Raunveruleikaþátturinn The Voice hefur unnið til fjölda verðlauna í Bandaríkjunum og vinsældirnar eru gríðarlegar. Söngkonan Christina Aquilera er þar meðal þjálfara og braut blað í keppninni þegar söngkona í liði hennar bar sigur úr býtum. Aquilera var þar með fyrst kvenþjálfara til að eiga sigurvegara í keppninni og fagnaði því vitanlega gríðarlega. Sigurvegari þáttarins var hin 34 ára gamla Alisan Porter. Hún er sannarlega ekki ókunn skemmtanabransanum, söng opinberlega strax barn að aldri og lék síðan í kvikmyndum, sú þekktasta er Curly Sue frá árinu 1991 en þar fór Jim Belushi með aðalhlutverkið. Alisan varð háð vímuefnum og hvarf úr sviðsljósinu. Hún fór í meðferð, giftist og eignaðist börn en sneri aftur í sviðsljósið þegar hún fór í blindprufur í The Voice þar sem hún söng Blue Bayou og heillaði jafnt þjálfara sem áhorfendur. Strax í upphafi þótti hún eiga sigurinn vísan og sú varð raunin.
Þjálfari hennar í keppninni, Christina Aquilera, er í hópi þekktustu söngkvenna heims. Þær Alisan Porter eiga það sameiginlegt að hafa hafið feril sinn á barnsaldri. Aquilera var á tímabili kölluð poppprinsessan, hún er 35 ára og hefur unnið til fjölda verðlauna á sérlega farsælum ferli.