Fréttastofa RÚV hefur dálæti á pöndum og lífgar reglulega upp á fréttatímann með því að segja okkur frá lífshögum þeirra. Reyndar gerir SKY fréttastofan það sama og sagði okkur á dögunum, alveg eins og RÚV, frá þríburapöndum í Kína sem senn fagna tveggja ára afmæli sínu. Með fylgdi vitaskuld fréttaskot af hinum ungu pöndum þar sem þær sátu að snæðingi og virtist líða alveg ljómandi vel þar sem þær nörtuðu í bambusstöngla. Þegar ég sá þessa frétt færðist bros yfir andlit mitt og það sama gerðist hjá enska og íslenska fréttaþulnum, báðir brostu blíðlega. Ég velti því fyrir mér hvort pöndufréttir hafi ekki yfirleitt þessi áhrif á fólk hvar sem það býr í heiminum.
Það er eitthvað einstaklega heillandi við pöndur. Þær eru vinalegar og krúttlegar og virðast búa yfir ákveðnu sakleysi sem fær mann til að fyllast umhyggju og löngun til að vernda þær. Krókódílar eru reyndar uppáhaldsdýrin mín, þeir eru svo voldugir og ógnvekjandi, og ég ber djúpa lotningu fyrir þeim. Það fer sæluhrollur um mig þegar ég sé þá en þeir fá mig aldrei til að brosa eins og pöndurnar. Enda varla hægt að brosa þegar maður sér dýr sem maður veit að myndi éta mann fengi það tækifæri til.
Undanfarið hafa fréttirnar á SKY verið þannig að stöðugt er hefðbundinn fréttatími rofinn til að segja frá hryðjuverkaárásum og morðum í Evrópu. Þannig hafa fréttamenn á SKY ekki haft ráðrúm til að segja mikið af fallegum fréttum, þær ljótu taka mestallan tímann. Bros fréttamannins á SKY þegar hann sagði frá pöndunum í Kína var einlægt. Það var eitthvað fallegt að gerast í heiminum og það tengdist dýrum en ekki manninum sem er stöðugt að skemma og eyðileggja, eins og við erum minnt á dag hvern í fréttatímum. Það má alveg vega upp á móti hinum drungalegu fréttum um illsku mannsins með því að minna okkur á eitthvað fallegt og skemmtilegt, eins og til dæmis afmæli pönduhúna í Kína. Frétt sem gleður okkur og fær okkur til að brosa blítt.
Pönduhúnunum ungu er fyrirfram óskað til hamingju með afmælið sem er 29. júlí. Megi þeir eiga sem flesta afmælisdaga og megi sjónvarpsstöðvar vera iðnar við að minna okkur á tilveru þessara fallegu dýra.