Aðsóknarmestu myndirnar í Bandaríkjunum
Logan, tíunda myndin í X-men-seríunni, kom, sá og sigraði í bandarískum kvikmyndahúsum um helgina. Myndin halaði inn rúmar 85 milljónir Bandaríkjadala um frumsýningarhelgina og var sú langvinsælasta í kvikmyndahúsum Norður-Ameríku.
Logan hefur fengið lofsamlega dóma og er til að mynda með einkunnina 8,7 á kvikmyndavefnum IMDb.com. Hugh Jackman fer með aðalhlutverkið en myndinni er leikstýrt af James Mangold sem leikstýrði The Wolverine árið 2013.
Í öðru sæti yfir aðsóknarmestu myndirnar í kvikmyndahúsum vestanhafs var myndin Get Out sem er einhvers konar kokteill af gamni, spennu og hryllingi. Myndin halaði inn rúmar 26 milljónir dala. Í þriðja sæti var svo myndin The Shack með Sam Worthington og Octaviu Spencer í aðalhlutverkum.
Þar á eftir komu The Lego Batman Movie, Before I Fall, John Wick: Chapter Two og Hidden Figures.