John Nettles hætti í Midsomer Murders
Það er alltaf jafn notalegt að horfa á Midsomer Murders sem RÚV hefur verið iðið við að sýna. Á yfirborðinu er Midsomer friðsælt og fallegt hérað en sennilega hafa á fáum stöðum verið framin fleiri morð en þar og lögregluforinginn Tom Barnaby hafði því í nógu að snúast árum saman. Leikarinn John Nettles var góður í hlutverki Barnaby, býr yfir ákveðnum sjarma sem gerði að verkum að maður hafði gaman af að fylgjast með honum. Í framhaldsmyndaþáttum um löggur er einkalíf þeirra yfirleitt í rúst og þess vegna var falleg tilbreyting að verða vitni að því hversu Barnaby-hjónin voru hænd hvort að öðru. Maður vissi að aldrei myndi hvarfla að þeim að skilja. Gott að vita af góðum hjónaböndum á þessari siðlausu öld okkar.
Fyrir nokkrum árum hætti John Nettles leik í þáttunum og leikarinn Neil Dudgeon tók við sem Barnaby, samt ekki sem Tom Barnaby heldur sem John Barnaby, frændi hans. Ef Dudgeon hefði skyndilega birst í þáttunum og sagt: Ég er Tom Barnaby hefði maður hrist höfuðið. John Nettles var einfaldlega það góður sem Tom Barnaby að maður sér engan annan fyrir sér í hlutverki hans. En það er í góðu lagi að nýr leikari birtist og segist heita John og vera frændi Toms. Þannig leystu aðstandendur þáttanna ágætlega úr þeim vanda sem skapaðist þegar John Nettles hvarf á braut. Neil Dudgeon er traustur í hlutverki Barnabys frænda þótt hann hafi ekki sömu útgeislun og John Nettles. Á andlit hans er festur áhyggjusvipur sem virkar sannfærandi.
Morðin í Midsomer halda áfram, eins og þau hafa gert í svo mörg ár, og sýna okkur að undir friðsælu yfirborði leynist illska og grimmd. Morðin eru yfirleitt ekki sýnd í smáatriðum og koma manni því ekki í sérstakt uppnám. Maður veit að maður er að horfa á afþreyingu og nýtur þess.