Robin Wright barðist fyrir launajafnrétti
Leikkonan Robin Wright skín skært í Spilaborg og á köflum skyggir hún jafnvel á hinn magnaða mótleikara sinn, Kevin Spacey, en bæði hafa hlotið virt verðlaun fyrir leik sinn í þáttunum. Samt var vinna hennar ekki metin til jafns við hans, en eins og leikkonan hefur sjálf skýrt frá var Spacey með mun hærri laun fyrir vinnu sína í þáttunum en hún. Þetta hefði vissulega verið skiljanlegt hefði leikkonan verið í aukahlutverki í þáttunum en sjónvarpsáhorfendur vita hins vegar að svo var ekki. Underwood-hjónin eru bæði í sviðsljósinu og vægi þeirra í þáttunum nokkurn veginn jafnmikið. Því getur varla talist mikil sanngirni í því að Spacey fengi mun betur borgað en Wright.
Wright hefur komið fram í 52 þáttum í Spilaborg. Hún hefur meira að segja leikstýrt nokkrum þeirra og óneitanlega finnst manni að fyrir það hefði hún átt að fá ríflega aukagreiðslu. Wright segist hafa litið á tölfræði þar sem kom fram að á tíma naut frú Underwood meiri hylli sjónvarpsáhorfenda en eiginmaðurinn. Hún segist hafa nýtt sér þá staðreynd í launadeilum sínum við forsvarsmenn þáttanna. Þeir gáfu sig á endanum enda hefði ekki verið gott ef leikkonan hefði ákveðið að hætta leik í þáttunum og tilkynnt að það væri vegna launamisréttis. Nú eru þessir gæðaleikarar á sömu launum, eins og sanngjarnt er.
Það er merkilegt að kona sem hefur sannað hæfileika sína jafn ótvírætt og Robin Wright skuli hafa þurft að berjast af hörku fyrir því að fá sömu laun og karlkynsmótleikari sinn. Það getur ekki verið nein önnur skýring á launamuninum en kynferði. Það er vont til þess að vita að vinna leikkvenna sé ekki metin til jafns við vinnu karlleikara, en um leið er gott til þess að vita að þessi hæfileikaríka leikkona hafi risið upp og barist fyrir rétti sínum – og haft sigur.