fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024

Er list leiðinleg?

Menningarpistill eftir Tómas Ævar Ólafsson

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 22. júlí 2016 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Er list leiðinleg?

Pistillinn birtist fyrst á heimspekivefritinu Heimspekiverksmiðjan.wordpress.com


Tómas Ævar Ólafsson

Loftræstikerfi hefur verið plantað í gólf listasafnsins Tate í London og ég velti því fyrir mér hvort þetta sé listaverk eða eftirmálar viðgerða sem hafa ekki enn ratað á haugana. Loks rek ég augun í skilti sem staðfestir að um listaverk er að ræða. Þrátt fyrir að loftræstingin sé nú listaverk þá á ég erfitt með að upplifa fagurfræðilega ánægju.

Líkami minn kvartar undan álaginu sem fylgir því að standa á steinsteyptu gólfi klukkutímum saman og reynir að sannfæra mig um að hlýða vellíðunarlögmálinu og setjast niður. Ég er þreyttur. Mér leiðist. Ég klára að skoða þau verk sem salurinn býður uppá, í flýti, bara til að hafa séð þau og finn mér svo sæti og velti vöngum yfir næstu máltíð. Pítsa.

Mikilvægi leiðinda

Föruneyti mitt hendist í strætó sem flytur okkur áleiðis til pítsunnar. Í strætó tek ég upp bókina Strange Tools; Art and Human Nature eftir Alva Noë og vonast til þess að fá einhverja útskýringu á þeim skrítnu verkum á safninu sem ég botnaði lítið í. Það sem ég fann var mun áhugaverðara. 9. kafli bókarinnar ber heitið „Why is Art so Boring?“ og fjallar einmitt um leiðindi listarinnar.

Leiðindi eru fyrir fullorðnum sú óþægilega tilfinning að vera föst í hinu óendanlega og tilgangslausa.

Samkvæmt rökræðu Noë spila leiðindi mikilvægt hlutverk þegar við skoðum listaverk. Sem börn upplifum við gjarnan leiðindastundir þar sem tíminn virðist varla færast úr stað. Til dæmis á aðfangadag þegar við biðum eftir því að klukkan yrði sex en klukkur heimilisins virtust hafa sammælst um það að líða ekki. Eða þegar við lágum veik heima á sólríkum sumardögum og heyrðum í krökkum hverfisins skemmta sér konunglega í útileikjum. Þegar við svo eldumst og verðum sjálfráða einstaklingar í 9 til 17 prógramminu með börn og búslóð þá er eins og leiðindastundirnar leysist upp í hið daglega amstur og sá friður sem fæst þegar börnin eru sofnuð er síðan yfirleitt fylltur upp með neyslu á efni sem kemur í veg fyrir leiðindi. Fullorðnum einstaklingum leiðist yfirleitt ekki. Leiðindi eru fyrir fullorðnum sú óþægilega tilfinning að vera föst í hinu óendanlega og tilgangslausa.

Neyslusamfélag okkar gerir almennt sitt besta að koma í veg fyrir leiðindi og nú beinast spjót þess að börnum okkar með því að væða þau snjallsímum. Grínistinn Louis C. K. leiðir þetta í ljós í spjallþætti Conans O’Brien þar sem hann segir símanotkun koma í veg fyrir þróun samkenndar hjá börnum því þau missa af beinum viðbrögðum annarra þegar þau senda skilaboð sín á milli, einnig missa þau af þeim mikilvæga þætti lífsins að einfaldlega sitja þarna. Sjálfur segist Louis vera háður símanum sínum – hann er flóttaleið hans frá því að upplifa ekkertið, sem býr að baki öllu sem hann er, það er sú óþægilega tilfinning að festast í hinu óendanlega og tilgangslausa.

Utan regluverksins

þó við segjum að list geti verið leiðinleg þá er ekki þar með sagt að hún sé slæm. Góð list getur verið leiðinleg.

Listin gerir okkur kleift að leiðast aftur. Sem fullorðnir einstaklingar – öll föst í einhverju – fáum við að upplifa leiðindin aftur á listasöfnum, galleríum og sýningum. Við skulum gæta greinarmunar: þó við segjum að list geti verið leiðinleg þá er ekki þar með sagt að hún sé slæm. Góð list getur verið leiðinleg. Leiðindi eru mikilvægur hluti listarinnar. Listin dregur okkur úr hversdeginum og kynnir okkur fyrir hlutum sem hafa ekki beint hlutverk í lífi okkar nema það að vera það sem þeir eru. Listaverk eru ekki tæki sem við getum notað eða skemmtiefni sem við neytum. Þau fara fram á að við hættum að gera og fara fram á að við gerum ekki. Þau eru gagnslaus tæki.

