Split var vinsælasta myndin í kvikmyndahúsum Bandaríkjanna um helgina
Nýjasta kvikmynd M. Night Shyamalan, sem er einna best þekktur fyrir myndina The Sixth Sense, fór beint á toppinn í kvikmyndahúsum vestanhafs um helgina.
Myndin, sem heitir Split, halaði inn 40,2 milljónir Bandaríkjadala. Það að mynd eftir M. Night Shyamalan fari beint á toppinn í Bandaríkjunum þykir sæta nokkrum tíðindum enda hafa myndir eftir þennan 46 ára leikstjóra ekki beint slegið í gegn á undanförnum árum.
Split þykir þó einkar vel heppnaður spennutryllir sem fallið hefur vel í kramið hjá gagnrýnendum. Kostnaður við myndina er talinn hafa numið um 10 milljónum dala og því varð hagnaður af myndinni strax eftir fyrstu sýningarhelgina.
Í öðru sæti yfir aðsóknarmestu myndir helgarinnar var myndin xXx: The Return of Xander Cage. Myndin, sem skartar Vin Diesel, í aðalhlutverki halaði inn 20 milljónir dala.