Hrönn Marinósdóttir er stjórnandi RIFF – Hin alþjóðlega kvikmyndahátíð vekur athygli erlendra kvikmyndagerðarmanna
RIFF, Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík, hefst fimmtudaginn 29. september og stendur til 9. október. Í ár er yfirskrift hátíðarinnar Hvers konar friður? Hrönn Marinósdóttir er stjórnandi hátíðarinnar.
„Kvikmyndin er sterkur miðill og við, sem stöndum að hátíðinni, trúum því að bíó geti breytt heiminum til hins betra. Okkur finnst mikilvægt að hátíð eins og RIFF tali við samfélagið og fjalli um hluti sem skipta máli. Þess vegna ákváðum við að hafa frið sem þema,“ segir Hrönn. „Þetta er afar breitt svið og við sýnum alls konar myndir sem fjalla um ýmiss konar hluti en tengjast á einn eða annan hátt friði. Sem dæmi ná nefna að við sýnum myndir sem fjalla um flóttamannavandann, myndir sem fjalla um innri frið og leit mannsins að innri friði.“
Meirihluti þeirra mynda sem sýndar eru á hátíðinni tengist þó ekki þessu þema, en myndunum á hátíðinni er skipt í nokkra flokka. „Vitranir er sá flokkur sem ég er stoltust af,“ segir Hrönn. „Hann er tileinkaður nýjum leikstjórum sem eru að gera sína fyrstu eða aðra mynd í fullri lengd. Oft er um að ræða leikstjóra sem hafa verið lengi í bransanum, eru búnir að gera stuttmyndir og heimildamyndir, en eru nú að feta sig áfram í gerð mynda í fullri lengd. Þessar myndir keppa um Gyllta lundann. Þetta eru einstaklega góðar myndir, ögrandi, framsæknar og sérstakar. Sem dæmi um góðar myndir í flokknum nefni ég Hættu að glápa á diskinn minn, frábæra mynd frá Króatíu, og svo ekki síðri Wúlu frá Senegal og Risann frá Svíþjóð.
Fyrir opnu hafi er hefðbundnari flokkur. Þar er sýndur rjóminn af þeim myndum sem hafa gengið vel á kvikmyndahátíðum undanfarna mánuði. Þar má sem dæmi nefna Kommúnuna eftir Thomas Vinterberg, sem fékk Silfurbjörninn í Berlín, og Fress, sem fékk Teddy-verðlaunin í Berlín núna síðast sem eru verðlaun tileinkuð málefnum samkynhneigðra.“
Næsta laugardag hefst í Norræna húsinu viðamikil barnadagskrá þar sem áherslan er á myndir fyrir börn og unglinga á öllum skólastigum. Yfir 1.000 börn munu koma á sérstakar skólasýningar RIFF en næstu helgi verður börnum boðið að koma með foreldrum sínum.
„Við erum með tvo stóra heimildamyndaflokkar. Annar þeirra er keppnisflokkur og heitir Önnur framtíð. Þar eru myndir alls staðar að úr heiminum sem fjalla um málefni sem koma okkur við. Í þessum flokki er til dæmis, Innsæi, mynd Kristínar Ólafsdóttur og Hrundar Gunnsteinsdóttur, sem fjallar um leit inn á við. Þar er líka mynd sem heitir Eyjarnar og hvalirnir, sem fjallar um Færeyjar, hvalveiðar og mengun í hafi, og Hvert viltu fara Fröken, sem fjallar um unga indverska konu sem vill vera leigubílstjóri.
Hinn heimildamyndaflokkurinn nefnist einfaldlega Heimildamyndir og hefur aðeins víðari skírskotun. Þar má nefna myndina Bobby Sands: 66 dagar, um hungurverkfall þessa írska lýðveldissinna, og alls ólíka mynd, Pöddur, sem fjallar um það að skordýr gætu verið lausn á hungri í heiminum, og Lúxus bensín, sem fjallar um hvað bensínstöðvar geta verið rómantískar, alveg stórkostleg mynd.
