Enn er of snemmt að kveða upp dóm yfir Föngum sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöldum. Einungis hefur verið sýndur einn þáttur af sex þannig að svo að segja allt er eftir. Þó er ljóst að þættirnir bjóða góðum leikkonum tækifæri til að skína á skjánum og ekki er við öðru að búast en að það muni þær einmitt gera.
Í fyrsta þætti sáum við Lindu komna í kvennafangelsi eftir að hafa ráðist á föður sinn og misþyrmt honum grimmilega. Hún virtist ekki gera sér fyllilega grein fyrir stöðu sinni innan fangelsismúranna og krafðist þess að fá Chanel-snyrtivörur sínar til að geta verið upp á sitt besta í nýrri vistarveru. Linda er kona sem leggur mikið upp úr útlitinu. Húmor laumaði sér inn í þáttinn einstaka sinnum, eins og í atriðinu með snyrtivörurnar, og vonandi verður þannig áfram. Við viljum ekki eintóman drunga.
Fyrsti þáttur fór heldur hægt af stað og segja má að hann hafi verið kynning á helstu persónum, en þar kynntumst við Lindu, fjölskyldu hennar, samföngum og fangelsisvörðum. Það er ansi langt síðan maður hefur séð þáttaröð þar sem konur eru jafn áberandi og þarna. Samspilið milli leikkvennanna var mjög gott og þeim tókst að skapa áhugaverðar persónur sem við fáum að fylgjast með á næstu vikum.
Ég bíð spennt eftir næsta sunnudagskvöldi og veit að það á við um fjölmarga aðra.