fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025

Leyndardómar Rauðu seríunnar

Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir hefur gefið út Rauðu seríuna í meira en 30 ár – Ástir, örlög og „fallegt klám“

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 10. mars 2017 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það finnst varla sá sumarbústaður á Íslandi þar sem ekki má finna nokkrar bækur úr Rauðu seríunni, út úr lesnar kiljur í sterkum litum og með dramatískum uppsettum kápumyndum af kúrekum og fögrum fljóðum, og titlum á borð við Leikur ástarinnar, Tilboð Luke eða Leyndarmál hennar.

Þessar þýddu ástar- og örlagasögur hafa stytt ófáum Íslendingum stundir í þá rúmlega þrjá áratugi sem bækurnar hafa komið út hjá Ásútgáfunni. Stofnandinn og drifkrafturinn á bak við útgáfuna er ævintýrakonan og ástarsagnadrottningin Rósa Vestfjörð Guðmundsdóttir.

Blaðamaður DV heimsótti Rósu á skrifstofu þessarar afkastamiklu bókaútgáfu í einbýlishúsi í Grafarvogi og spjallaði um ástarsögur, fordóma og örlög Rauðu seríunnar.

Það hafði enginn trú á þessu

Það var árið 1985 sem Rósa byrjaði að gefa út ástarsögur í vasakiljum en þá höfðu hún og æskuástin hennar og eiginmaður Kári Þórðarson rekið prentsmiðjuna Ásprent á Akureyri um nokkurt skeið. „Það var svolítil kreppa á þessum tíma og okkur vantaði meiri vinnu. Þá kviknaði hugmyndin,“ rifjar Rósa upp brosandi og lýsir því hvernig hún lét prenta bækurnar líkt og dagblöð.

Rósa segir frá því að hún hafi alltaf verið mikill lestrarhestur og hafi raunar alist upp á bókasafni, enda hafi það verið staðsett á æskuheimili hennar á Skógarströnd á Snæfellsnesi. Snemma hafi hún kynnst ástarsögum frá bresku bókaútgáfunni Mills & Boon, fyrsta útgefanda ástarsagna í vasaútgáfu í heiminum, og þetta voru bækurnar sem hún vildi gefa út á íslensku.

„Kári sagði mér bara að gleyma þessu. Hann hefur alltaf verið sá skynsami,“ segir Rósa og hlær. „Það sögðu allir að ég væri rugluð. Það hafði enginn trú á þessu. En ég er náttúrlega voðalega þrjósk, og ef fólk segir nógu oft við mann að eitthvað muni ekki ganga, þá lætur maður það ganga,“ segir Rósa.

„En maður verður líka að hafa trú á því. Og ég var viss um að það væri alltaf hægt að selja ástarsögur. Við viljum að lífið sé gott, við viljum að það sé gleði í lífinu. Flest viljum við giftast og helst eignast börn. Gagnkynhneigðir, hommar eða lesbíur, það skiptir ekki máli. Þetta er sama tilfinningin – meira að segja í dýrunum. Lífið snýst um að maka sig og eiga afkvæmi.“

Ég er náttúrlega voðalega þrjósk, og ef fólk segir nógu oft við mann að eitthvað muni ekki ganga, þá lætur maður það ganga.

Spegilmynd ástarinnar var fyrsta bókin sem kom út í Rauðu seríunni árið 1985.
Fyrstu bækurnar Spegilmynd ástarinnar var fyrsta bókin sem kom út í Rauðu seríunni árið 1985.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Örlagarík fyllerísferð

Sagan af því hvernig Rósa náði samningi við bandaríska útgefandann Harlequin Enterprises um útgáfu á bókum frá Mills & Boon á íslensku reynist vera nokkuð æsileg. Hún ferðaðist á bókamessuna í Frankfurt og fékk þann aðila sem hafði haft umboð fyrir bækurnar á Íslandi til að koma með og hafa milligöngu við samningsgerðina.

