fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
Fókus

Einfaldlega frábær

Doc Martin snýr aftur á RÚV

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 8. mars 2016 11:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Doc Martin er kominn aftur á dagskrá RÚV. Nokkur tími er liðinn frá því síðustu þáttaröð lauk og það er rík ástæða til að fagna því að ný þáttaröð skuli vera tekin til sýninga. Síðustu þáttaröð lauk á ansi dapurlegan hátt með því að eiginkona Martins læknis yfirgaf hann. Ekki var það gott. Það gengur einfaldlega ekki í gamanþætti eins og þessum að aðalsöguhetjan skuli þurfa að þjást lengi. Það stórsá á Martin lækni í fyrsta þættinum sem RÚV sýndi á fimmtudagskvöldið. Martin læknir saknar greinilega eiginkonu sinnar og það er nauðsynlegt að hún snúi aftur til hans. Bæði er sálarheill Martins læknis í húfi og ekki síður sálarheill okkar áhorfendanna. Við höfum eytt dágóðum tíma í áhorf á Martin lækni og ætlumst til að allt fari vel að lokum.

Það er hreint óþolandi þegar þættir sem maður hefur eytt tíma í að horfa á enda illa. Ég man enn eftir frönskum spennuþætti í þrettán þáttum sem endaði á því að aðalpersónan var sprengd í loft upp af illmennum sem höfðu elt hana á röndum alla þáttaröðina. Ég varð alveg æf, ef ég hefði vitað hvernig fór hefði ég aldrei byrjað að horfa á þann þátt. Þrettán klukkustundum af ævi minni hafði verið eytt til einskis. Það eru mörg ár síðan þetta var en ég man þetta enn og það er ekki góð minning!

Hvað um það. Martin læknir er á ný orðinn heimilisvinur okkar. Mikill snillingur er leikarinn sem túlkar hann, Martin Clunes. Hann hefur skapað einstaka persónu sem er ljóslifandi og afar minnisstæð. Martin læknir er afundinn og úrillur þumbari sem er ekki gefinn fyrir glens og gaman. Manni ætti ekki að þykja vænt um hann en samt verður ekki hjá því komist að láta sér annt um hann. Hann meinar vel en kann einfaldlega ekki á mannleg samskipti. Það er ekki auðvelt að þekkja hann og afar erfitt að vera konan hans, en við vonum samt að eiginkonan komist að því að hún vilji ekki vera án hans. Stundum sigrar ástin allt. Vonandi verður svo í þetta sinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Missti 30 kíló eftir að hann hætti á Ozempic

Missti 30 kíló eftir að hann hætti á Ozempic
Fókus
Í gær

Frosti rifjar upp stóra tónlistarverðlaunamálið – „Í fyrsta skipti þar sem var gerð massíf tilraun til að slaufa mér“

Frosti rifjar upp stóra tónlistarverðlaunamálið – „Í fyrsta skipti þar sem var gerð massíf tilraun til að slaufa mér“