„Það er ekkert feminískt við hana annað en að hún er kona,“ segir leikkonan Susan Sarandon um Hillary Clinton í viðtali við Sunday Times. Sarandon, sem hefur stutt Bernie Sanders, bætir um betur og segir Hillary vera lygara og stríðshauk sem líkleg sé til að draga Bandaríkin í enn eitt stríðið. Leikkonan er þekkt fyrir ákveðnar skoðanir sínar á mönnum og málefnum. Hún barðist á sínum tíma gegn innrás Bandaríkjanna í Írak og segir að þá hafi bandarísk stjórnvöld látið hlera síma hennar. Sarandon er 69 ára gömul og nýjasta kvikmynd hennar er The Meddler sem fjallar um afskiptasama móður. Mótleikari hennar í myndinni er hinn stórgóði leikari J.K. Simmons. Myndin hefur hlotið góða dóma gagnrýnenda sem bera lof á frammistöðu Sarandon.