Stórfróðleg bresk heimildamynd
RÚV sýnir iðulega stórfróðlegar heimildamyndir. Ein slík var á dagskrá á dögunum, breska myndin The Secret Life of Babies, og þar var fjallað um þroskaferli barna frá fæðingu þar til þau fara að ganga. Í þessari mynd var okkur margoft sýnt hversu úrræðagóð, dugmikil og þolin smábörn eru. Reyndar var svo mikið lof borið á hæfni barna í þessari mynd að sú óþægilega hugsun hvarflaði að manni að það væri ekki næstum því eins mikið spunnið í fullorðið fólk og börn. Já, auðvitað er það þannig. Börn eru svo miklu merkilegri en við hin fullorðnu sem þykjumst vitkast og þroskast með árunum en verðum einungis hversdagslegri og hugmyndasnauðari.
Smábörnin í þessari mynd voru öll einkar glaðleg og lífsglöð, enda hlæja þau venjulega 300 sinnum á dag. Hugsum um það! Hvað hlæjum við fullorðna fólkið oft á dag? Nokkrum sinnum, ef við erum svo heppin að hafa haldið í lífsgleðina. Kannski ættum við að reyna að ganga í barndóm eins og einn dag og hlæja 300 sinnum. Það væri merkileg tilraun. En við myndum örugglega mæta tortryggni náungans: „Af hverju liggur svona vel á þér?“, „Geturðu ekki hætt þessu stöðuga flissi?“. Og ef við myndum svara: „Mér finnst bara svo gaman að lifa að ég get ekki annað en hlegið“ þá yrði svarið sem við fengjum eitthvað í þessa átt: „Hættu þessum vitleysisgangi og farðu að gera eitthvað af viti!“
Leikarinn Martin Clunes (Dr. Martin) var þulur í þessari mynd. Það var notalegt að hlusta á hans góðu rödd og heyra áherslurnar. Tónninn í rödd hans kom því vel til skila að börn eru kraftaverk og við eigum að dást að þeim um leið og við verndum þau. Þau skynja og geta svo miklu meira en við höldum, en þau eru lítil og þurfa umönnun og hlýju.