára blökkumaður, RJ, er annar keppandi sem átt hefur erfiða daga, en lögregla skaut bróður hans til bana fyrir átta árum. RJ söng lag Justin Bieber, Purpose. Hann segist vilja helga líf sitt tónlist, ekki síst vegna þess að einmitt það vildi bróðir hans að hann gerði.
Bandaríska útgáfan af The Voice er margverðlaunuð. Það kemur ekki á óvart. Þetta er raunveruleikaþáttur þar sem mannleg hlýja er í fyrirrúmi. Það sér maður ekki oft í raunveruleikaþáttum. Sömu helgi og Sjónvarp Símans sýndi The Voice sýndi sjónvarpsstöðin raunveruleikaþáttinn The Bachelorette, sem er einhver skringilegasti raunveruleikaþáttur sem fyrirfinnst. Þarna var hópur af ungum karlmönnum að eltast við unga konu sem velur úr hópnum þá sem henni líst best á en sendir aðra heim. Þeir sem fá að vera áfram fella tár af gleði en hinir burtreknu eru fullir af biturð og láta eins og þeir muni aldrei jafna sig eftir höfnun fyrir framan sjónvarpsvélar. Þetta er algjörlega óekta þáttur þar sem yfirborðslegt fólk emjar og vælir um löngun sína til að finna hina einu sönnu ást. Vegir ástarinnar eru vissulega órannsakanlegir en afskaplega finnst manni nú ólíklegt að sönn ást finnist fyrir framan sjónvarpsmyndavélar í jafn tilgerðarlegum þætti og þessum.