Enn er ástæða til að minnast á þættina Horfin sem RÚV sýnir á þriðjudagskvöldum. Það er ekki oft sem maður situr lamaður eftir sjónvarpsáhorf, en það gerðist eftir sýningu fimmta þáttar. Lokin voru svo óvænt og hrottafengin að ég sat grafkyrr í sófanum í allnokkurn tíma. Ég þurfti að jafna mig. Ekki ætla ég að upplýsa nákvæmlega hvað gerðist, fyrir utan það að þegar litla stúlkan sýndi lögreglumanninum teikningu og sagði: „Þetta er ég og mamma í kjallaranum“ þá tók maður andköf. Eftirleikurinn var svo þannig að erfitt var að horfa. Áður en ég lagðist til svefn óttaðist ég að fá martröð, en blessunarlega gerðist það ekki.
Þessi þáttaröð er númer tvö. Fyrsta þáttaröðin var frábær, en þar var sögð saga af hvarfi ungs drengs og leit foreldranna að honum. Eftir lokaþáttinn í þeirri seríu var maður algjörlega miður sín, svo átakanleg var atburðarásin. Ekki hvarflaði að mér að ætla sem svo að önnur þáttaröðin yrði jafngóð og sú fyrsta. En eftir þennan fimmta þátt er ég samt komin á þá skoðun að svo sé.
Enginn ætti að missa af Horfin. En um leið er rétt að gera sér grein fyrir því að maður kemst í nokkurt uppnám við áhorfið. Þarna er fjallað um mannlega harmleiki og manni getur ekki staðið á sama.