Zootropolis
Hvað ef Mikki refur væri ofsóttur af dýrunum í Hálsaskógi fyrir það eitt að vera eins og hann er? Hver ofsækir hvern er stundum spurning um sjónarhól. Bæði vinstri- og hægrimenn telja fjölmiðla vera með hinum í liði. Í Ísrael og Palestínu líta báðir aðilar á sig sem lítilmagnann að berjast fyrir tilverurétti sínum, og svo mætti lengi telja. Stórar spurningar allar, og varla hefði maður búist við að Disney-teiknimynd yrði mikilvægt innlegg í umræðuna.
En það er Zootropolis einmitt, og rétt eins og Inside Out var besta mynd síðasta árs er þetta besta myndin í almennum sýningum hérlendis það sem af er ári. Það er ekki að því að spyrja að stórborg dýranna er mikið konfekt fyrir augað og hressilegir brandarar á hverju strái. Refurinn og kanínan eru ferskt innlegg í hið oftast þreytta „buddy-cop“ form. Vísanir í Guðföðurinn og Breaking Bad þjóna tilgangi í stað þess að vera útúrdúrar. Og J.K. Simmons er frábær í litlu en veigamiklu hlutverki borgarstjórans.
En það eru pælingarnar sem standa eftir þegar upp er staðið. Vissulega eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir, en þýðir það að allir eigi að vera eins? Og hvaða meirihluti er það sem ákveður hvað það er að vera eins? Zootropolis er frábær ádeila á múgæsing og fordóma af öllum stærðum og gerðum, en tekst líka að gefa manni trú á að allir geti á endanum fengið að vera það sem þeir vilja. Og síðast en ekki síst er hún afbragðs skemmtun. Geri aðrir betur.