Ísland í brennidepli er flokkur mynda sem tengjast Íslandi. Þar má nefna Sundáhrifin sem Solveig Anspach gerði. Við sýnum líka Ransacked eftir Pétur Einarsson, þar sem sagt er frá áhrifum hrunsins á líf venjuleg fólks. Við sýnum hvorki meira né minna en tvær myndir um Baskamorðin og í þessum sama flokki er þýskur krimmi sem er tekinn á Vestfjörðum, allir helstu leikarar eru íslenskir en talið er á þýsku.
Á hátíðinni er beint sjónum að Póllandi og sýndar pólskar myndir, bæði myndir í fullri lengd og stuttmyndir, flestar nýjar og mjög spennandi. Við erum m.a. með lítinn fókus á Michal Marcak og sýndum tvær myndir eftir hann; Ríðum fyrir skógana; mynd um umhverfissamtök sem safna fjármunum með því að dreifa klámi, og Svefnlausar nætur, mynd sem vann á Sundance í ár. Þá verður málstofa næstkomandi föstudag í Norræna húsinu kl. 15 þar sem meðal annars verður fjallað um pólskar kvikmyndir og ný lög um ritskoðun stjórnvalda. Þá um kvöldið höldum við pólskt partí sem er öllum opið á Hlemmi Square til að fagna stórum hópi pólskra kvikmyndagerðarmanna sem koma sérstaklega til landsins til að fagna pólskum fókus á RIFF. Pólverjar eru stærsti innflytjendahópurinn á Íslandi og það er gaman að geta vakið athygli á menningu þeirra, manni finnst stundum að það sé ekki gert nóg af því.“
Fjölmargir erlendir gestir sækja hátíðina. Þar á meðal eru leikstjórarnir Darren Aronofsky og Deepa Mehta sem fá heiðursverðlaun hátíðarinnar í ár. Brontis Jodorowsky, sonur hins virta Alejandro Jodorowsky, kemur á RIFF og kynnir myndir föður síns og verður með ókeypis meistaraspjall á laugardaginn kl. 17 í Norræna húsinu.
„RIFF er eins og það að fara í leikhús, maður verður að drífa sig, annars missir maður af sýningunni. Langflestar myndir sem sýndar eru á RIFF verða ekki annars sýndar hér á landi.“
Hrönn er spurð hvort hátíðin veki athygli utan landsteinanna? „Já, hún er komin á hið alþjóðlega kvikmyndahátíðakort. Ég bauð Helgu Stephenson á fyrstu kvikmyndahátíðina. Hún er Vestur-Íslendingur og einn af stofnendum Toronto- kvikmyndahátíðarinnar og henni er mjög mikið þakkað hversu virt sú hátíð er orðin. Helga hefur aðstoðað mig mikið við uppbyggingu RIFF. Ég á henni mikið að þakka. Við erum með dagskrárstjóra sem vinna fyrir stórar kvikmyndahátíðir eins og þær í Toronto og Feneyjum. Þeir velja og veita ráðgjöf um myndaval.
Það sem gerir þessa hátíð sérstaka er að við sýnum mikið af splunkunýjum myndum og í mörgum tilvikum er um að ræða Norðurlandafrumsýningar, og Evrópufrumsýningar. Við erum að bjóða upp á það nýjasta og ferskasta í alþjóðlegri kvikmyndagerð í dag. RIFF er eins og það að fara í leikhús, maður verður að drífa sig, annars missir maður af sýningunni. Langflestar myndir sem sýndar eru á RIFF verða ekki annars sýndar hér á landi.
Hátíðin er líka mikilvægur hlekkur í því að vekja athygli erlendra kvikmyndagerðarmanna á Íslandi sem kvikmyndagerðarlandi. Hátíðin hefur í mörgum tilvikum orðið til þess að þeir kvikmyndagerðarmenn sem hingað koma vilja koma aftur og vinna með Íslendingum við gerð kvikmynda sinna hér á Íslandi.“