RÚV sýndi síðastliðið miðvikudagskvöld áhugaverða heimildamynd um valdakonur í Hollywood. Fjallað var um áhrifakonur i kvikmyndaheiminum og sérstaklega beint sjónum að árum þöglu myndanna. Gömlu myndskeiðin voru það langskemmtilegasta í þessari mynd, það er svo afar heillandi að hverfa aftur til liðins tíma. Ekki var mikið um viðtöl við gömlu kvenkempurnar í kvikmyndaiðnaðinum en þó var sýnt stutt viðtal við Margaret Booth, sem var frægur klippari í Hollywood. Persónuleikinn skein af henni og maður hefði viljað sjá miklu meira en sýnt var. Stórstjörnunni og valdakonunni Mary Pickford brá fyrir í mörgum myndskeiðum og sömuleiðis Lillian Gish.
Sumar fullyrðingar í myndinni standast ekki alveg, eins og þegar sagt var að nú vissu fáir að Mae West hefði verið handritshöfundur. Allir sem hafa sökkt sér ofan í gullaldarár Hollywood vita þetta og kunna fleygar setningar eftir hana. Kvartað var undan því að allir þekktu Chaplin en enginn þekkti lengur gamanleikkonuna og leikstjórann Mabel Normand. Þetta var óheppileg samlíking. Chaplin er einn af höfuðsnillingum kvikmyndasögunnar, Mabel Normand, jafn ágæt og hún var, var það ekki. Skiljanlega vildu aðstandendur þessarar heimildamyndar gera sem mest úr konunum sem þar var fjallað um, en sannleikurinn er sá að það er afar erfitt að bera einhvern saman við Chaplin. Hann var einstakur.
Hvernig væri nú að RÚV tæki sig til og sýndi eitthvað af gömlum þöglum myndum úr smiðju Hollywood. En kannski erum við of fá sem hefðum áhuga á að horfa. Nútíminn er svo lítið fyrir gamla klassík.