Sjónvarpsþáttaröð um snillinginn
Geoffrey Rush bregður sér í hlutverk Alberts Einstein í bandarískum sjónvarpsþáttum um snillinginn, sem bera einmitt heitið Genius. Þættirnir eru byggðir á ævisögu Einsteins eftir Walter Isaacson. Johnny Flynn leikur Einstein á unga aldri. Þættirnir verða frumsýndir á næsta ári á National Geographic og sýndir í um 170 löndum.
Enginn skyldi efast um hæfni Rush til að takast á við hlutverk Einsteins. Rush hefur fjórum sinnum verið tilnefndur til Óskarsverðlauna og hreppti þau fyrir leik sinn í Shine. Fyrir leik sinn í þeirri mynd fékk hann ekki einungis Óskarinn heldur einnig BAFTA-verðlaunin, Critics’ Choice-verðlaunin, Golden Globe-verðlaunin og Screen Actors Guild-verðlaunin. Hann vann til Emmy-verðlauna fyrir túlkun sína á Peter Sellers í sjónvarpsmyndinni The Life and Death of Peter Sellers og hefur einnig unnið til Tony-verðlauna fyrir sviðsleik. Hann er einn fárra leikara sem hafa hlotið Óskars-, Emmy- og Tony-verðlaun. Ekki er erfitt að veðja á að hann muni enn á ný sýna snilli sína í túlkun á Albert Einstein. Í framhjáhlaupi má geta þess að Rush leikur í nýrri Pirates of the Carribean mynd sem frumsýnd verður á næsta ári, en þar er hinn umdeildi Johnny Depp í aðalhlutverki.
Breski leikarinn Johnny Flynn, sem leikur hinn unga Einstein, hefur verið tilnefndur til verðlauna í heimalandi sínu fyrir sviðsleik og hefur einnig leikið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Hann er aðalsöngvari í hljómsveit sem hefur gefið út þrjár plötur.