„En þá vissi ég hins vegar ekki að hann væri þurr alki. Hann datt svona hressilega í það á leiðinni út – og ég var nánast mállaus enda kunni ég litla sem enga ensku, bara með gagnfræðaskólapróf,“ útskýrir Rósa.
Eftir rútuferð frá Lúxemborg til Frankfurt var farangurinn týndur, samferðamaðurinn ofurölvi og Rósa vissi ekkert hvar hótelið var eða hvernig kaupin gerðust á eyrinni. En allt fór það þó betur en á horfðist.

„Eftir fyrsta daginn ákvað ég að fara án karlsins á messuna og reyna að fá samningana beint – og það tókst. Þau frá Harlequin hlógu reyndar bara að mér. Þeim fannst þetta svo ruglað að láta sér detta í hug að halda að þetta gengi á Íslandi, þar sem var engin brautarstöð. „Hvar ætlar þú að selja bækurnar? Þú mátt alveg reyna!“ sögðu þau,“ rifjar Rósa upp.

„En svona eru örlögin. Ef karlinn hefði ekki verið svona fullur hefði hann haft milligöngu um samningana og kannski fengið 20 prósent af sölunni í öll þessi ár – þá væri ég löngu farin á hausinn“ segir hún og hlær.
Fyrsta bókin í Rauðu seríunni, Spegilmynd ástarinnar eftir Anne Mather, kom út árið 1985. Þrátt fyrir nokkuð þras um hvort orðið „sería“ gæti talið íslenskt segir hún viðtökur lesenda hafa verið gríðarlega góðar alveg frá upphafi.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Nýtir hverja lausa stund

Nú fær Rósa sendar um 60 bækur frá Harlequin í hverjum mánuði. Hún velur að meðaltali fimmtán sögur sem henni líst vel á og les þær. Úr þeim velur hún svo nokkrar sem hún vill gefa út og sendir á þýðendur. Hún segir það vissulega vera mikla vinnu að lesa svo margar bækur í hverjum mánuði en það komist upp í vana: „Maður er alltaf með bók með sér og nýtir hverja lausa stund. Þannig leiðist manni heldur aldrei. Ef ég fer eitthvert með karlinum og hann er að kjafta, þá er ég bara að lesa – í staðinn fyrir að vera sífellt að öskra á hann: „Ertu ekki að koma!?““ leikur Rósa og hlær.

Hún flokkar bækurnar eftir efnistökum, safnar sögum úr sama sagnaheiminum og gefur út eina á eftir annarri svo dyggir lesendur geti fylgst með örlögum persónanna án þess að þurfa að bíða of lengi. Bækurnar koma út í sex flokkum sem Rósa bjó til sjálf og velur sögur í. Hver flokkur hefur sinn stíl og einkenni.
Í upphafi gaf hún aðeins út „Ástarsögur“, en fljótlega bættust við „Ást og afbrot“ og síðar „Örlagasögur“ og „Sjúkrahússögur“. Einnig gefur hún út sögur í ódýrara tímaritabroti og kallast þær „Ást og óvissa“ og „Ást og undirferli“.

Allt í allt koma því út sex nýjar sögur á mánuði og hver þeirra er prentuð í 1.800 eintökum, auk þess sem þær eru seldar sem rafbækur og nokkrar sem hljóðbækur á netinu. Rafbækurnar sem komu fyrst út árið 2010 eru orðnar 508 talsins og hljóðbækurnar á þriðja tug.

„Það var umtalsvert meiri sala hér áður fyrr en ég hef samt alltaf haldið haus. Það eru 400 til 500 áskrifendur, en mesta salan er í Bónuspökkunum. Það var sérstaklega mikið „hitt“ þegar við byrjuðum að selja ódýra pakka með öllum sögunum. Ég og maðurinn minn dreifum sjálf í verslanir. Það eru þrír dagar sem við keyrum mikið,“ segir Rósa og hlær.

