Matt Dillon leikur „virkilega vel gefinn“ fjöldamorðingja í House That Jack Built
Hinn umdeildi danski kvikmyndaleikstjóri Lars von Trier vinnur nú að nýrri mynd The House That Jack Built sem fjallar um 12 ár í lífi og þróun „virkilega vel gefins“ fjöldamorðingja. Matt Dillon mun leika aðalhlutverkið, en auk hans munu Riley Keough og Sofie Grabol leika í myndinni.
Breska dagblaðið The Guardian hefur eftir von Trier að þróunin í heiminum í dag sanni grunnkenningu myndarinnar: „The House That Jack Built fagnar þeirri hugmynd að lífið sé vont og sálarlaust, en þetta hefur því miður verið sýnt fram á að undanförnu með uppgangi Homo trumpus – rottukonungsins.“
Tökur á myndinni hefjast í mars og fara fram í Danmörku og Svíþjóð. Stefnt er á að hún verði frumsýnd á næsta ári.