Matreiðsluþættir bregðast nær aldrei, nema þegar einungis eru eldaðir grænmetisréttir. Þá er fremur auðvelt að missa áhugann. Ég ætla ekki að lasta grænmeti en það verður að viðurkennast að eitt og sér er það afar óspennandi. Það virkar ekki fullkomlega nema það sé í samfloti með kjöti eða fiski.
Top Chef sem Skjár Símans sýnir er afbragðs þáttur þar sem keppt er í eldamennsku og í hverjum þætti eru þeir sem síst stóðu sig sendir heim. Ég horfði um daginn og þá féllu tveir keppendur úr keppni. Báðir brugðust afar illa við og tuðuðu um að þeir ættu þetta ekki skilið því þeir væru svo miklu betri en aðrir keppendur. Það er góð regla að fara aldrei í fýlu fyrir framan sjónvarpsmyndavélar. Fólk sem er mjög yfirlýsingaglatt um eigið ágæti er líka fremur þreytandi. Yfirlæti þeirra keppenda sem þarna féllu úr keppni var þeim ekki til sóma en var hins vegar prýðis sjónvarpsefni.
Endalaust má dást að góðum kokkum og enginn kemst áfram í keppni eins og þessari nema vera það. Alltaf er gaman að sjá lotningarsvipinn á keppendum þegar þeir hitta heimsfrægan kokk sem metur síðan frammistöðu þeirra. Þessir atvinnukokkar vita allt og hafa óhemju næmar bragðtaugar og einkar glöggt auga fyrir framsetningu. Þeir hrifsa ekki til sín matinn og skófla upp í sig heldur bera sig að af fullkominni fágun. Það er eins og þeir hafi aldrei matast annars staðar en í konungshöllum.
Margir kunna að elda góðan mat en það eru ekki allir jafn hæfileikaríkir þegar kemur að útliti og framsetningu. Þeir sem segja að útlit skipti ekki máli varðandi mat eru á algjörum villigötum. Þegar maður horfir á Top Chef hefur maður ekki hugmynd um hvernig maturinn bragðast, ímyndar sér það bara. Maður sér hins vegar hvernig hann lítur út og þar eru iðulega mikil flottheit á ferð. Þá gerir maður sér glögga grein fyrir hæfileikaleysi sínu.