Í hverjum mánuði fer Rósa í gegnum fjölda bóka frá bandarísku útgáfunni Harlequin og finnur bestu sögurnar til að gefa út á íslensku.
Les að meðaltali fimmtán bækur á mánuði Í hverjum mánuði fer Rósa í gegnum fjölda bóka frá bandarísku útgáfunni Harlequin og finnur bestu sögurnar til að gefa út á íslensku.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Karlarnir laumast í spennubækurnar

Rósa segir flesta lesendur bókanna vera konur en hún segist þó vita til þess að karlmenn kíki líka í bækurnar í sumarfríum og þá sérstaklega þær sem innihalda spennu og hasar.

„Það eru í raun bara tveir flokkanna með „soft“ ástarsögum. Hinar eru meira „hardcore“ bækur. Í svarta blaðinu er til dæmis mikið um leynilöggur, dráp, eiturlyfjavandamál og svo framvegis. Karlarnir laumast í þessar sögur. Framan á eru menn með byssur og blaðið er svart, þannig að það höfðar meira til þeirra. Karlarnir kaupa líka frekar rafbækur því það getur enginn séð hvað þeir eru að lesa í iPadinum.“

Hún segir það annars vera fólk úr öllum stigum samfélagsins sem sæki í bækurnar. „Menntun virðist ekki skipta máli, það er engin tenging. Þeir sem eru meira menntaðir og í hærri stöðum eru oft þreyttir þegar þeir koma heim og vilja hvíla heilann. Það er nefnilega gott að lesa þetta fyrir svefninn þá þá sofnar þú í friði. Ég átti til dæmis í samtali við lækni sem sagði þetta bara vera eins og svefnpillu. Þú einbeitir þér að lestrinum og gleymir öllum vandamálum þínum á meðan.“

En nú er mikið talað um minnkandi lestur í samtímanum. Er að eiga sér stað einhver endurnýjun í lesendahópnum?

„Já, en það er miklu minna en áður. Ég veit samt til þess að sumir unglingar byrja að lesa bækurnar hjá mömmu sinni eða í sumarbústaðnum hjá ömmu. Unga fólkið byrjar svo oft aftur að lesa um þrítugt. Þá er komið meira stress og þá koma konurnar inn aftur. Þá eru þær kannski komnar með börn og vilja fá þessa gleði. En karlarnir kíkja í sumarfríinu.“

Þú segir að alls konar fólk lesi sögurnar en hvernig hafa viðbrögðin verið í bókmenntaheiminum?
„Það hafa alltaf verið fordómar. Þetta þykja ekki bókmenntir. En ég spyr þá hvað eru bókmenntir? Þetta er bara snobb!“

Hefur þú þá aldrei fengið neinar jákvæðar athugasemdir frá frammáfólki úr bókmenntaheiminum?

„Nei, nei, nei. Aldrei fengið neitt jákvætt. Þetta þykir ekki merkilegt, er ekki hluti af elítunni. Svo er ég ekkert góður gemsi í augum forlaganna – þeim finnst þetta of ódýrt. Það væri auðvitað betra að hafa þetta dýrara. En við viljum hafa bækurnar nógu ódýrar svo allir hafi efni á að kaupa þær, og þær þurfa að vera nógu litlar til að það fari ekki mikið fyrir þeim. Það sé hægt að setja þær í veski eða vasann.“

Fallegt klám

En ef við snúum okkur að sögunum sjálfum. Hvað gerir góða ástarsögu?

„Í fyrsta lagi þarf að vera efni í henni. Á blaðsíðu 15 þarf að vera komin spenna. Það er rómantíkin sem við stílum inn á, en oft er við einhver vandamál að etja. Sagan þarf líka að ganga upp. Fólk á að ná saman í lokin. Allar mínar bækur enda vel. Maður er ekki skilinn eftir í uppnámi – ekki þannig að maður viti ekki hver endirinn er. Við erum að lesa til að öðlast gleði, en ekki til að fá ný vandamál. Þetta er það sem við viljum í lífinu og bækurnar eiga ekki að vera neitt öðruvísi að þessu leyti. Við viljum hitta maka sem hentar okkur vel, viljum búa til hreiður og eiga börn, ef við getum, eða kannski fósturbörn. Og svo viljum við að börnunum okkar gangi vel. Þetta eru bara frumhvatir.“

Hafa sögurnar breyst mikið í gegnum tíðina?

