Netflix staðfestir að önnur þáttaröðin fari í loftið á næsta ári
Netflix hefur staðfest að önnur þáttaröð verði gerð af þáttunum Stranger Things. Þættirnir slógu rækilega í gegn í sumar og eru raunar í hópi bestu þátta sem gerðir hafa verið samkvæmt IMDB.com.
Þættirnir segja frá ungum dreng í litlum smábæ sem hverfur sporlaust inn í aðra vídd okkar heims og leit móður hans, vina og annarra í bænum að sannleikanum um hvarf hans. Þættirnir hafa á sér dulúðlegan og yfirnáttúrulegan blæ og það virðast áhorfendur hafa kunnað að meta. Fjölmargar vísanir eru í verk eftir til dæmis Stephen Spielberg og Stephen King í þáttunum.
Netflix staðfesti á Twitter-síðu sinni nú í hádeginu að önnur þáttaröðin fari í loftið árið 2017.
Mennirnir á bak við þættina, bræðurnir Matt og Ross Duffer, höfðu áður látið hafa eftir sér að önnur þáttaröðin væri komin á teikniborðið, þó Netflix hafi ekki staðfest eitt eða neitt, fyrr en nú. Munu atburðirnir í annarri þáttaröðinni tengjast atburðunum í þeirri fyrstu, að einhverju marki að minnsta kosti.
„Fyrsta þáttaröðin gerðist á sex eða sjö daga tímabili – sem er mjög skammur tími. Hugmyndir okkar með annarri þáttaröðinni er að leiða í ljós og skoða afleiðingar og eftirmál þeirra atburða sem gerðust í fyrstu seríunni,“ sagði Matt við fjölmiðla fyrir skemmstu.
The adventure continues. @Stranger_Things 2 is coming 2017. pic.twitter.com/wD6BamGfuR
— Netflix US (@netflix) August 31, 2016
Sýnishorn úr fyrstu seríunni: