Leikarinn Burt Kwouk lék í sjö myndum um Bleika pardusinn
Burt Kwouk lést á dögunum 85 ára gamall. Hann er þekktastur fyrir leik sinn í myndunum um Bleika pardusinn þar sem hann lék Cato, aðstoðarmann lögreglustjórans Clouseau sem Peter Sellers túlkaði svo eftirminnilega.
Kwouk fæddist á Bretlandi en ólst upp í Shanghai, en foreldrar hans voru kínverskir. Fjölskyldan fluttist aftur til Bretlands þegar Kwouk var sautján ára. Tíu árum síðar kom hann fram í fyrstu kvikmynd sinni. Hann vakti heimsathygli fyrir leik sinn í myndunum um Bleika pardusinn en þar var samleikur hans og Peter Sellers fullkominn. Keyrt var á sama brandaranum í öllum myndunum en þar skipaði Clouseau þjóni sínum að ráðast á sig þegar hann ætti síst von á því. Viðureigninni lauk venjulega með því að íbúð Clouseau var lögð í rúst. Eftir að Sellers lést árið 1980 hélt Kwouk áfram að leika í myndunum um Bleika pardusinn en Roger Moore og Roberto Benigni fóru með hlutverk Clouseau í þeim myndum. Alls lék Kwouk í sjö myndum um Bleika pardusinn sem gerðar voru á árunum 1974–1992.
Kwouk lék aukahlutverk í þremur Bond-myndum. Goldfinger, Casino Royale og You Only Live Twice. Hann kom fram í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og lék langt fram á elliár. Bretadrottning sæmdi hann orðu breska heimsveldisins árið 2011. Kwouk skilur eftir sig eiginkonu, son og fjögur barnabörn.