„Já. Nútíminn kemur oft við sögu, til dæmis þegar flóðin voru í New Orleans, stríðið í Sýrlandi. En kúrekabúgarðarnir í Bandaríkjunum eru samt alltaf alveg lygilega vinsælir. Þessi litlu þorp í Bandaríkjunum eru náttúrlega svolítið gamaldags, en það er svo gott að gera sögur um þetta, búgarðastríðin og „sherriffinn“ í smáþorpinu. Ég þarf eiginlega að komast þangað, í þessi þorp og skoða þau til að vita hvað ég er að tala um.“

En kynjahlutverkin, eru þau ekki voðalega stöðluð?
„Sögurnar byggja á sterkum karakterum. Þarna eru konur löggunni og hernum. En karlarnir eru samt engir aular. Það er ekki verið að niðurlægja neinn. Ef þetta væri ekki svona myndu konur ekki vilja lesa þetta. Þetta eru samt ekkert endilega neinir sakleysingjar, það eru vondir og góðar karlar. En það er líka allur gangur á þessu, þetta geta þess vegna verið hommar, sem eru að ættleiða barn og svo framvegis.“

En svo er það kynlífið, það er náttúrlega mikilvægur hluti af ástinni, hvernig er tekist á við það í Rauðu seríunni?
„Það er mikið kynlíf í sögunum, en þetta er fallegt kynlíf. Kynlíf er fallegt. Það er bara hluti af lífinu og tilverunni og þannig viljum við hafa það. En þetta er ekkert drullukynlíf.“

Sem sagt ekkert klám?
„Bara fallegt klám,“ segir Rósa og hlær.

En hvað með framhaldið, þú verður sjötug síðar á árinu. Muntu halda lengi áfram að gefa út Rauðu seríuna?

„Þegar maður er kominn yfir sjötugt þá verður þetta eflaust of mikil vinna – þetta er 110 prósent vinna. Þannig að ég þarf að skoða þetta. Ef einhver vill kaupa þetta þá mun ég skoða hvort ég geti hjálpað með það í nokkur ár. En það er að minnsta kosti skemmtilegt að vita til þess að þegar ég verð dauð þá verða bækurnar ennþá í fullu gildi.“

Kynlíf er fallegt. Það er bara hluti af lífinu og tilverunni og þannig viljum við hafa það.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu

Búinn að framlengja og fer ekki annað á árinu
Pressan
Fyrir 3 klukkutímum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum

Vilja gera fíkniefnapróf á tónleikagestum
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Segist vera sammála forsetanum sem baunaði á fjölmiðla: ,,Þeir þurfa líka að láta í sér heyra“

Segist vera sammála forsetanum sem baunaði á fjölmiðla: ,,Þeir þurfa líka að láta í sér heyra“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“

Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands mótmæla Coda Terminal – „Allt of mörgum spurningum er ósvarað“
Eyjan
Fyrir 14 klukkutímum

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu

Jón stefnir ekki á formannsframboð – Ósáttur við Þórdísi Kolbrúnu og sakar hana um vanvirðingu
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Lykilmaður Arsenal í kapphlaupi við tímann

Lykilmaður Arsenal í kapphlaupi við tímann
EyjanFastir pennar
Fyrir 16 klukkutímum

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!

Svarthöfði skrifar: Leitið ekki langt yfir skammt, Moggamenn!
433Sport
Fyrir 16 klukkutímum

Ísland hefur leik í Portúgal á morgun

Ísland hefur leik í Portúgal á morgun