Önnur þáttaröð hina geysivinsælu þátta Ófærð fer í loftið hér á landi haustið 2018. RVK Studios og RÚV hafa náð samkomulagi um að hefja vinnu við nýja seríu.
Þættirnir nutu vinsælda hér á landi, en voru einnig vinsælir erlendis þar sem þeir voru sýndir.
„Um 5,7 milljónir sáu fyrstu þætti Ófærðar í Frakklandi og að meðaltali horfðu 1,2 milljónir á þættina á BBC 4 í Bretlandi. Breskir og Franskir fjölmiðlar voru á einu máli um að hér væri mjög góð sería á ferðinni og er hún á lista The Guardian yfir 10 bestu sjónvarpsseríur ársins. Ófærð verður frumsýnd á ZDF í Þýskalandi nú í haust,“ segir í tilkynningunni.
Fyrsta sería Ófærðar var framleidd af Baltasar Kormáki og Magnúsi Viðari Sigurðssyni og handritshöfundar voru Sigurjón Kjartansson og Clive Bradley. Sigurjón mun áfram leiða skrifin en í hópinn hafa nú bæst þær Yrsa Sigurðardóttir og Margrét Örnólfsdóttir.
Baltasar segir í tilkynningunni að hann sé ánægður með að samningar hafi tekist. „Það má kannski segja að sagan sé rétt að byrja því við eigum eftir að kynnast söguhetjunum mun betur og fylgjast með þeim leysa fleiri margflóknar morðgátur,” segir Baltasar Kormákur.