Listin dvelur einnig handan reglna. Það er ekkert regluverk sem við getum flokkað alla list innan. Ef slíkt væri til þá myndu listamenn keppast um að afbyggja það. Því er okkur ómögulegt að skilja listina til hlítar líkt og við getum skilið fótbolta. Fótbolti er spilaður innan regluverks sem auðvelt er að skilja og taka þátt í. Ánægjan sem við drögum af fótbolta er af því dregin hvernig leikmenn geta spilað innan og út í jaðar reglnanna sem er vissulega eins konar list útaf fyrir sig. Listaverk hafa hins vegar ekki ramma til þess að spila innan eða út í jaðar. Þau skapa sínar eigin reglur líkt og ofurmenni Friedrichs Nietzsche sem tekur ekki tillit til þrælasiðferðis heldur skapar sitt eigið siðferði, sín eigin gildi. Þess vegna getum við ekki nálgast listina með neina forákvarðaða kassa til þess að flokka listaverkin í. Þau verða að fá að standa sem það sem þau eru og við verðum að koma til móts við þau þar sem þau hanga föst í hinu óendanlega og tilgangslausa.

Útreikningur og íhugun

Íhugandi hugsun er sú hugsun sem gaumgæfir merkinguna sem ríkir í öllu sem er.

Heimspekingurinn Martin Heidegger fjallar um ljóðlist á svipaðan máta og Alva Noë gerir um list í bók sinni. Samkvæmt Heidegger tengja ljóðin okkur við ákveðna tegund af hugsun sem er á undanhaldi í heiminum. Hann skiptir hugsun mannsins í tvo flokka sem hann kallar útreiknishugsun og íhugandi hugsun. Útreiknishugsun á sér stað þegar við áætlum, rannsökum og skipuleggjum og beinist aðeins að þeim aðstæðum sem eru gefnar. Hún er yfirleitt markmiðuð og þarf að skila niðurstöðum. Hún reiknar sífellt, þó ekki endilega í tölum. Hún beinist gjarnan að fjárhagsmöguleikum. Hún æðir úr einu í annað og staldrar aldrei við til þess að koma sér í jafnvægi. Íhugandi hugsun er sú hugsun sem gaumgæfir merkinguna sem ríkir í öllu sem er. Hún stígur frá veruleika útreikningsins og þarfnast tíma og æfingar til að þroskast og blómstra. Hún dvelur með hlutunum og leyfir þeim að sýna sig.

Manninum er íhugunin í blóð borin og hvaða manni sem er virðist mögulegt að stunda íhugun en hún krefst meira erfiðis en útreikningurinn og vegna þess virðist maðurinn vera á flótta undan þeirri tegund hugsunar, sem Heidegger nefnir síðar einfaldlega bara hugsun. Þessi íhugandi hugsun tel ég að sé að verki þegar okkur leiðist fyrir framan listaverkin. Þegar ég stóð fyrir framan loftræstinguna dæsandi yfir því að verkið hafði ekki lýsingu eða nafn sem gæfi til kynna hvað verkið merkir heldur var það bara þarna í veru sinni og píndi mig til þess að íhuga sig og dvelja í þeirri íhugun, sem ég gafst síðan uppá og flúði.

Listaverk eru leiðinlegir íhugunargripir. Þau gefa sig ekki innan reglna útreikningsins heldur standa þau til móts við okkur í óendanleikanum og tilgangsleysinu. Þau fara fram á að við yfirgefum útreikinginn og íhugum þau í veru sinni sem gagnslaus tæki. Að þessu leyti getur sum list verið leiðinleg en leiðindin eru vísbending um að íhugunar sé þörf til þess að nálgast verkið. Neyslusamfélag okkar hefur sjaldan tíma fyrir slíkt og til hvers að láta sér leiðast yfir verki – sem hefur ekki neina augljósa merkingu og getur fest mann í hinu óendanlega og tilgangslausa – þegar maður getur skemmt sér yfir rómantískri gamanmynd, kjamsað á poppi og sötrað kók á meðan börnin sofa?

Tómas Ævar Ólafsson.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Meghan Markle sagðist valdefla konur með fjárfestingu sinni – Nú er hún sökuð um „fátæktarklám“

Meghan Markle sagðist valdefla konur með fjárfestingu sinni – Nú er hún sökuð um „fátæktarklám“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Orðaðir við Zirkzee í janúar: ,,Hann er mjög góður leikmaður“

Orðaðir við Zirkzee í janúar: ,,Hann er mjög góður leikmaður“
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 klukkutímum

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið

Björn Jón skrifar: Tímabært að gera upp við landsdómsmálið
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

England: Brighton fékk óvæntan skell á heimavelli

England: Brighton fékk óvæntan skell á heimavelli
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Guardiola borðar og sefur illa: ,,Ég geri mikið af mistökum“

Guardiola borðar og sefur illa: ,,Ég geri mikið af mistökum“
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Samfélagið þurfi að hætta að segja körlum að girða sig í brók og leyfa þeim að berskjalda sig – „Karlmenn þurfa líka að gráta“ 

Samfélagið þurfi að hætta að segja körlum að girða sig í brók og leyfa þeim að berskjalda sig – „Karlmenn þurfa líka að gráta“ 
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Áhyggjuefni fyrir Arsenal? – Rice vildi fara af velli

Áhyggjuefni fyrir Arsenal? – Rice vildi fara af velli
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Missti hausinn eftir lokaflautið í gær – Liðsfélagi þurfti að bera hann af velli

Missti hausinn eftir lokaflautið í gær – Liðsfélagi þurfti að bera hann af velli